07.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1111 í B-deild Alþingistíðinda. (1321)

42. mál, vitagjald

Framsögum. (Ólafur Briem):

Þetta frv. er samhlj. frv. milliþinganefndarinnar og hefir þingnefndin fallist á það í aðalatriðunum.

Aðalbreytingar frv. á núgildandi vitalögum eru í því fólgnar að hækka vitagjaldið úr 20 aurum fyrir hverja smálest upp í 25 aura, og færa skylduna til að greiða gjaldið einnig yfir á íslenzk fiskiskip. Með þessari hækkun er búist við 10 þús. kr. tekjuauka, 5 þús. kr. að því leyti sem gjaldið hækkar frá því sem nú er og 5 þús. kr. fyrir gjaldið af fiskiskipunum. En þótt nefndin sé samþykk frv. í aðalatriðunum, þá er það ekki af þeirri ástæðu, sem stjórnin færir fyrir frv., nfl. að vitagjaldið komi í stað lausafjártíundar af fiskiskipunum. Nú er ekkert útlit fyrir, að lausafjárskattur verði afnuminn á þessu þingi. Aftur telur nefndin vitana koma fiskiskipunum að svo miklum notum, að rétt sé að leggja vitagjald á þau, þegar tekið er tillit til þess, hversu bygging vita og viðhald þeirra kostar landssjóð mikið.

Eg skal leyfa mér að benda á það, að prentvilla er í athugasemdunum við frv. Þar stendur, að útgjöld landssjóðs til vitanna sé áætluð 1912 og 1913, 82 þús. kr. og tekjur 40 þús. kr. Þetta á að leiðréttast svo, að 1910 og 1911 komi fyrir 1912 og 1913. Fjárhagstímabilið 1912 og 1913 eru tekjurnar áætlaðar 60 þús. kr., en útgjöldin 53 þús.

Að öðru leyti skal eg ekki fara nánar út í breytingartill. nefndarinnar, en mun gera það við 2. umr.