25.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1131 í B-deild Alþingistíðinda. (1347)

2. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Bjarni Jónsson:

Eg vil leyfa mér að benda á, að landi, sem er umflotið, eru hafnir harla nauðsynlegar. Þar er sjórinn á alla vegu og því eina samgönguleiðin. Allir hljóta því að sjá, hversu mikið tjón hlýtzt einatt af hafnaleysinu. Skip teppast vikum saman, farmar skemmast og öll verzlun verður óaðgengilegri. Þar verður engin stórverzlun. Útlendir menn hafa hér mestalla stórverzlun, mest kaupmenn í Kaupmannahöfn. Er stórverzlun landsins þar illa sett, austur undir Rússlandi. Nú á síðasta áratug hefir þó dálítið af stórverzluninni flutzt til Reykjavíkur, og mundi á 1—2 næsta áratug flytjast þangað öll, ef höfnin kæmist á. Þetta er því mál, sem varðar alt landið. Eg hirði ekki að telja meira upp þessu til sönnunar að sinni. Eg verð með till. nefndarinnar, því þær víkja skemst frá því, er farið var fram á.

Landið verður að taka lán til að koma þessu máli í framgang. Eg átti tal í Noregi við merkan mann um þetta mál, og sagðist hann ekki efast um, að fá mætti lán í Noregi til þessa fyrirtækis með sömu kjörum sem þarlendir menn og bæir fá til að gera hafnir. Mundi bærinn fá það fé upp á eigin ábyrgð, en þó náttúrlega betra að landssjóður stæði í ábyrgðinni. Að láta landssjóð hafa hluta af tekjunum er ósanngjarnt. Annars efast eg ekki um, að höfnin muni borga sig innan 20 ára. Ef lengri tíma þarf til þess, þá gerir það ekkert til.