04.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1116 í B-deild Alþingistíðinda. (1330)

42. mál, vitagjald

Framsögum. (Ólafur Briem):

Sú eina breyting, sem gerð hefir verið á frumvarpi þessu (þgskj. 447) í háttv. efri deild er sú, að lágmark á vitagjaldi, sem greiðist einu sinni á ári af skipum, sem að eins eru höfð til innanlandssiglinga eða haldið er út til fiskjar hér við land og aldrei fara utan á veiðitímanum er sett 4 kr. í stað 5 kr., er áður var samþykt hér í deildinni samkvæmt ákvæðum stjórnarfrumvarpsins og tillögum milliþinganefndarinnar í skattamálum. Jafnvel þótt nefndin sé ekki samþykk breytingu þessari, þá þykir henni hér ekki svo miklu máli skifta, að vert sé að senda frumvarpið aftur til efri deildar fyrir þá sök. Leggur hún því til að frumvarpið verði samþykt óbreytt, eins og það nú liggur fyrir.