01.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1165 í B-deild Alþingistíðinda. (1366)

25. mál, vegamál

Flutningsm. (Sig. Sigurðsson):

Háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) hefir horft sig svo starblindan á 1. gr., að hann hefir ekki tekið eftir neinu öðru í frv. En eins og sýnt hefir verið fram á af 1. þm. Skag. (Ó. Br.) og 1. þm. Rang. (E. P.), er 1. gr. ekki neitt höfuðatriði.

Það er alls ekki rétt, sem sagt hefir verið hér í deildinni, að þetta frumvarp kæmi í bág við meginreglu vegalaganna. Það eru vegalögin sjálf, sem brjóta sína eigin meginreglu, er um þessa flutningabraut er að ræða. Vegurinn frá Reykjavík austur að Reykjaréttum er þjóðvegur. Sömuleiðis vegurinn að austan alt að Ytri-Rangá. Kaflinn þar á milli ætti því að réttu lagi einnig að vera þjóðvegur, sem landssjóður annast viðhald á. En samkvæmt gildandi lögum kemur landssjóður þar hvergi nálægt. Þetta hlýtur að vera auðsætt öllum þeim, sem hafa óskerta sjón, og vilja líta rétt á þetta mál.

Það er annars einkennilegur hiti og ofstopi, sem hleypur í suma háttv. þm. þegar minst er á vegina austanfjalls og viðhald þeirra. — En hvað sem því líður, þá vona eg að nefnd verði skipuð í málið, og að henni hepnist að ráða því til farsællegra lykta.