20.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1107 í B-deild Alþingistíðinda. (1311)

81. mál, erfðafjárskattur

Pétur Jónsson:

Eg vil gera dálitla grein fyrir breyt.till. mínum á þskj. 223. Eg legg til, að stighækkun erfðafjárskattsins haldi áfram upp í 100%. Býst eg við það þyki freklega farið. En þess er að gæta, að breyting þessi frá tillögu nefndarinnar kemur ekki fram á minni arfi úr 1. flokki en 40,000 króna. Mun það því lengi vel fyrst um sinn hafa litla þýðingu hér á landi, því arfar eru hér ekki svo stórir. Það mun og hafa meiri áhrif í þá átt, að ríkir menn ráðstafi eignum sínum í lifanda lífi og verður það að teljast til umbóta.

Eg gæti talað langt mál um það, hve stórerfðir eru óheppilegar og oft skaðlegar, bæði einstaklingum og þjóðfélaginu. Í þetta sinn geri eg mínar tillögur eingöngu til þess, að koma þessum skoðunum á flot, það er þá ekki ólíklegt að þetta komist í lög seinna, þegar tími og hugsunarháttur er breyttur. Eg skal til skýringar geta þess, að af miljónararfi hyrfi síðasta þúsundið alt í skattinn, og erfðafjárskatturinn yrði 555 þús. kr. eða meira en helmingur arfsins. Stighækkunin eftir minni till. er fremur hæg á lágum örfum og enda minni en t. d. í Danmörku. Að því leyti hafa menn ekki ástæðu til að forðast hana.

Breytingartillaga háttv. þm. Dal. (B. J.) fer fram á mikið örari stighækkun, og má vera að ýmislegt mæli með því. En mér finst mín tillaga ísmeygilegri og þó ná miklu lengra.