28.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1109 í B-deild Alþingistíðinda. (1315)

81. mál, erfðafjárskattur

Framsögum. (Ólafur Briem):

Það hafa orðið nokkrar breytingar á þessu frv. frá því sem það var samþykt hér í deildinni. Flestum þeirra hefir nefndin getað gengið að. Breytingin við 1. gr. er að eins orðabreyting. Við 2. gr. hefir verið gerð sú breyting, að erfðafjárskattur af annari erfð sé hækkaður úr 5 og 5½ af hundraði upp í 5½ og 6 af hundraði á 1. og 2. þúsundinu og er þetta í samræmi við skattinn af þriðju erfð, sem er 11 og 12 af hundraði. Þessi breyting er að eins gerð til þess að koma samræmi á og getur nefndin því gengið að henni.

3. breytingin er við 3. gr. og er þess efnis, að aðeins af fasteignum hér á landi, sem falla í arf við skifti, er fara fram í útlöndum, skuli greiða erfðafjárskatt til landssjóðs. En aftur á móti á þetta ákvæði ekki að gilda um lausafé. Þó skulu skip, sem hér eru skrásett talin fasteign.

Við 6. gr. er gerð sú breyting, að í stað þess að eftir frumvarpi því, er samþykt var hér í deildinni, átti stjórnarráðinu að vera heimilt að undanþiggja frá erfðafjárskatti handrit, bókasöfn, listaverk og menjagripi, er verðmætir eru fyrir sögu landsins, listir eða vísindi, þá er nú í þessu frumvarpi, eins og það hefir verið samþykt í Ed., beint kveðið svo á, að þessir hlutir skuli vera undanþegnir skatti.

Næsta breyting er við 7. gr., þar sem svo er ákveðið, að þegar fjárhæð sú, er til arfs fellur, er falin í árgreiðslum og áratalan er ákveðin, þá skuli skattur borgaður af svo hárri upphæð, sem samsvari árgjaldinu margfölduðu með áratölunni. Þó átti eftir frumvarpi neðri deildar aldrei að margfalda með hærri tölu en 25. En þessu ákvæði hefir verið breytt í Ed., þannig, að ekki skuli margfalda fjárhæðina með hærri áratölu en 20.

Seinasta breyting Ed. er þess efnis, að lágmarkið, sem Nd. setti fyrir því, að erfðafjárskatturinn yrði borgaður, 100 kr. sé fært upp í 200 krónur. En þessa breytingu hefir nefndin ekki getað aðhylst, enda var 100 kr. lágmarkið samkvæmt tillögum milliþinganefndarinnar í skattamálum og frumvarpi því er stjórnin lagði fyrir þingið.

Nefndin hefir því leyft sér að koma fram með breyttill. á þgskj. 644 að færa þetta í samt lag og það var áður. Að öðru leyti getur hún gengið að öllum breytingum háttv. Ed.