02.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1159 í B-deild Alþingistíðinda. (1361)

25. mál, vegamál

Flutningsm. (Sig. Sigurðsson):

Eg skal taka það fram, að þetta frv. stendur ekki í sambandi við fjárhag landsins. Þótt 1. gr. frv. fari fram á, að viðhald á stuttum brautarkafla sé létt af viðkomandi héruðum og flutt yfir á landssjóð, þá er þess að gæta, að öll sanngirni mælir með því, að landssjóður kosti viðhald þessara brauta, þegar af þeirri ástæðu, að þær sýslur, sem hér eiga hlut að máli, njóta einkis góðs af fé því, sem úr landssjóði er veitt til samgangna á sjó. En eg skal ekki fara lengra út í þessa sanngirniskröfu, heldur benda á, að þótt sýslurnar losni við viðhald þessarar brautar, þá hvílir samt á þeim mikið viðhald annara vega.

Eg legg ekki svo mjög mikla áherzlu á 1. gr. frv. Aðalatriðið er 2. gr., ákvæðið um afhending og úttekt brautanna. Það ákvæði er framkomið af því, að meðal manna er megn óánægja út af því, að verkfræðingur landsins skuli vera algerlega einvaldur um úttekt brautanna, sem æði oft fer fram af handahófi. Brautirnar stundum afhentar án þess að þær séu í fullnægjandi standi.

Það er því nauðsynlegt að skipa nefnd í málinu, og skal eg leyfa mér að stinga upp á 5 manna nefnd.