29.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1146 í B-deild Alþingistíðinda. (1353)

2. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Bjarni Jónsson:

Eg skal ekki gera það oftar að drepa mig fyrir tímann, því eg veit að margir verða til að sparka yfir moldum mínum, heldur skal eg reyna að molda aðra.

Eins og eg þykist sagt hafa við 2. umr., þá er þetta mesta nytsemdarfyrirtæki fyrir alt land. Eg skal t. d. benda á það, að góð höfn í Reykjavík mundi verða til þess, að stórkaupmenn mundu setjast hér að. Reykjavík mundi verða miðstöð íslenzkrar verzlunar. Hér mundu kaupmenn út um landið geta keypt inn vörur sínar og margir byrjendur gætu fengið hér lán hjá stórkaupmönnum, af því þeir þektu þá og meðmælendur þeirra, þótt hinir sömu menn gætu ekki fengið lán erlendis, þar sem þeir væru óþektir og skortir nægileg meðmæli. Svo hefir farið fyrir tugum manna, að þeir hafa lent í klónum á erlendum umboðsmönnum, sem svo taka af þeim þeirra síðasta skilding. Við vitum og þekkjum mörg dæmi þessa. Einn þeirra hefir 30—40 á samvizkunni. Mundi því verða mikill óbeinn hagnaður af því, að þessir menn skifta við menn sem þekkja þá, og yrði sá hagnaður ekki að eins fyrir Reykvíkinga, heldur og fyrir alt landið og t. d. Ísfirðinga og Eyfirðinga. Mætti þá haga strandferðunum öðru vísi, hafa minni báta og haga ferðum eftir þörfum landsmanna, og bátarnir að vera eign þeirra sjálfra. Að höfnin mundi gera þær umbætur á íslenzkri verzlun, að hún yrði alíslenzk, fyrir því þarf ekki að færa ástæður; sú reynsla er alþekt um allan heim.

Eg játa að það, sem eg segi um hafnarmálið, það byggi eg ekki á eigin þekkingu, heldur fer eftir orðum annara manna. Eg hefi átt tal við G. Smith, umsjónarmann yfir höfnum í Noregi. Hann sagði, að við þyrftum ekki að vera hræddir um það, að höfnin mundi ekki borga sig. Væri sú reynsla um allan Noreg. Hann sagði, að sína tíð hefðu áætlanir hans allar staðið og allar hafnir, sem hann hefði gert, hefðu borgað sig. Það mundi gera þá breytingu á verzluninni, ef höfn væri gerð hér, að verzlunin mundi nást úr höndum útlendinga. Ágóði danskra manna af verzluninni hér mun nema 3 miljónum króna árlega. Þetta hefi eg ekki reiknað út sjálfur, heldur Tulinius, sem menn munu kannast við hér og sem er hálfur Íslendingur og hálfur Dani. Hann nefndi að eins 2½ miljón, en ekki munu þó 3 milj. ofreiknað. Þessi ágóði mundi ganga inn í landið og græðast hér. Mundi landið á 2—3 áratugum leysast úr þessu bandi. Svona var ekki ástatt í Noregi. Það land þurfti ekki að leysa úr útlendum verzlunarfjötrum. Þess vegna sagði hann, að ekki væri efi á því, að höfnin mundi borga sig, þó það væri ekki sýnt með tölum, þá væri það sannað af alþjóðareynslu. Þegar eg var ritstjóri að Ingólfi, þá stakk eg upp á því, að bygt væri ofan á grandann, sem liggur út í Örfirisey, og síðan hlaðinn garður út af hinu svo kallaða Batteríi. Gerði eg þá ráð fyrir. að það myndi kosta 2 milj. króna. Síðan hafa komið fram rök fyrir, að þetta sé ekki spádómur einn, heldur sé það nærri sanni.

Háttv. 2. þm. Húnv. (B. S.) dró þá ályktun, að ekki væri þörf á þessum 400 þús. króna, þar eð lán gæti fengist í Noregi, en það er ekki sjálfsögð afleiðing. Eg skal ekki koma með neina títuprjóna, en alþingi Íslendinga væri meira en meðalskömm að láta bæinn einan ráðast í þetta fyrirtæki. Það væri þjóðarskömm. Hinir háttv. þingmenn gleyma því, að ef höfn væri hér í Reykjavík, þá þyrftu bændur ekki að geyma hesta sína uppi í Gröf í hálfan mánuð, heldur gætu þeir rekið þá beint af hafnargarðinum og út í skipið. Það er ef til vill ekki hægt að segja um hesta, að þeir skemmist, en aftur á móti er svo um fé. Svo er margt fleira, sem hægt er að benda á. Maður kemur t. d. með glænýtt smjör austan úr Rangárvallasýslu. Hann veit að skipið fer á ákveðnum degi og getur hagað sér eftir því; þarf hann þá engan aukakostnað að hafa. En nú þarf hann að bíða 2—3 daga eða lengur, eða þá að fá aðra menn fyrir sig. Þá ættu og Borgarfjörður og Breiðifjörður að hafa sérstakan bát, sem hefði viðkomustaði um allan fjörðinn. Sparaðist þá margt dagsverkið, og menn væru þá ekki bundnir við kaupstaðaholurnar. Mundi það endurbæta verzlunina um alt land. Hvers vegna vilja menn þá ekki að landið taki þátt í þessu að þriðjungi? Skeð getur það, að sumir menn vilji ekki láta Reykjavík njóta þessara hlunninda. Reykjavíkurbúar eru þó ? hluti allra landsmanna.

Tillaga háttv. 2. þingm. Árn. (S. S.) er einungis til að gera kostina óaðgengilegri og finst mér það einna líkast því, þegar storkurinn bjó tóunni mat í stútmjórri flösku. Að ábyrgjast að eins nokkurn hluta fjárins og að vera svo að mjatla það úr sér á 8 árum, er til lítilla nota.

Eg ímynda mér, að þessir menn hafi ekki gert sér það ljóst, hve hættulegt er að hafa slík fyrirtæki lengi með höndum, því að á því tapast rentufé alt, sem af peningunum yrði, þangað til höfnin er búin.

Eg vona því að háttv. deild felli tillögur háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) og samþykki sömu framlög og síðast, en hnýti ekki aftan í þau skilyrðum, sem gera tilboð landssjóðs algerlega óaðgengilegt.