01.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1166 í B-deild Alþingistíðinda. (1367)

25. mál, vegamál

Jón Jónsson N.-Múl. Út af 1. gr. frumvarps þessa og umræðunum um þetta frumv., verð eg að benda á, að Norður-Múlasýsla á að kosta til jafns við Suður-Múlasýslu viðhaldið á flutningabrautinni frá Búðareyri um Fagradal að Lagarfljóti, og þó liggur brautin öll í Suður-Múlasýslu. En landssjóður á að bera þriðjung viðhaldskostnaðarins, alveg eins og við brautina um Ölfus, Flóa og Holt að Ytri-Rangá. Sá er þó munurinn, að Fagradalsbrautin liggur mest öll um óbygð og er því ekki til almennra þæginda og hagsmuna fyrir þessar sýslur, nema hvað vöruflutning snertir, en hin brautin, sem hér er um að ræða, liggur um fjölmennar sveitir íbúunum til margvíslegs hagræðis Mér virðist því engin sanngirni í, að létta af þessum sýslufélögum útgjöldum, en láta Múlasýslur búa undir vegalögunum um viðhaldsskylduna. Eg vil því vekja athygli háttvirtra deildarmanna á því, að ef frumvarp þetta fær byr í þinginu, munum við þingmenn Múlasýslna koma fram með breyt.till. um að létta líka viðhaldskostnaði af Múlasýslum til Fagradalsbrautarinnar og koma honum á landssjóð. En við gerum það þá að eins út úr neyð, því að ekkert slíkt hefir vakað fyrir mér, fyr en eg sá þetta frumv., enda mun landssjóður hafa nóg á sinni könnu samt.