09.05.1911
Sameinað þing: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í B-deild Alþingistíðinda. (132)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Magnús Blöndahl:

Eg hafði ekki ætlað mér að taka til máls í þetta sinn, en við umræðurnar, sem orðið hafa um fjárlögin, hafa ýmisleg ummæli komið fram, sem eg finn mér skylt að mótmæla. Sá hv. 4. konungkj. þingm., er fyrstur tók til máls, miklaðist yfir því, hvað tekjuhallinn væri mikill, svo mikill að aldrei hefði hann verið eins. Eg tel víst, að hv. þm. hafi farið svona geyst af stað og fullyrt svona mikið af því, að hann hefir ekki munað langt aftur í tímann, og þá ekki munað, hvernig viðskilnaðurinn við fjárlögin hefir verið stundum áður; og að ástandið eða framtíðarútlitið hefir þó stundum verið ískyggilegra en nú, þótt ekki telji eg það gott eins og er. Allir kannast við tekjuhallann á fjárl. 1907. Þar er ætlast til að á fjárhagstímab. 1908—09 verði tekjuhallinn 525,512 kr. og þess utan á aukafjárlögum kr. 160,962. Þetta til samans verða þá hvorki meira né minna 686,475 krónur. Er af þessu hægt að sjá, að þingið hefir séð verri og svartari fjárhagsáætlun en nú í þetta sinn. Sami þingm tók það réttilega fram, að tekjuhallinn nú sé áætlaður c. 400 þús. krónur og ef samþyktar verða allar breytingartillögur, sem nú liggja fyrir, þá mun hann veiða 450 þús. kr. Á aukafjárlögum er þess utan 107.000 kr., og verður þetta þá alt saman 557,000 kr. tekjuhalli. Þetta er þá nokkuð meira en tekjuhallinn var á fjárl. 1907, fyrir utan fjáraukalög á sama þingi. Sami þm. vildi mikið gera úr því, að tekjuliðirnir væru of hátt reiknaðir; sérstaklega á aðflutningsgjaldi á áfengi að vera of hátt reiknað og taldist honum til, að sú skekkja mundi nema c. 110 þús. kr. Hvað sem þessari ágizkun hans líður, þá verð eg að segja fyrir mitt leyti, að eg þykist þess fullviss að áætlunin, hvað þennan póst snertir — eins og reyndar flesta tekjupósta aðra — er mjög gætilega sett og mætti fremur teljast of lág en ekki of há. Að sjálfsögðu játa eg það, að þessar staðhæfingar okkar beggja, háttv. 4. kgkj. og mín, verða ávalt meira eða minna ágizkun. Háttv. þingm. stendur þó það ver að vígi, að hann getur alls enga á- stæðu fært sínum tölum til stuðnings. Aftur á móti skal eg nú færa rök fyrir mínum fullyrðingum, rök, sem örðugt mun verða að hrekja. Eins og sést af landsreikningunum fyrir síðustu 10 til 12 ár, hafa tekjurnar ætíð farið talsvert fram úr áætlun, og skal eg því til sönnunar geta þess að fjárhagstímabilið 1898—99 fóru tekjurnar fram úr áætlun, svo nam kr. 188,433

1900-01 - - - 284,132

1902-03 - - - 528,142

1904-05 - - - 577,403

1906-07 - - - 959,994

1908-09 - - - 319,041

Þessu er ekki hægt að mótmæla, því að tölurnar verða ekki hraktar. Það er því engin ástæða til að halda, að tekjurnar séu þeim mun djarfara reiknaðar nú en þá. En þess utan eru nú samþ. á þinginu lög um aukatekjur, erfðafjárskatt og fl., ásamt breyting á tolllögunum og ætti það að auka tekjur landsjóðs um alt að 250 þús. krónur. Eg gat þess áðan, að búast mætti við, að tekjuhallinn nú yrði — ef breytingartillögur þær verða samþ., sem hér liggja fyrir — og að meðtöldum aukafjárlögum, c. 557 þús. krónur. Dragi maður nú þar frá tekjuauka þann, er landsjóður fær af hinum nýsamþ. lögum og sem óhætt mun telja að verður 250 þús., þá verður hinn eiginlegi tekjuhalli ekki nema 307 þús. kr. eða 379,475 krónum lægri en árið 1907.

Háttv. ráðherra fann ástæðu til að taka það fram, að honum litist illa á, hvernig fjárl. væru gerð úr garði. Eg skal játa, að það hefði verið ólíkt skemtilegra að tekjur og gjöld hefðu getað staðist á. En um það dugar ekki að tala, því ekki geri eg ráð fyrir því, að samkomulag náist um að minka til muna útgjöldin. Aftur á móti vænti eg, að sú verði raunin á, nú sem fyrri, að tekjurnar reynist góðum mun hærri en áætlað, og það jafnvel svo mikið að tekjuhallinn verði enginn.

Hæstv. ráðherra gat þess enn fremur, að búast mætti við, að mögru árin kæmu á eftir þeim feitu. Þetta er rétt. Samt sem áður finn eg enga sérstaka ástæðu til að gera svo mjög ráð fyrir hinum mögru árum nú venju fremur. Líka er þess að gæta, að landsmenn standa ólíkt betur að vígi nú í lífsbaráttunni fyrir tilverunni, en nokkru sinni áður og því óþarfi að gera ráð fyrir verri eða meiri grýlum en nauðsynlegt er. Hvað fjárlögunum að öðru leyti viðvíkur, þá hafði Neðri deild skilið svo við þau eftir 3 umr., er þau fóru til hv. Ed., að þá var tekjuhallinn áætlaður 281,123 kr. Þegar svo háttv. Ed. er búin að hafa þau til meðferðar, er tekjuhallinn kominn upp í 320,417 kr! Hverjum var nú þetta að kenna? Voru það Sjálfstæðismenn sem réðu því? Nei! Það var aðallega konungkjörna liðið með góðri aðstoð ráðherra, sem gaf þar fordæmið.

Við eina umr. í Neðrid. komst svo tekjuhallinn uppi 419,767 krónur og skal eg ekki mæla því neina bót, en ekki var sú hækkun fremur verk sjálfstæðismanna en heimastjórnarflokksins í deildinni, og tel eg óþarft að menn séu að deila mikið um það, því það sanna er. að þar eiga báðir flokkar jafna sök á. Sá útgjaldapóstur, er mest munaði um við þá umræðu, var koparþráðurinn til Vestfjarða, að upphæð 56 þúsund krónur, og með þeirri fjárveitingu greiddu þingm. deildarinnar nokkurnveginn jöfn atkv. af báðum flokkum. Þegar svo fjárl. nú koma í Samþ. eftir eina umr. í Ed., er tekjuhallinn kominn ofan í 399,167 kr. og hefir þá Efrid. lækkað hann um c. 20 þús. kr. Hvernig stendur nú á því, að útgjöldin ekki eru sniðin eftir hinum áætluðu tekjum? Er það af því, að einlægt sé bætt við svo mörgum nýjum útgjaldaliðum, eða er það réttmætt að ásaka svo mjög þetta og síðasta þing fyrir það? — Ef vel er aðgætt, kemur það fljótt í ljós, hver aðalorsökin er, og hún er sú, að á þingunum 1905 og 1907 eru samþ. ýms lög, er leggja landstj. stórum auknar útgjaldabyrðir á herðar, og skal eg benda á máli mínu til stuðnings: Ritsíma, Vegabætur, Vita, Fræðslumál og fl. og fl. Og þessum útgjaldaliðum er þannig varið, að ekki er auðhlaupið að því, að draga þar saman seglin, því alt þetta heimtar stöðugt meiri og meiri fjárframlög með hverju ári. En hins hefir ekki verið gætt sem skyldi, að finna ráð til að auka tekjurnar að sama skapi.

Háttv. 4. kgk. kastaði því fram í ræðu sinni, að sjálfstæðismenn hefðu ekki gert mikið til að bæta úr tekjuhallanum, með því að útvega nýjar tekjur. Þessu verð eg að mótmæla sem alveg röngu. Sjálfstæðismenn í neðri deild báru fram Farmgjaldsfrumvarpið, og það komst slysalaust í gegnum deildina og upp í hv. Ed. Ef frumvarp þetta hefði verið samþ. í Ed. mundi það hafa gefið landsjóði 360 þúsund kr. tekjuauka á næsta fjárhagstímabili. Að vísu hafa komið fram sterkar raddir hér í þinginu móti því frumvarpi, og hæstv. ráðh. og fleiri heimastj.m. talið það í alla staði ófært. Eg skal nú að vísu játa það, að eg fyrir mitt leyti var ekki alls kostar ánægður með það frumvarp. Samt hefði mátt vel við það una til bráðabirgðar — og sem slíkt var það borið fram — þangað til aðrar heppilegri leiðir væru fundnar til að auka tekjurnar.

Hvað gerir svo Ed. við frumvarpið? Hún fellir það 2 dögum áður en fjárl. voru þar til einnar umr. Með farmgjaldsfrumvarpinu greiddu 21 þjóðkjörnir þingm. atkv. Hvort samanlagt fjármálavit þessara þjóðkjörnu þingmanna er minna virði en fjármálaþekking hinna, sem á móti frumv. voru, skal eg ekki um dæma. Sennilega sker þjóðin úr því á sínum tíma.

Að landsjóði því ekki var séð fyrir frekar auknum tekjum á þessu þingi, er þá að kenna hinni kkjörnu sveit í Ed. ásamt ráðh., er allir lögðust á eitt með það að ráða Farmgj.frumv. af dögum. En þess utan vildi eg spyrja: Hverjir börðust mest fyrir því að koma inn fjárveitingunni til háskólans? — sem eykur útgjöld landsjóðs um tugi þúsunda á hverju fjárhagstímabili, þegar laun prófessoranna eru komin í hámarkið. — Hverjir börðust mest móti því, að eftirlaun ráðh væru lækkuð? Var það sjálfstæðisflokkurinn í þinginu? Nei! og aftur nei! Það var heimastjórnarflokkurinn ásamt þeim kkj. og ráðh. Það mætti benda á ýmislegt fleira í þessu sambandi, ýmsar lánsheimildirnar, kostnaðinn við rannsóknarnefndirnar, og þá sérstaklega Ed., ekki kjarnmeiri plögg en hún hefir hér látið á þrykk út ganga. Það verður því ekki skoðað öðruvísi en annað marklaust hjal, þegar heimastj.m. eru að reyna að koma af sér tekjuhallanum. En því þá ekki að kannast hreinskilnislega við þær fjárveitingar, sem hvor flokkurinn fyrir sig hefir barist fyrir.