16.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1185 í B-deild Alþingistíðinda. (1407)

49. mál, dánarskýrslur

Hannes Hafstein:

Hvort sem háttv. þingd. óskar þess, að þetta mál sé sett í nefnd eða ekki, þá óska eg þess nú, að það fái framgang. Háttv. Nd. hefir tvisvar sinnum samþykt frv. um dánarskýrslur með mjög miklum atkvæðamun, og seinast með hér um bil öllum atkvæðum 1907, en þá féll það í Ed., og eg vil segja á ljótu bragði. Það var sagt að það hefði verið felt í hefndarskyni í staðinn fyrir annað frumv. Í annað sinni var það samþykt í Ed., en þá felt hér í Nd. með 12 atkv. gegn 12. Þó að fyrirkomulagið verði ekki sem fullkomnast samkvæmt frumv. þessu, þá segir bæði landlæknir og aðrir, sem vit hafa á, að það sé til stórra bóta. Og hann segir ennfremur, að fáist ekki þessu lík lög samþykt, þá séu mjög lítil tök á því, eða með öllu ógerningur, að stemma stigu fyrir berklaveikinni eða öðrum skæðum sjúkdómum, þegar enginn getur vitað úr hverju menn deyja. Enda liggur það í augum uppi, að meðan svo er ástatt verða allar heilbrigðisráðstafanir gerðar eins og út í bláinn.

Eg skal ekki fara mikið út í hin einstöku atriði, sem háttv. 1. þm. Húnv. (H. G.) mintist á, því að eg býst við að nefnd verði skipuð í málið. En þó hygg eg, að 1. grein sé ekki eins torskilin og honum virtist. Það er augljóst, að orðin: »ef kostur er« o. s. frv. þýða það, að ef ekki er hægt að ná í lækni, þá varðar það engri hegningu þó það komi fyrir. Eins virðist mér það auðskilið, að það er meiningin, að allur kostnaðurinn eigi að greiðast af landssjóði, eftir þeim reglum, sem settar eru um borgun til lækna.

Þá er að minnast á 2. gr., þar sem talað er um skýrslur þær, sem beztar verði fengnar. Þar virðist mér liggja í augum uppi, að presturinn eigi að eins að spyrjast fyrir um almenn einkenni sjúkdómsins og geta þeirra.

Eg sé ekki, að þörf sé á nefnd — af þessum ástæðum — en þó skal eg ekki gera það að neinu kappsmáli, að leggjast á móti henni.