14.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1225 í B-deild Alþingistíðinda. (1475)

27. mál, Maríu- og Péturslömb

Framsögum. meiri hlutans (Jóhannes Jóhannesson):

Umræðumar hafa ekki gefið mér ástæðu til að halda langa ræðu.

H. l. og 2. þm. Rang. (E.P. og EJ.) héldu því fram, að réttast væri að gefa eigendum þeirra jarða, sem kvöð þessi hvílir á, leyfi til þess að losa sig undan henni með gjaldi, en eg hygg óhætt að fullyrða, að slíkt leyfi yrði ekki notað. Eigendurnir líta sem sé svo á, sem kvöð þessi sé þeim óviðkomandi og hvíli að eins á ábúendunum. Hins vegar er ólíklegt, að ábúendurnir fari að losa sig undan þessari kvöð með peningaborgun. því að þeir eiga ekki víst að búa svo lengi á jörðinni, að það borgi sig. Samanburðurinn á prestsmötu og Maríu- og Péturslömbum er allsendis rangur, því að prestsmatan er ekki annað en kvaðir, sem hvíla á jörðunum sem gjöld fyrir ákveðin störf prestsins. En um Maríu- og Péturslömb gegnir alt öðru máli, enda er sú kvöð svo óvinsæl, að einar 6 eða 7 atrennur hafa verið gerðar til þess að fella hana úr gildi.

Háttv. 1. þm. Skagf. (Ó. Br.) færði það sem sönnun fyrir því, að þessi kvöð hvíldi á eigendunum, að í sóknum, þar sem Maríu- og Péturslömb tíðkuðust, væri þó sumar jarðir lausar við þetta skyldugjald. En þetta er alls engin sönnun, því að fóðurskyldan var áður mjög almenn, en hefir víða fallið niður án endurgjalds, af því að prestarnir hafa ekki gengið eftir henni.

Háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) sagði, að hér væri um það að ræða að gefa einstökum mönnum úr prestlaunasjóði. En hér er ekki verið að gefa neitt, heldur að afnema gamla úrelta kvöð. Að lokum skal eg geta þess, að ef breyt.till. minni hlutans verða feldar, þá skal ekki standa á mér með að koma fram með sérstakt frumvarp um aflausn á prestsmötu.