04.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í B-deild Alþingistíðinda. (137)

144. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Framsögumaður (Eiríkur Briem):

Eg vil geta þess, að við prentunina hefir fallið burt úr 3. línu í nefndarálitinu, á eftir ártalinu 1909 setningin, „sem lagt var fyrir þingið“. Nefndin hefir lagt til að frumvarp þetta verði samþ. óbreytt, en þó getur meiri hluti nefndarinnar ekki leitt það hjá sér að benda á, að það er alls ekki gallalaust. Auk annarra fjárhæða, sem greiddar hafa verið fram yfir fjárveitingar, þá er öll 8. gr. umfram heimild, og 2. liður hennar, er auk þess töluvert stór upphæð. Það er kostnaður við vatnsæðalagning að Kleppi. Meiri hluti nefndarinnar kannast við, að fyrirtækið sé gott og gagnlegt, en fanst þó, að það hefði mátt bíða þangað til heimild var fengin fyrir fé til þess. — Það getur ekki með nokkru móti talist rétt af stjórninni, að ráðast í slíkt, þegar ekki hefir verið veitt fé til þess á fjárlögunum, og það er ekki beinlínis nauðsynlegt svo fljótt. Um hina fjárveitinguna — ferðakostnað Jóns Bergsveinssonar — er nokkuð öðru máli að gegna. Nefndin áleit ekki að eins, að engin nauðsyn hafi verið á að veita þetta fé, heldur hefir formaður nefndarinnar auk þess átt kost á að sjá reikninga þessa manns, og hefir hann upplýst nefndina um að þeir séu svo ófullkomnir, að tæpast hafi verið ástæða til að borga út eftir þeim. Þeir eru fylgiskjalalausir, og öll sundurliðun afarófullkomin í þeim. T. d. er þar póstur eins og: „Fæði, húsnæði o. fl. í New York“, án þess að hægt sé að sjá hvað þetta fleira er. — Við vildum benda á þetta, þótt við hins vegar ráðum háttvirtri deild til að samþykkja frv.