22.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1198 í B-deild Alþingistíðinda. (1433)

13. mál, almennar auglýsingar

Flutningsmaður (Jón Þorkelsson):

Það er nokkuð svipað með þetta mál og málið næsta hér á undan, um prentsmiðjur. Aðalatriðið í frv. þessu er það, að það gerir þá nauðsynlegu breytingu á gildandi lögum, að hætt skuli að lögskipa að auglýsa íslenzk dánarbú og dómsmál í dönskum blöðum. Hingað til hefir það verið skylda að auglýsa slík bú í ákveðnu dönsku blaði, fyrrum Berlingatíðindum og nú í »Statstidende«. En þörf er ósýn á að halda þessu auglýsingaverki áfram. Danir álíta ekki þörf á að auglýsa dómsmál sín né dánarbú í íslenzkum blöðum og hví skyldum við þá þurfa að auglýsa þau í dönskum blöðum? Þetta hefir varla annað en kostnaðinn í för með sér og virðist því mál til komið að hætta því. Samfara þessu hlýtur og að vera breyting á núgildandi ákvæðum um stefnufrest.

Eg legg til að máli þessu verði vísað til nefndar þeirrar, er hefir prentsmiðjumálið til meðferðar.