01.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1157 í B-deild Alþingistíðinda. (1359)

25. mál, vegamál

Flutningsm. (Sigurður Sigurðsson):

Það hefir ekki mikið að þýða að fjölyrða um þetta frumv. að svo komnu. Líkt frumv. þessu var borið upp á síðasta þingi, en fellt þá. Þetta frumv., sem nú liggur fyrir, er að vísu í dálítið annari mynd en frv. það, sem kom fram á alþingi 1909. Eg skal aðeins minnast á frv. fáum orðum, en ekki fara út í einstök atriði þess.

Frumv. er fram komið af almennri óánægju manna við vegalögin. Það hefir þótt mikið bresta á, að flutningabrautir væru afhentar í fullgildu standi. Eg veit dæmi til þess, að vegir hafa verið afhentir í því standi að þeir að missiri liðnu hafa verið ófærir með köflum, svo að kosta hefir orðið stórfé til að bæta þá. Þetta stafar vafalaust af því, að verkfræðingur landsins hefir ekki haft tíma til að líta eftir úttekt brautanna og trúað öðrum fyrir henni. Þessvegna er farið fram á, að úttektinni sé komið fyrir á annan hátt, eins og 2. gr. frv. sýnir. Það er ósanngjarnt og stríðir á móti anda laganna, að héruðunum séu afhentir vegir, er þurfa nauðsynlegrar viðgerðar við þegar á næsta missiri eftir afhendinguna. Þetta kannast margir við og þótt ekki kæmi annað til greina en ákvæði vegalaganna um úttekt veganna, þá er það svo athugavert mál, að nauðsyn er að ráða bót á því, og vona eg að hin háttv. þingd. sýni þá velvild að skipa nefnd í málið.