25.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1123 í B-deild Alþingistíðinda. (1341)

2. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Frams.m. (Magnús Blöndahl):

Eins og hin háttv. deild mun sjá á nefndarál. á þgskj. 232, hefir nefndin verið einhuga um það, að hér sé um að ræða eitt af hinum brýnustu nauðsynjamálum, ekki einungis þessa bæjar, heldur og alls landsins í heild sinni. Enda ímynda eg mér að engum, sem um það mál hugsar, dyljist það, að trygg og góð höfn hér sé fyrsta sporið í áttina til innlendrar verzlunar, og til þess að fjörga og efla viðskiftalífið við aðrar þjóðir, sérstaklega þær, sem mest framleiða af þeim vörum, er vér notum. Inn á við mundi og verða hinn mesti gróði af þessu fyrir viðskiftalífið og samgöngurnar, bæði við útlönd og umhverfis landið. Þær mundu verða að öllu leyti hagfeldari, bæði tíðari og reglulegri en hingað til hefir átt sér stað.

En höfnin mundi ekki að eins verða lykill að betri samgöngum við útlönd og á sjó yfirleitt, heldur og til þess að nauðsynlegar og góðar samgöngur kæmust á við nærsveitirnar. Eg á sérstaklega við það, að ef hún kæmi, þá mundu menn fara að sjá það betur og betur, hve mikil þörf er á járnbraut héðan austur yfir fjall, um Árnes- og Rangárvallasýslur. Og ef menn geta verið mér samdóma um þetta, þá vona eg að mönnum skiljist, að það verður tæplega með tölum talið, hvílíkur hagnaður verður að þessari hafnargerð.

Þess utan mundi þetta eins og eg gat um við 1. umr., verða til ómetanlegs hagnaðar fyrir fiskiveiðar landsmanna. Þær hlytu að taka stórum framförum, og ein af hinum blessunarríku áhrifum þess yrðu aftur þau, að landssjóður fengi þar miklar aukatekjur, sérstaklega stórum aukið útflutningsgjald af fiski, sem þó nú þegar er orðin allveruleg tekjugrein.

Eg get verið fáorður um málið að þessu sinni. Það gleður mig að sjá, hve frumv. hefir fengið góðar undirtektir, fyrst og fremst hjá háttv. deild og síðan hjá nefndinni, sem hefir léð því einhuga fylgi sitt. Eg sé að vísu, að hér er fram komin brtill. á þgskj. 263 frá einum nefndarm., háttv. þm. Sfjk. (B. Þ.), en hún fer ekkert í bága við frv., nema hvað þar er farið fram á það, að ¼ hluti af ágóðanum af höfninni skuli renna í landssjóð, og skilst mér svo, sem það ákvæði sé bundið við það, að landssjóður leggi fram 600,000 kr. Eg verð því að leggja á móti, að ágóðahlutaskilyrði þetta verði samþykt.

Aftur eru aðrar brtill. á þgskj. 310, og skal eg lýsa því yfir, að eg hefi — þótt tíminn hafi verið naumur — borið mig saman við flesta af h. meðnefndarmönnum mínum um þær, og hygg eg að mér sé óhætt að segja, að flestir þeirra muni fallast á þær eftir atvikum, þótt vér að sjálfsögðu viljum heldur kjósa að tillaga okkar (þ. e. nefndarinnar) verði samþykt. Eg get ímyndað mér að það hafi meðfram vakað fyrir tillögumanni, hve fjárhagur landsins er þröngur, og hafi þeir því eigi séð sér fært að greiða atkvæði með því að fjárframlagið yrði hærra en þetta. Þeir munu hafa miðað við fjárframlög landssjóðs áður til líkra fyrirtækja annarsstaðar, t. d. bryggjugerðar á Akureyri og í Stykkishólmi. En ef litið er á það, hvað búist er við að Reykjavíkurhöfn muni kosta, þá er þetta ekki nema ¼ hluti þess, og ef eg man rétt, þá var landssjóðsstyrkurinn til Akureyrarbryggjunnar í fyrstunni miðaður við þriðjung alls kostnaðarins. Að vísu kom það nú í ljós seinna, að kostnaðurinn varð meiri en áætlað hafði verið, svo að styrkurinn varð sem næst ¼ hluta. Eg get því búist við því, að eitthvert svipað hlutfall hafi vakað fyrir háttv. tillögumanni.

Eg finn nú ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um frumvarp þetta að sinni, en vænti sömu velvildar hér frv. til handa nú og við l. umr., og óska að það fái að ganga til 3. umr. að loknum umræðum.