14.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1222 í B-deild Alþingistíðinda. (1474)

27. mál, Maríu- og Péturslömb

Eggert Pálsson:

Það getur engum dulist, sem les nefndarál., að þar liggur allmikið örlæti á bak við. Örlætið er að vísu talið dygð, en eg lít þó svo á, að nokkuð sé undir því komið, hvernig það kemur fram. Það má kalla það dygð, þegar menn gefa af sínu eigin, en aftur á móti geta orðið skiftar skoðanir um það, þegar menn fara ofan í vasa annara — eins og t. d. hér, landssjóðs eða prestlaunasjóðsins, til þess að gera einstökum mönnum gott. Og í þessu eru báðir hlutar nefndarinnar samtaka, þótt meiri hlutinn fari lengra. Hann vill gefa fóðurskyldu Maríu- og Péturslambanna eftir endurgjaldslaust, og færir til þess ýmsar ástæður, t. d. að þessi kvöð sé gömul og úrelt, að óvíst sé um uppruna hennar, og að hún sé ranglát. Hið eina af öllu þessu, er komið getur til greina að taka tillit til, er nú auðvitað hið síðast talda. Hitt eru engar ástæður, að kvöð þessi sé gömul eða uppruni hennar óviss. Það eitt væri góð og gild ástæða til að afnema þessi gjöld, ef það yrði sýnt og sannað, að þau væru ranglát. En fyrir því hafa litlar sannanir verið færðar, enn sem komið er. Og svo er annað, sem aðgæta verður, og það eru afleiðingarnar, sem slík eftirgjöf mundi hafa í för með sér. Og þær hafa þegar sýnt sig hér, þar sem þetta frumvarp hefir leitt til þess, að menn vilja fara að afnema önnur gjöld, sem þeim dettur í hug að séu ranglát.

Háttv. minni hl. nefndarinnar hefir ekki getað orðið hinum samferða í því, að afnema þessa fóðurskyldu algerlega endurgjaldslaust, en hefir viljað sýna örlæti sitt með því, að afnema hana gegn rúmlega hálfu endurgjaldi, en vill jafnframt gera fleiri hluttakandi sömu eða líkra hlunninda með því að leggja til, að afnema jafnframt prestsmötu alla, þannig, að hvergi nærri fult endurgjald komi fyrir. Örlæti minni hl. er því í raun og veru yfirgripsmeira, þar sem það nær til miklu fleiri manna, og það er mikið hærri upphæð, sem þeir ætla — eg vil segja að gefa burtu úr landssjóði. Að vísu er mér það eigi fullljóst, hve mikið fé þetta er, en mikið hlýtur það að verða, þegar andvirði prestsmötunnar á einungis að vera 20 sinnum árgjaldið. Háttv. minni hl. hefði átt að gera deildinni skýra grein fyrir því, hve mikil upphæðin væri, svo að þm. vissi hve mikið þeir gæfu burt. En þótt þá skýrslu vanti, þá er eg sannfærður um að upphæðin er æði stór, og það enda þótt gengið væri út frá verðlagsskrárverði, en því stærri, ef farið væri eftir gangverðinu, eins og prestar eftir eldri launalögunum eiga rétt á, að þeim sé borgað fyrir prestsmötu þá, sem þeim hefir verið lagt út til tekna. Það er hvarvetna til tekið, að þeim skuli greiða prestsmötuna í ákveðinni, tiltekinni vöru. Og sé það ekki gert hafa þeir rétt til að fá andvirði hennar greitt eftir samkomulagi eða gangverði, en ekki verðlagsskrárverði. Eg er því ekki í neinum vafa um það, að þeir prestar, er búa við eldri launakjörin, eiga fullan rétt á því, að fá prestsmötuna þannig greidda, að þeir bíði engan halla.

Það er sem sé vitanlegt að víða um land er svo ástatt, að verðlagskrárverðið er lægra en gangverðið að jafnaði, ekki að eins á þessari vöru heldur á fleirum. Það getur því eigi komið til greina að skylda presta að sætta sig við verðlagsskrárverðið í þessum sökum. Að vísu mætti segja, að slíkt væri ekki ósanngjarnt, ef prestar semdu einir verðlagsskrárnar, en svo er ekki. Verðlagsskrárnar eru samdar af 3 mönnum, og er presturinn því ávalt í minnihluta við samning þeirra. Það getur hugsast, að sumir vilji hafa sömu aðferðina hér og þegar prestlaunalögin 1907 gengu í gildi, að prestar skuli skyldir að fara eftir meðalverði síðustu 5 ára. En það er ekki rétt á litið, því um dagsverk og lambsfóður mæltu eldri lög svo fyrir, að þau skyldi taka eftir verðlagsskrárverði, en um prestsmötuna hafa hin eldri lög engin slík ákvæði.

Eg hygg einnig, að varhugavert sé frá öðru sjónarmiði að sýna hér of mikið örlæti gagnvart þeim, sem prestsmötur eiga að inna af hendi, því að svo er mál með vexti, að flestir eigendur prestsmötujarða eru vel efnaðir menn, já, þess eru jafnvel dæmi, að útlend gróðafélög séu eigendur slíkra jarða. T. d. eru prestsmötujarðirnar Bræðratunga og Víðidalstunga í eign slíkra félaga, en það væri þó helzt til fjarri sanni að gefa slíkum félögum peninga úr prestlaunasjóði. Eg skal játa, að ekki tjáir að jafna saman prestsmötunni og Maríu- og Péturslömbum. Maríu- og Péturslömbin hvíla að eins á örfáum jörðum á vissu svæði, en prestsmötukvöðin er svo að segja jöfn um alt land. Eg hefði því getað hallast að því, að Maríu- og Péturslambafóðrin væru gefin eftir, en að dálítið gjald kæmi þó í staðinn, — hefði t. d. getað felt mig við uppástungu minni hlutans þar að lútandi. En eins og frumv. nú liggur fyrir, er mér eigi hægt að greiða atkvæði með því. Hins vegar vona eg, að breyttill. komi fram við 3. umr., sem fari í þá átt, sem eg nú hefi bent á, og ef aðrir ekki koma fram með slíka breyt.till., þá hefi eg í hyggju að gera það sjálfur.