25.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1127 í B-deild Alþingistíðinda. (1343)

2. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Jón Þorkelsson:

Hér þarf ekki mörg orð um þetta mál. Það sjá allir hverja þýðingu það hefir, ekki að eins fyrir þennan bæ, heldur og fyrir alt þetta land, sérstaklega þó þá hluta þess, sem næstir eru höfuðstaðnum. Það er ekki einungis nauðsynlegt og sjálfsagt vegna fiskiflotans, sem á fyrir sér að vaxa margfaldlega frá því sem orðið er, heldur og til þess, að hér geti orðið verzlunar-»centrum«, miðdepill allrar verzlunar landsmanna, sem þá ætti með tímanum að verða innlend að mestu eða öllu leyti, en hingað til hefir verið nær eingöngu dönsk. Allir vita að Khöfn hefir, svo illa sem hún liggur við, verið verzlunar »centrum« vort hingað til. Að eg nú ekki tali um það, hve öll tollgæzla yrði hægari, ef höfnin fengist. Það er, í stuttu máli sagt, ekki hægt upp að telja, hverjar gagnsemdir mundu hljótast af þessu fyrirtæki. Og sérstaklega er ástæða til þess nú, að láta ekki þetta dragast úr hömlu lengur, því að við vitum það, að austanfjalls hafa útlendingar keypt stað, sem liggur vel við, og er þegar á orði, að þar verði gerð höfn, sem gæti orðið óþægilegur keppinautur fyrir höfuðstaðinn, sé ekki að gert.

Ef nú höfn yrði gerð austanfjalls, þá myndi það draga frá höfuðstaðnum, ekki svo að skilja, að höfuðstaður landsins mætti ekki gjarnan hafa orðið austanfjalls, en það verður nú að gera fyrir því sem er. Hann er nú orðinn hér, og hér verður að honum að hlynna þar sem hann er. Nú hefir komið tilboð um að gera höfn hér í Reykjavík fyrir ákveðið verð, 1600000 kr. Var það frá bæjarstjórnarinnar hendi tilætlunin, að bæjarstjórnin legði til annan helminginn, en landið hinn. Nefndin hefir fært tillag landsins úr 800 þús kr. niður í 600 þús. en landsjóður ábyrgist alla upphæðina. Við þetta hefir háttv. þm. Sfjk. (B. Þ.) komið með þá breyt.till., að landssjóður áskilji sér og ¼ hluta ágóða af höfninni. Þetta virðast mér verri kostir en þeir, sem háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) vill í té láta, sem sé að landssjóður leggi fram 400 þúsundir, ábyrgist það sem fram yfir er og áskilji sér engan hagnað. Fái tillaga nefndarinnar ekki fylgi, þá aðhyllist eg heldur uppástungu háttv. þm. S.-Þing. (P. J.). Það eru þó hrein viðskifti.

Í sambandi við þetta vil eg geta þess, að alstaðar þar sem ríkin leggja fram stórfé til mannnvirkja, þá setja þau víst nær ófrávíkjanlega það skilyrði, að eingöngu innlendir menn hafi svo sem mest má verða atvinnu við þau. Það hefir gengið þannig oft hingað til á landi hér, finst mér, að þegar um slík fyrirtæki hefir verið að ræða, þá hafa útlendir menn alt of mjög verið teknir til starfans, en innlendir starfsmenn um of setið á hakanum. En þetta verður að breytast. Auðvitað þarf að taka útlenda ingeniöra, en allir óbreyttir verkamenn eiga að vera innlendir. Sömuleiðis hefir svo virzt, sem sumum valdhöfum vorum hafi aldrei þótt laun útlendinga, er vér höfum ráðið til starfa, nógu há, en kaup innlendra manna jafnan þótt of hátt jafnvel fyrir sama verk.

Það kom fram hjá háttv. þm. Sfjk. (B. Þ.) að hann væri ragur við að greiða þessu máli atkvæði sitt á þessu stigi; því ekki mundi landssjóður þola þau útgjöld, eins og nú stæði. En jafnframt gat hann þess, að hann mundi koma fram með frumvarp þess efnis að auka tekjur landsins. Eg ætla ekki að fara að kenna mönnum að greiða atkvæði, en þó get eg sagt þingmanninum, að hann þarf ekki að hika í þessu efni. Það þarf hvort sem er að auka tekjur landssjóðs á allar lundir, og fyr getur þetta þing ekki lokið störfum sínum, en það hefir gert alt til þess að auka tekjur landssjóðs að miklum mun. Það er því engin sérstök ástæða til að hika í þessu máli. Og verði ekki gerð hér höfn innan skams, þá dettur manni í hug að spyrja, þarf þá ekki að flytja bæinn að höfn? Svo mikil er þörfin á höfninni.

Að öðru leyti leggur landssjóður fé til hafnarinnar meðfram sér sjálfum í hag, því að fasteignir hans, sem að höfninni liggja munu margfaldast í verði, þegar hafnargerðin er á komin.