06.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1187 í B-deild Alþingistíðinda. (1411)

49. mál, dánarskýrslur

Framsögum. (Hálfdan Guðjónsson):

Þegar þetta frv. var síðast til umræðu í deildinni, benti eg á nokkur atriði, sem valdið gætu misskilningi eða orkað tvímælis. Ennfremur benti eg á það, að frumvarpið færi fram á aukin útgjöld fyrir landssjóð, þar sem af því mundi leiða fjölgun nýrra læknishéraða. Nefndin hefir nú leitast við að draga úr gjöldum frumv., án þess þó að ónýta það. Hefir nefndin borið þær breytingar, sem hún leggur til að gera undir álit landlæknis. Miða þessar brtill. nefndarinnar að því, að þrengja það svæði, sem frv. nái yfir, er það verður að lögum, svo að það séu aðeins kauptún sem eru læknissetur, þar til talin jafnt kaupstaðarumdæmi sem aðrir verzlunarstaðir. Það, sem vinst við þetta, er bæði það að spara mönnum að ómaka sig langar leiðir frá heimilum sínum út af dauðsföllum, en einkanlega sparast við það útgjöld landssjóðs. Mér virðist ef þessar till. verða samþyktar, geti ekki af frumv. leitt verulegan kostnað fyrir landssjóð.

Eg skal geta þess, að á einum stað hefir láðst að breyta sókn í kauptún, en það er að eins orðabreyting og nægilegt að skrifstofan leiðrétti, því að sú breyting er í samræmi við aðrar brtill. nefndarinnar.

Skal eg svo ekki fjölyrða meira um frv. Vona eg að háttv. þd. taki brtill. til greina og samþykki frv. með þeim.