29.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1149 í B-deild Alþingistíðinda. (1354)

2. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Jón Magnússon:

Eg er samdóma háttv. 2. þm. Húnv. (B. S.) um það, að ekki þýði að halda langar ræður um þetta mál. Háttv. frams.m. (M. B.) og þm. Dal. (B. J.) hafa talað rækilega fyrir málinu yfirleitt, svo að eg get slept því.

Tillögur háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) eru óaðgengilegar og því líka hægt að spara sér miklar umræður um þær. Þó vil eg benda á það, að það er einkum skilyrðið, er hann vill setja aftan við 2. gr., sem er allsendis óaðgengilegt. Ef sú tillaga verður samþykt, þá er það alveg sama og að landssjóður neiti að ganga í ábyrgð, því þegar það er ákveðið, að ábyrgð sé að eins veitt gegn veði, sem alþingi samþykkir, þá er það ljóst, að stjórnin getur ekki gengið að neinu öðru en fullgildu veði, nema alþingi samþykki áður veðið og sé veðið fullgilt annars, þá er ábyrgðin ekki beint nauðsynleg.

Eg vil vænta þess, að háttv. þingm. taki þessa tillögu aftur, því að hún nær sýnilega lengra en hann hefir hugsað sér, þegar hann bar hana fram. Eg vil líka benda honum á, hversu óheppilegt það ákvæði er, að landssjóður skuli leggja fram 100 þús. kr. á ári, þangað til fjárveitingin er öll borguð, 400 þús., sem hann vill færa hana niður í. Það hefði að minsta kosti átt að standa alt að 100 þús. kr. á ári. Og vil eg því enn skjóta því til hans, hvort hann sé ekki fáanlegur til að taka till. aftur. Eg sé ekki, að mikið vinnist við hana. Hann þarf ekki að óttast, að höfnin komist á fljótar en svo, að ekki þurfi að leggja fram meira en 50 þús. kr. á ári. Ef til vill þyrfti að leggja fram meira en 100 þús. kr. fyrsta árið, en minna hin næstu, svo að það er mjög óheppilegt að hafa fast ákvæði um að 100 þús. kr. skuli útborgaðar árlega.

Eg skil ekki í því, hvernig stendur á, að háttv. þingm. vill lækka upphæðina, sem landssjóður ábyrgist, fyrst hann á annað borð er með því, að landssjóður gangi í ábyrgð. Eg get fullvissað hann um það, því að eg hefi dálítið haft með slíkt að sýsla, að það skiftir ekki máli, er farið er fram á lán á heimsmarkaðinum, hvort ræða er um 800 eða 1200 þús. kr., og hefir eigi neina þýðingu fyrir lánstraust landssjóðs annars.

Þar sem háttv. þm. sagði, að bærinn gæti safnað gjöfum til hafnarinnar, þá veit eg, að hann hefir verið að gera að gamni sínu og skal ekki fara lengra út í það.

Eg skal svo ekki lengja umræðurnar meira, en vil ennþá mælast til þess, að háttv. þm. taki till. aftur. Hún gat verið góð til að tala um hana, málið hefir ef til vill skýrst dálítið við það, en eg sé eigi neitt unnið við, að hún verði samþykt.