04.04.1911
Efri deild: 27. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í B-deild Alþingistíðinda. (14)

4. mál, styrkveiting úr landssjóði til búnaðarfélaga

Sigurður Hjörleifsson:

Eg get tekið undir með háttv. 6. kgkj. að því er til kemur meðmæla þessara breytingartillagna. En eg vil benda á það, að þótt menn feldu br.till. við 4. lið, þá geti menn samþ. till. við þann sjötta.

Það er ekki frágangssök að fella aðra, þótt menn aðhyllist hina.

Eg get fallist á flestar br.till. nefndarinnar og greitt þeim atkvæði, nema því, að breyta orðunum: stika, ferstika o. s. frv.

Annars er það tillagan um salerni og áburðarhús, sem mér er langsárast um; sú till. er upphaflega frá mér komin, og hún hefir mikla þýðingu; komist hún í fult gildi hjá þjóðinni, þá vinst með því mikið fé, er annars mundi glatast. Auðvitað er mikið undir því komið að áburðarhúsin séu bygð sem bezt; það er mikils vert fyrir búnað þessa lands í framtíðinni.