29.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1155 í B-deild Alþingistíðinda. (1357)

2. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Framsm. (Magnús Blöndahl):

Eg verð að mótmæla þeim ummælum hins hv. 2. þm. Árn. (S. S.), að bærinn hafi þegar tekið svo mikil lán, að tæplega sé á bætandi. Það er rétt, að bærinn hefir tekið nokkur lán, en það verður að greina á milli, til hvers lánin eru tekin. Lánin til vatnsveitu og gass geta ekki rýrt tiltrú og gjaldþol bæjarins. Bærinn stendur einmitt betur að vígi með því að hafa ráðist í þessi mannvirki. Það er sitt hvað að taka lán til arðvænlegra fyrirtækja eða taka lán til að hafa að eyðslufé.

Háttv. sami þm. (S. S.) talaði um, að eg og fleiri hefðu sagt, að af höfninni yrði bænum mikill hagnaður, en hann bætti því við, að mikið af þessu væri fullyrðingar út í loftið. Þessu má slá fram, og hvað getur hann um það sagt? Eg hygg, að rök mín og annara fleiri, er talað hafa með höfninni, sé svo sennileg, að ekki sé réttmætt að bera brigður á þau. Hins vegar er náttúrlegt, að þeir menn, sem ekki hafa víðan sjóndeildarhring, eigi bágt með að átta sig á því, hver hagnaður það er fyrir verzlun vora og sjávarútveg, að höfn komist á hér í Reykjavík.

Það, að málið hefði átt að koma frá stjórninni, eins og hinn hv. þm. sagði, það getur vel verið. En eg efast um, að þótt það hefði komið frá stjórninni, að það hefði verið betur undirbúið eða vænlegra til sigurs. Það er vel að gætandi, að þetta er ekki neitt augnabliksuppþot; það eru víst ein 14—15 ár síðan byrjað var að hugsa um að koma upp höfn hér í Reykjavík. Útlendur sérfræðingur hefir verið fenginn til að rannsaka málið og gera mælingar og áætlun um kostnað. Eg get því fullyrt, að málið er svo rækilega hugsað og undirbúið, sem kostur er og sanngjarnt er að heimta.

Í þessu sambandi skal eg benda á það, af því að margir þingmenn munu ekki hafa athugað hvaða tekjur landssjóður fær eingöngu frá Reykjavík, að þessar 400 þúsund krónur, sem ætlast er til að landssjóður leggi til hafnargerðarinnar, er því sem næst sú upphæð, sem Reykjavík greiðir árlega í landssjóð, eða með öðrum orðum: Reykjavík greiðir árlega sem næst ? af öllum tekjum landssjóðs. Það sýnist því ekki nema sanngjarnt, að landssjóður leggi eitthvað til bæjarins í staðinn.

Eg skal svo ekki lengja umræðurnar meira, en leyfa mér að óska þess, að úr því að hinn háttvirti 2. þingmaður Árn. (S. S.) tekur ekki aftur tillögur sínar á þgskj. 364, þá verði þær feldar, en frumv. sjálft, eins og það liggur fyrir, verði samþykt.