08.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1203 í B-deild Alþingistíðinda. (1448)

14. mál, heyforðabúr

Framsögum. (Sig. Sigurðsson):

Við framh. 1. umr. þessa máls, lét hann þess getið, háttv. þm. Dal. (B. J.), að Torfi Bjarnason í Ólafsdal væri höfundur að frumvarpinu, sem nú er til umræðu. Þetta er vitanlega rétt. Þegar Torfi var hér á ferðinni fyrir nokkru, hafði hann með sér frv., er fór í sömu átt og frv. á þgskj. 39. Hann sýndi mér frumvarpið og gaf eg honum kost á að flytja það. Eg breytti því að vísu nokkuð, án þess þó að raska grundvelli þess eða hugsun.

Um sama leyti og frumvarpið kemur fram hér í deildinni, er það fyrir búnaðarþinginu, og rætt þar og athugað. Búnaðarþingið gerir við það nokkrar breytingar, og tók háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) að sér að flytja þær. Það eru breytingarnar á þgskj. 55. En með því nú að landbúnaðarnefndin hefir tekið flestar þessar breytingar upp í brtill. á þgskj. 67, þá hefir háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) tekið sínar brtill. aftur.

Hvað nú brtill. nefndarinnar snertir, á þgskj. 67, þá er það fyrst, að orðin: »heyásetningseftirlit og« falli burt, og að frumvarpið heiti þá að eins »frumv. til laga um samþyktir um heyforðabúr«. Í sambandi við þessa breytingu standa svo nokkrar aðrar breytingar, sem eru í raun og veru orðabreytingar.

Aðalbreytingin, sem nefndin hefir gert, er við 5. gr. Þar hefir hún lagt til að ákvæðin um heyásetningseftirlitið, er samþykt skuli ákveða um, falli niður, en að eins tiltaka að ákvæði um það skuli vera í samþykt. En hvernig þeim ákvæðum er fyrir komið, er á valdi þeirra, er samþyktina gera.

Eftir breytingu nefndarinnar verður það ekki eins hindrandi, hvað í samþykt skuli standa og frumv. gerir ráð fyrir. Samþyktarsmiðir hafa þar óbundnar hendur, og tel eg það kost.

Þá er einnig gerð breyting á 6. gr., og verðum vér nefndarmenn að telja þá breytingu til bóta. En í sambandi við þessa breytingu á 6. gr. skal eg geta þess, að þar féllu nokkur orð úr breytingunni, og höfum vér leyft oss að bera fram brtill. á þgskj. 110, er bætir úr þessu. Hún er þannig, að á eftir orðunum: »endurgreiðist síðan úr landssjóði«, bætist við orðin: »að helmingi«. Þennan viðauka vil eg biðja háttv, þm. að athuga, áður en gengið er til atkvæða.

Skal eg svo ekki fjölyrða um málið frekar.