03.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1213 í B-deild Alþingistíðinda. (1464)

27. mál, Maríu- og Péturslömb

Stefán Stefánsson:

Eg verð að líta svo á, að afnám fóðurskyldu Maríu- og Péturslamba, án þess nokkurt gjald komi fyrir, sé all athugavert. Ekki af því, að upphæð sú, sem hér er um að ræða nemi nokkru verulegu fyrir landssjóð, — það mun eftir undanfarandi verðlagsskrá, ekki vera meira en 3 hundruð krónur rúmar, sem um er að ræða, ef maður reiknar lambsfóðrið á 4,50—5,00 kr., — heldur virðist mér rétt, að vilji þingið afnema þessa litlu skyldukvöð, sem aðeins nemur rúmum 4 krónum á hverjum stað, og þannig gefa einstökum mönnum, þá mæli nokkur sanngirni með því, að létta einnig öðru, mjög tilfinnanlegu gjaldi af einstökum bændum eða bændaeignum, sem er prestsmatan. Eg veit dæmi þess að prestsmötugjaldið er orðið svo tilfinnanlegt, að ekki er viðunandi. Þar stendur svo á, að á jarðeignina féllu skriður fyrir nokkrum árum, svo eigandinn varð að færa niður eftirgjaldið um þriðjung, en prestsmötuna verður að greiða jafnháa eftir sem áður. Um þetta hefir hann kvartað til prófasts hvað eftir annað, og biskupi um það skrifað, en á því hefir engin leiðrétting fengist.

Mér virðist að fóðurskyldan og prestsmatan séu svo skyld hvort öðru, að sé annað eftirgefið þá eigi hitt að vera það líka, en að landssjóður greiði þessar kvaðir endurgjaldslaust, álít eg ekki rétt. Breytingin, sem eg vil leggja til að gerð sé, er sú, að heimild sé gefin til þess, að kaupa þessar kvaðir af jörðunum.

Eg skal svo ekki fjölyrða um málið frekar, en leyfi mér að stinga upp á, að kosin sé 5 manna nefnd til þess að athuga frumv., að lokinni umræðunni.