09.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1114 í B-deild Alþingistíðinda. (1326)

42. mál, vitagjald

Framsögum. (Ólafur Briem):

Út af því, sem hinn háttv. 2. þm. N.-Múl. (Jóh. Jóh.) sagði, vil eg taka það fram, að brtill. um að lögreglustjórar fái ekki framvegis nein innheimtulaun af vitagjaldi, er ekki sprottin af athugaleysi nefndarinnar. Nefndin lítur svo á, sem innheimta vitagjaldanna út af fyrir sig geti eigi valdið lögreglustjóra sérstakrar fyrirhafnar, því að hann á að heimta inn önnur gjöld um leið og hefir því engan sérstakan tilkostnað út af innheimtu vitagjaldsins. Annars mun nefndin taka athugasemdir hins háttv. þm. til íhugunar og bera sig saman við hann.

Að því er kemur til skipa þeirra, sem háttv. þm. Vestm. (J. M.) gat um, þá virðist mér liggja næst, að skoða þau sem farþegaskip en ekki sem skemtiskútur. Eg sé enga ástæðu til að vér höfum öðru vísi lagaákvæði í þessu efni heldur en tíðkast meðal annara þjóða. Eftir því sem háttv. þm. sagðist frá, á skipið Oceana að borga hér 10 þús. kr. í öll gjöld; en vitagjaldið mundi tiltölulega ekki verða svo ýkjamikill hluti móts við þá upphæð og er ólíklegt, að það mundi fæla slík skip frá landinu. Eg býst því við, að nefndin haldi fast fram þessari brtill.