29.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1145 í B-deild Alþingistíðinda. (1352)

2. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Björn Sigfússon:

Eg ætlaði að benda á það, að óþarft er að vera að ræða þetta mál öllu meira. Það hefir enga þýðingu að ræða um 400 þús. króna tillag úr landssjóði, þegar allir vita að féð er ekki til. Ef ganga má út frá því sem vissu að málið sé gætilega undirbúið með fullri þekking og viti, þá trúir maður því að hér sé um mikið hagsmunamál að tefla, sérstaklega fyrir þennan bæ og fiskiflota Suðurlands.

Háttv. 1. þm. Rvk (J. Þ.) sagði við 2. umr., að höfnin yrði til stórhagnaðar fyrir alt landið, en hann gleymdi að færa rök fyrir því. Hitt geta allir séð, að það mundi verða eitthvert stórfenglegasta atvinnumál fyrir Reykjavík og grendina, meðan hafnargerðin stæði yfir. Að gagnið yrði eins alment fyrir alt landið, eins og háttv. þm. sagði, liggur ekki í augum uppi. Hvað mundi t. d. Stykkishólmur, Ísafjörður, Akureyri og Seyðisfjörður nota höfnina hér? Allir þessir staðir, og nokkrir fleiri hafa ágæta höfn og bryggjur, sem hafskip liggja við. Eg held því að það sé rétt að hún yrði sérstaklega Sunnlendingum að notum.

Það er bót í máli, að líklega er vel kleift að koma þessu mannvirki í framkvæmd þó frumvarpið falli, ef það er rétt sem háttv. þm. Dal. (B. J.) sagði við 2. umr., að höfnin mundi margborga sig, og að hægt væri að fá til þess lán í Noregi. (Bjarni Jónsson: Þingmaðurinn gleymir að eg sagði, að það væri hægt upp á ábyrgð landssjóðs). Eg hefi sízt á móti því, að landssjóður gæfi ábyrgð gegn nægri tryggingu, en eg bendi á þetta þeim til huggunar, sem eru hræddir um málið, ef þingið gefur ekki stórfé til þess. Í stuttu máli: landssjóður getur ekki lagt fram fé, sem ekki er til, og úr því hafnargerðin er talin stórgróðafyrirtæki og hægt að fá lán til þess, þá eru vandræðin engin.