28.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1173 í B-deild Alþingistíðinda. (1379)

25. mál, vegamál

Framsögum. (Ólafur Briem):

Eg skal í fám orðum skýra frá þeim breytingum, sem frumv. þetta hefir orðið fyrir í Ed. Breytingin við 1. gr. er að eins orðabreyting til skýringa. Alldjúptæka breytingu hefir hv. Ed. gert við 4. gr. Hér í deildinni var það samþykt, að sýsluvegagjald skyldi greitt sem persónugjald af hverjum einstökum verkfærum manni. Hv. Ed. hefir felt það ákvæði burtu, og afleiðingin af því er, að þetta gjald greiðist eins og áður úr sveitarsjóði og legst því á gjaldendur sem aukaútsvar eftir efnum og ástæðum. Þó að þetta sé að áliti nefndarinnar ekki til bóta á frv. hefir hún samt ekki viljað koma með breyt.till. við það.

Þá hefir hv. Ed. tekið upp nýja 6. gr. þess efnis, að verzlunarstaðir, sem eru hreppsfélag út af fyrir sig, skuli lausir við að greiða sýsluvegagjald, ef hreppsfélagið hefir næsta ár á undan því, er það sýsluvegagjald var á lagt, varið til vegagerðar í verzlunarstaðnum að minsta kosti jafnmiklu fé úr sveitarsjóði, sem sýsluvegagjaldinu nemur auk hreppsvegagjaldsins. Þó að nefndin áliti ekki sérstaka ástæðu til þess að að veita þessa undanþágu, þá er þetta þó betra en það lagaákvæði, sem nú gildir, þar sem undanþágan er látin ná til sýslusjóðagjalds. Nefndin hefir heldur ekki viljað koma með breyt.till. um þetta efni og leggur því til, að frumv. sé samþykt óbreytt, eins og það kom frá hv. Ed.