03.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1210 í B-deild Alþingistíðinda. (1463)

27. mál, Maríu- og Péturslömb

Jóhannes Jóhannesson:

Þar sem mál þetta fékk svo góðar og einróma undirtektir við 1. umr. þess, leyfum við flutningsmenn þess oss, að vænta þess, að það nái hljóðalaust fram að ganga, að minsta kosti í þessari háttv. deild. Það er frá okkar sjónarmiði ekki ástæða til þess að fjölyrða um það og öllum eldri þingmönnum er málið kunnugt, því það hefir oft legið fyrir þinginu áður. Þrátt fyrir þetta þykir mér hlýða að fara um málið nokkrum orðum, þar sem nýjar kosningar hafa farið fram, síðan það lá síðast á borði þingsins og nýir þingmenn eru margir; gæti eg vel skilið, að þeir hefðu ekki allir lesið í þingtíðindunum það, sem um málið hefir verið rætt á þingi.

Um uppruna fóðurskyldu Maríu- og Péturslamba vita menn ekki með vissu. Þó hefi eg einhversstaðar lesið það eftir Jón sál. háyfirdómara Pétursson, að hún muni þannig á komin, að einhverntíma í kaþólskum sið hafi sú venja komist á víða á Íslandi, að á hverju prestssetri hafi nytinni úr einni kú verið varið til þess að gæða sóknarfólkinu á; var kýr sú ýmist eignuð Maríu mey eða Pétri postula. Í notum fyrir þessar góðgerðir fóðruðu sóknarbændur hins vegar lamb fyrir prestinn, er nefndust Maríu- eða Péturslömb. En er stundir liðu fram fór svo, að prestarnir átu kýrnar, en fóðurskyldan hélzt.

Fóðurskylda þessi var áður töluvert almenn, en hefir stöðugt lagst niður víðar og víðar, einkum sökum þess, að prestarnir kynokuðu sér við að krefjast þess, að henni væri fullnægt, og nú þekkist hún ekki nema í 5 sóknum á landinu, nefnilega í Sauðanessókn, þar eru 16 Péturslömb, í Svalbarðssókn, þar eru 12 Péturslömb, í Hjaltastaðasókn, þar eru 18 Maríulömb, í Desjarmýrarsókn, þar eru 14 Maríulömb, og loks í Klyppstaðarsókn, þar eru 7 Maríulömb. Þannig eru Maríu- og Péturslamba fóðrin 67 á öllu landinu, og ef maður telur lambsfóðrið 4 kr. virði, nemur skyldan, metin til peninga alls kr. 268.00, en röskum 300 kr., ef lambsfóðrið er metið á 4½ kr. Eins og menn munu hafa tekið eftir, loðir fóðurakylda þessi hvergi við nú nema á Austurlandi; það lítur út fyrir, að prestar þar hafi verið eftirgangssamastir um tekjur sínar. Hún hvílir á aðaljörðum, eftir því sem eg veit bezt, án tillits til hvort eigandi er einstakur maður eða jörðin þjóðeign — en ekki á hjáleigum.

Fóðurskylda þessi er afar óvinsæl, ekki svo mjög vegna þess, að mönnum finnist hún þung, því bónda á meðaljörð munar ekki verulega um að fóðra eitt lamb, heldur vegna hins, hve óeðlileg og ranglát hún er.

Um upprunann vita menn ekki annað en það, sem eg tók áðan fram, en eg skal bæta því við, að háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.), sem er allra manna fróðastur í þeim efnum, hefir tjáð mér, að hann hafi hvergi í fornum bókum eða skjölum fundið neitt um hana.

Það hafa því verið gerðar margar tilraunir til þess að fá hana numda úr lögum, en þótt merkilegt megi virðast, hefir það ekki tekist til þessa. Síðast féll málið í þessari háttv. deild á þinginu 1905, en þá var nýrri ástæðu beitt gegn því. Þá stóð til, að skipuð yrði milliþinganefnd í skattamálin, og þótti því ekki hlýða að láta lög um þetta efni ná fram að ganga, áður en hún hefði fjallað um málið, en hún er nú úr sögunni.

Einasta ástæðan, sem færð hefir verið og færð verður fram gegn afnámi fóðurskyldu þessarar, er sú, að hún sé kvöð, sem hvíli á jörðum, eins einstakra manna sem opinberra, en ekki persónulegt gjald. Verði hún afnumin, hækki því eign einstakra manna í verði án verðleika frá þeirra hálfu og að landssjóður eða nú prestlaunasjóður bíði skaða að sama skapi. En þessi ástæða er hvorki fyllilega réttmæt né nægileg, þótt réttmæt væri. Eg fæ ekki séð, að sagt verði með réttu, að fóðurskyldan sé kvöð, sem hvíli á hlutaðeigandi jörðum. Það sést á því, að þeir sem lambsfóðrin bera, eiga enga kröfu á hendur eiganda jarðanna og geta ekki snúið sér að honum, þótt ábúandi jarðanna inni eigi skylduna af hendi, og eins hinu, að séu jarðirnar í eyði, eru engin lambsfóður int af hendi.

Réttara mun því vera að skoða hana sem persónulega kvöð, sem hvíli á ábúendum vissra jarða, enda eru það ábúendurnir, sem inna hana af hendi, og við byggingu slíkra jarða, er ekkert tillit tekið til fóðurskyldunnar. Þessar jarðir eru bygðar með nákvæmlega sama leigumála og aðrar jarðir og seldar sama verði, þær myndu hvorki hækka í verði né eftirgjald þeirra hækka, þótt skyldunni væri aflétt. Allir kunnugir vita, að þetta er satt og menn þurfa ekki annað en kynna sér skjöl þau, sem lögð eru fram í lestrarsalnum, til að fá sönnun fyrir því, að það eru ábúendurnir en ekki eigendurnir, sem óska afnámsins, enda myndu þeir ekkert á því græða, nema þeir búi sjálfir á jörðunum.

Með sóknargjaldalögunum nýju er prestslamba-fóðurakyldan afnumin og mér er kunnugt um það, að margir af þeim, sem fóðra eiga Maríulömb álíta, að einnig sú fóðurskylda sé afnumin, hafa því neitað að fóðra þau og stendur til málareksturs út af því. Mönnum finst gjald þetta svo ósanngjarnt, að þeir vilja ómögulega greiða það, þótt lítið

sé, ef undan verður komist, heldur eiga í málavafstri út af því.

Eg vona að alþingi þyki nú tími til kominn að fella þessar kátlegu og óeðlilegu fornaldarleifar úr gildi og samþykki lagafrumv. þetta. Upphæð sú, sem prestlaunasjóður missir við það, mega kallast smámunir og það er séð fyrir því, að prestar þeir, sem nú eru eða síðar kunna að koma, líði engan halla.

Eg álít, að þetta sé svo óbrotið mál, að ekki sé ástæða til að fjalla um það í nefnd, en skal þó eigi vera á móti nefndarskipun, ef deildinni finst réttara að hún sé sett. Það er fyrir löngu tími til kominn að létta þessum miðaldaleifakvöðum af, og vænti eg að sérstaklega prestarnir hér í deildinni séu mér sammála í því.