09.05.1911
Sameinað þing: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í B-deild Alþingistíðinda. (131)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Bjarni Jónsson:

Það hefir verið talað hér um ýms mál, og sérstaklega um það, hvernig þingið hafi gengið frá fjárlögunum, og þar sem hv. 5. þm. kkj. hefir sagt það í samhengi, sem aðrir ræðumenn hafa tekið fram, þá læt eg mér nægja að svara honum einum. Eg skal ekki deila um það, hvort tekjuhallinn á fjárlögunum sé nú meiri eða minni en áður. Það mál kemur okkur ekki við. Það er að eins fyrir sagnaritara, sem nenna að fást við það. Hitt skiftir nokkuð meira máli, hverjum fjárhagsástandið er að kenna. Hv. 5. kon.kj. vildi kenna það öðrum þingflokknum, Sjálfstæðisflokknum. En það er ekki hægt, af þeirri einföldu ástæðu, að hinn flokkurinn er í meiri hluta í annarri deildinni og ástandið því báðum flokkum að kenna. Meiri hlutinn hefir séð flest sín áhugamál feld í Ed., en hann á þá, hvað fjárhaginn snertir, aðallega þá einu sök, að hann hefir ekki viljað brúka vald sitt til þess að níða fjárveitingu af mótstöðumönnum sínum. Eg get bent á margt, sem hann hefir veitt af fúsum vilja, svo sem Rangárbrúna, Eyjafjarðarveginn o. fl., sem mönnum er kunnugt um, og eg hirði ekki um að vera að telja upp. Þetta hefir hann gert tregðulaust, því hann hefir ekki litið svo á, að fjárlögin yfirleitt væru flokksmál. En þar sem fleiri hækkunartillögur hafa nú komið frá meirihlutanum, þá er það eðlilegt, því að hv. Ed. hefir áður felt svo mikið burt fyrir honum. En hinn flokkurinn þarf enga br.till. að bera fram, vegna þess, að hann hefir komið sínum till. fram í Ed. og meiri hlutinn í Nd. ekki felt þær burt. Annars leiðist mér að vera að halda hér kjörfundarræðu, eg hygg, að deilumálin á kjörfundunum verði nóg, þó að við byrjum ekki hér. Þá er eg neyddur til að minnast nokkurum orðum á viðskiftaráðunautinn og orð hv. 5. kon.kj. um hann. Eg vil fyrst lýsa undrun yfir því, að sú nefnd hér á þinginu, sem hann mun vera formaður fyrir, skuli vera að setja skæting í mig, þar sem hún hefir alls ekki verið valin til þess að rannsaka mínar gerðir. Auðvitað gat hún, þar sem hún átti að rannsaka gerðir fráfarandi stjórnar, komið með sitt vitlausa álit um brúkunina á fénu, en hún gat látið vera með að setja skæting í mig og koma með þennan vana blaðamannaskæting, að óvíst væri hvort það bæri að telja sem tekju- eða útgjaldamegin, þegar eg væri hér heima á Íslandi. Það er ekki sæmandi að vera að setja slíkt í varnarlausan mann, sem ekki einusinni veit, að verið er að ræða um hann. Það var að eins fyrir velvild skrifarans í nefndinni, en ekki formanns, að eg fekk að vita um þetta á seinustu stundu, og eg býst við að mér verði ekki meinað rúm í þingtíðindunum til að svara þeim hnútum og ósannindum, sem um mig og mitt starf starf standa í skýrslu þessarar nefndar; því á eg heimtingu á. Nefndin hefir ekki einu sinni sýnt mér þá kurteisi að kalla mig á fund sinn. Hún hefir lesið sumt úr skýrslum mínum og formaður hefir á því bygt dóm um mig og hefi eg því meiri ástæðu til þess að heimta að svar mitt verði prentað í þingtíðindum sem viðbót aftan við.

(Lárus H. Bjarnason: Alt, sem í skýrslunni stendur er skjallega sannað).

Það er skjalarasönnun. Mitt starf er mikið meira en það, sem skýrslurnar til stjórnarinnar bera með sér. Menn hafa nýlega hér á þinginu samþykt einn árangurinn af mínum gerðum, gufuskipaferðir milli Íslands og Svíþjóðar, þó að aðrir hafi veitt mér góða aðstoð í þessu efni, og þá helzt Ragnar Lundborg, sem hefir mikinn áhuga á okkar málum. En þann áhuga hefði hann ekki, ef hann hefði ekki komist í kynni við góða Íslendinga. En auðvitað fer það hér, sem oftar, að enginn getur verið almáttugur, og eg geri ekki meira en eg get. En eg hefi átt því láni að fagna, að þeir menn, sem hafa tekið eftir starfi mínu, hafa orðið mér velviljaðir, því að eg hefi aldrei sagt annað en það, sem eg sjálfur hefi álitið rétt, hvort sem hv. 5. kon.kj. segir annað eða ekki. Þá hefir verið sagt, að eg hafi fengið 11,000 kr. meira fé, en eg átti að fá, og er þar vitnað í einn bókstaf, þannig, að í lögunum stendur eignarfall í fleirtölu, til viðskiftaráðunauta, sem líklega er prentvilla. En segjum nú, að það sé ekki prentvilla. Hvernig ályktar hv. 5. konkj. þá? Hann segir, að stjórnin hafi átt að skipa 2 viðskiftaráðunauta, en það er bara sá galli á, að það stendur hvergi í lögunum, né heldur að þeir skuli hafa jafnt kaup, þó þeir væru tveir. En ráðherra hafði fyrir sér ákveðinn vilja þingsins í fjáraukalögunum, þar sem voru veittar 11,000 kr. til tveggja ráðunauta, og átti hvor að fá 5000 kr. í ½, enda hefði engum manni getað dottið í hug að senda mann, sem hefði slík útgjöld og viðskiftaráðunauturinn hlýtur að hafa, með minna fé. Eg skal líka geta þess, að margir menn í Danmörku öfunduðu mig af þessum 10 þús. kr. launum, en þegar þeir vissu, að eg átti að borga af þeim í ferðakostnað líka, þá sögðu þeir, að þeir mundu ekki kæra sig um stöðuna. En því er ekki að neita, að staðan er sæmileg, eftir því sem á Íslandi er borgað, en heldur ekki meira. Eg get því lýst því yfir, að ráðherra hefir farið hér rétt að og stuðst við álit alls þingsins. Reikningur nefndarinnar er því rangur. Annars væri það gaman að líta yfir störf þessarar nefndar, sem formaðurinn í brúkar svo stór orð. Eg hefi ekki haft tíma til þess að gera það, því að formaður var svo hygginn að láta ekki útbýta henni fyr en á seinustu stundu, svo að einginn hefði tíma til að athuga hans miklu verk.

Hv. 5. konungkjör. sagði, að eg hefði verið mikið hérlendis. Það er alveg rétt, því viðskiftaráðunautsstarfið er svo vaxið, að það heimtar, að maðurinn sé eins mikið hér og erlendis. Því er nú svo varið hér hjá okkur, að ef maður vill gera gagn, þá verður maður að fara til einstakra manna að fyrra bragði, og spyrja þá að því, hvort ekki sé hægt að verða þeim að einhverju liði. Aftur á móti hafa margir útlendingar spurt mig og leitað upplýsinga hjá mér.

(Jón Ólafsson : Hversvegna bara þeir ?)

Af því að þeir hafa ekki hlaupið eftir níði, rógi, flokkshatri einstakra blaða og manna hér heima, sem gera ekki annað en hrópa út hnútyrðum um mig og láta það líka stöðugt kveða við, hvað lítið skyn eg beri á verzlun og viðskifti. En það er ekki sannað, að þeir séu um það fróðari, sem digurbarklegast tala; það bylur mest í tómri tunnu.

Hv. 5. konkjör. sagði og, að hann skildi þessa tillögu um viðskiftaráðunautinn svo, sem menn væru að leggja kapp á að viðurkenna gerðir fráfarins ráðherra. Þetta er rangt, því að flokkurinn allur, bæði þeir, sem voru með vantraustsyfirlýsingu á ráðherra og hinir, eru allir sammála um það, að hér hafi verið rétt með farið. En kappið er það, að flokkurinn vill ekki að svo nytsamlegt starf sé látið niður falla. Um mína starfsemi skal eg ekki tala mikið. Eg segi það alls ekki, að eg sé sá eini færi maður í þessa stöðu, en starfið er nauðsynlegt, og það vill flokkurinn ekki að falli niður. Eg get bent á að eins eitt atriði, sem hefir beinlínis margborgað alt það fé, sem varið hefir verið til viðskiftaráðunauts, og það er verðhækkunin á hestum á seinasta ári, sem er starfsemi viðskiftaráðunautsins að þakka. En auðvitað er ótalinn allur sá óbeini hagur af starfseminni, því að starfið er svo vaxið, að það er ilt að reikna hann út. Það er t. d. ekki hægt að sýna það með tölu, hvaða hagur hefir verið að því, að eg hefi sagt mönnum hundruðum saman í útlöndum nöfn á íslenzkum kaupmönnum og heldur ekki hvaða hagur hefir orðið að þeim fyrirlestrum, sem eg hefi haldið um Ísland og Íslendinga. Hann er allur óbeinn og getur ekki komið þannig í ljós, að hægt sé að sanna hann með tölum.

Það er ómögulegt að segja, hvaða gagn hefir hlotist af fyrirlestrum þeim, er viðskiftaráðunauturinn hefir haldið og birzt hafa í blöðum og tímaritum um endilangan Noreg, Svíþjóð og Danmörku. Það er Sjálfstæðisflokkurinn sem álítur, að starfið sé nauðsynlegt og til mikils gagns og vill ekki að því verði hætt. Og það að starfið er bundið við mitt nafn, er ekki eftir beiðni minni eða undirróðri frá mér, heldur er það eftir beiðni margra í flokknum.

(L. H. Bjarnason: Erindisbréfið ?)

Já, erindisbréfið. Því vill flokkurinn halda óbreyttu, til þess að vera viss um að starfinu sé hagað svo sem hann vill. En flokkurinn nefnir mig til, af því að hann treystir því, að eg muni halda svo fram stefnunni sem hann vill vera láta. Mín skoðun er sú, að viðskiftaráðunautsstaðan er afarnauðsynleg, hvort heldur hún er bundin við mitt nafn eða ekki. Ræðumaður bar saman laun mín og svonefndra „Handelstipendiater“ í Noregi. Það tvent er ekki saman berandi. Þar sem að þeir er þau „Stipendier“ hafa fara sérstaka ferð til einhvers sérstaks lands, og auk þess fá þeir allan ferðakostnað. Eg veit það, að skýrir menn og þeir er hafa ferðast um útlönd vita, hve dýrt er að ferðast um þar, og geta þessi ummæli þeirra ekki verið til annars ætluð en að reyna að blekkja fólk, bæði þingmenn og aðra úti um land, með því að láta fólk fá þá skoðun að verið sé að ausa í mig fé.

Niðurjöfnunarnefnd Reykjavíkur hefir eftir þeim ítarlegu upplýsingum, er hún hefir fengið, komist að þeirri niðurstöðu, að árstekjur mínar væru 5000 kr. og finst mér sjálfum það vera réttlátt, eða að minsta kosti eigi svo miklu hærra réttu, að mér þætti þess vert að heimta lækkað útsvar mitt. Vil eg vísa hv. ræðum. til hennar, svo að hann geti gengið úr skugga um, að eg fer með rétt mál. Heiðr. ræðum. segir, að eg hafi ekki lýst manni þeim glæsilega, er var fyrir mína hönd í Ítalíu. Hann las: „Maðurinn þykir fljóthuga og stórhuga, en fremur laus í rás“, og „Enn er þess ógetið, að maður þessi átti áður stóreignir, en er nú illa staddur og á erfiðar fjárreiður.“ En hann las ekki: „að maður þessi hefir áhuga á mörgu og er jafnan nokkuð gott í tillögum hans, og margt á þeim að græða, en fara verður varlega. Svo segir núverandi verzlunarráðgjafi Dana. Hefir Jensen átt tal við hann um flutning á dönsku kvikfé á ítalskan markað. Þótti margt gott í tillögum hans og athugar danska stjórnin með athygli, hvað úr megi verða.“ Sést af þessu, að formaður rannsóknarnefndarinnar kann að fara á snið við sannleikann í rannsókn sinni, er hann les svo villandi prentað mál, sem hann hefir sjálfur lagt fram fyrir þm. til lestrar. Hann reiðir sig auðvitað á að menn séu ekki farnir að lesa það ennþá.

Að eg fór að spyrjast fyrir um mann þann, er að nokkru var umboðsmaður minn á Ítalíu, áleit eg ekki nema rétt og varkárt, af hverjum manni sem var samvizkusamur, og hefði ræðum. verið skyldara að lofa mig fyrir.

Ekki er það heldur rétt, að þetta sé mín eigin yfirlýsing, heldur eru þetta svör danskra manna upp á fyrirspurn frá skrifstofustjóra Jóni Krabbe. Hefði átta að virða mér þetta heldur til hróss en til lasts, og sýnir það að minsta kosti að ekki vantar viljann, þótt getuna kunni að vanta.

Eg hefi nú hér með sagt alt það er eg þurfti að segja, en vil bara benda á það viðvíkjandi heimavist minni og þingsetu, að eg álít það, þvert á móti skoðun hv. þm. Ísfirðinga, kost, að viðskiftaráðunauturinn sé alþingismaður. Það er enginn efi á því, að það vekur heldur og að miklum mun traust manna á honum en hitt. Viðvíkjandi því er hæstv. ráðherra sagði, að það lýsi vantrausti til stjórnarinnar að viðskiftaráðunautsstaðan sé bundin við nafn, þá vil eg að eins benda á það aftur, að það er ekki eftir minni uppástungu, heldur flokksins í heild sinni.

Hv. ræðum. sagði líka, að póstflutningsgjaldið kr. 6000,00 ætti ekki að greiða gufuskipafél. „Thore“, þar sem það hefði landssjóðsstyrk, en eg vil bara taka það fram, að þar er að eins átt við þau skip, sem ganga milli landa ákveðnar ferðir, en um annan póstflutning sé eftir sérstöku gjaldi. Þar að auki fer fjöldi skipa ekki eftir fastri áætlun, og álít eg það gróða en ekki tap að geta fengið póst fluttan með þeim skipum öllum fyrir ekki meira gjald.

Efast eg um að það sé rétt, er hv. ræðum. sagði áðan um þm. Ísfirðinga og orð hans um mig. Mun hann þar vera sá Ratatöskur, sem bera vill öfundarorð milli mín og hans.

Þá var fjárveitingin til Bjargtangavitans. Eg get ekki séð, að þurfi að fella þá fjárveitingu burt, þótt ekki sé upplýst enn um kostnaðinn; því að eftir lýsingu ræðumanns á fjárhagnum ætti það ekki að saka mikið, þótt einhver afgangur yrði af fjárveitingunni.

Sama er að segja um koparsíma til Ísafjarðar, að alt var það rangt, er ræðum. sagði um hann. Því traustari og betri hann er þess tryggara er sambandið fyrir alla þá, er þann síma nota. En fátt getur verið fráleitara en að telja þessa fjárveitingu veitta Barðastrandarsýslu og Vestur-Ísafjarðarsýslu. Hv. 5. kgk. ætti að vita, að þær eru ekki á símaleið frá Borðeyri til Ísafjarðar og njóta því eigi meira góðs af koparsímanum en hvert annað hérað, sem er í sambandi við Ísafjörð. En alt er á sömu bókina lært hjá honum.