30.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1232 í B-deild Alþingistíðinda. (1486)

28. mál, sala kirkjujarða

Framsögum. minni hl. (Hálfdan Guðjónsson):

Eins og hin háttv. deild sér á nefndarálitinu vill minni hlutinn ekki ráða háttv. deild til að samþykkja þetta frv. Lögin, sem hér er farið fram á að breyta, kirkjujarðasölulögin, eru ekki svo gömul né gölluð, að vert sé að eyða bæði tíma og fyrirhöfn í að breyta þeim. Síðan 1907, er lögin voru samþykt, hafa engar þær breytingar gerst hér á landi, er geri það að verkum, að nauðsynlegt sé að breyta lögunum. Þegar lögin voru samþykt, var það gert af ásettu ráði að undanskilja söluheimildinni þær jarðir, sem áttu að vera embættisbústaðir prestanna framvegis og rýra þær á engan hátt. Það var litið svo á, og við litum svo á minni hlutinn, að sala hjáleigna yrði til að rýra höfuðbólið. Það er oftast mjög örðugt að greina á milli hverjar landsnytjar fylgja höfuðbólinu og hverjar hjáleigunni. Það eru fjöldamörg dæmi þess, að hjáleigurnar eru ýmist í sérábúð eða notaðar með heimajörðinni, ýmist með einum landsnytjum eða með öðrum. Það yrði því einatt erfitt að ákveða, hvað eðlilegt væri og heimajörðinni skemdaminst að fylgdi hverri einstakri hjáleigu og gæti orðið efni í þrætur og óánægju. Sumir kunna að segja, að þetta muni sjaldan koma fyrir, því að hjáleigurnar séu svo fáar. Þetta er þvert á móti. Eg hefi raunar ekki kynt mér tölu allra hjáleigna á landinu, en þori að fullyrða, að flestum prestssetrum fylgja hjáleigur, sumum margar. Eg skal nefna 2 dæmi, annað sunnanlands, hitt norðanlands. Sunnanlands skal eg nefna höfuðbólið fræga Odda á Rangárvöllum. Þegar eg var unglingur, átti eg heima þar í grendinni; síðan man eg þessa bögu, er getur hjáleignanna frá Odda:

Eru kotin Odda hjá

Ekra, For og Strympa,

Vindás, Kumbli, Kragi, þá

kemur Oddhóll skamt í frá.

Eða alls 7 hjáleigur.

Eg efast um, að nokkur þori að fullyrða, að höfuðbólið Oddi mundi ekki setja ofan, ef allar hjáleigurnar yrðu sneiddar burtu. — Hitt höfuðbólið, sem eg vildi nefna er norðanlands. Það er Glaumbær í Skagafirði. Glaumbæ fylgja 4—5 hjáleigur og eru sumar í túnfætinum eða alveg hjá túninu í engjunum þar í kring. Þessu líkt er víðar. Sumstaðar mundi svo fara, ef hjáleigurnar allar væru seldar frá höfuðbólinu, þá yrði skákin, sem eftir er, fótaskinnsspilda hjáleigueigendanna og mjög ófýsilegur embættisbústaður. Þetta hefir þó sannarlega aldrei verið tilgangurinn með lögunum um sölu kirkjujarða. Eg býst við, að háttv. framsm. meiri hl. (St. St.) muni svara mér, að frumvarpið bæti hér úr skák, með því að ákveða, að leitað skuli álits hreppstjóra og umboðsmanns jarðarinnar, áður en hún sé seld. En mér er næst að telja þetta ákvæði frumvarpinu til óbóta. Það stendur ekkert um það, hvaða tillit skuli taka til álits þeirra. Nú getur það oftlega komið fyrir, að hreppstjóri og umboðsmaður jarðarinnar séu ekki sammála. Til hvors þeirra á þá að taka meira tillit? Frumvarpið talar ekkert um það. Það gæti þá hæglega farið svo, að hreppstjórinn og presturinn komist í hár saman út af þessu. Það getur þó ekki verið tilgangurinn með frumvarpinu að tryggja sér, að þeim kunni að lenda saman. Eg skal viðurkenna, að til þess er frumv. vel fallið. En eg sé enga ástæðu til að stuðla til þess með lögum að svo fari. Og eg skil ekki, að hreppstjórarnir óski heldur eftir lögum í þá átt. Svo vel þekki eg þá marga, og þar á meðal vin minn háttv. flutningsmann þessa frumvarps (St. St.)

Eg skal játa, að það getur staðið svo á, að hjáleigan sé í svo lausu sambandi við heimajörðina, að heimajörðin bíði ekki stórtjón, þótt hjáleigan sé seld. Eg þekki t. d. svo vel til þess dæmis, sem háttv. flutningsm. (St. St.) mun sérataklega hafa í huga, að eg veit vel, að þar er um hjáleigu að ræða, sem er sjálfstætt býli í fremur lausum tengslum við heimajörðina. Eg hefi átt heima bæði í Saurbæ og í Melgerði og veit því vel, að Saurbær getur notið sín fullkomlega, þó að Melgerði væri selt.

Í sambandi við þetta vil eg benda á það, að eg hygg, að áðurnefndar jarðir muni komast undir hin almennu ákvæði laganna um sölu kirkjujarða, því að eg hygg, að Saurbær í Eyjafirði muni ekki verða prestsetur framvegis, þegar lögin frá 1907 um skipun prestakalla eru komin í framkvæmd í Eyjafjarðarprófastsdæmi. Auk þess þykir mér réttara, þegar um prestssetur er að ræða, að þá sé sölunni ráðið til lykta með sérstökum lögum. Slík lög mundu hindranalaust fá framgang, ef salan rýrði ekki jörðina, sem á að vera eða verða embættisbústaður. Í því trausti hygg eg háttv. flutningsm. (St. St.) óhætt að sækja það með minna kappi, að þetta frumv. verði að lögum.

Eg vil þá minnast með nokkrum orðum á skýrsluna, sem fylgir nefndaráliti minni hlutans. Það getur verið, að þar muni einhverju ofurlitlu á verði jarðahundraða, en sú skekkja telst í aurum en ekki í krónum. Sumir þingmenn, sem hafa minst á mat þetta við mig, hafa talið það galla á skýrslunni, að verðið er reiknað eftir samtölu jarðarhundraða og kúgildahundraða, en ekki eftir jarðarhundruðum eingöngu. En öllum er innan handar að reikna þetta sjálfir, því að kúgildatalan er alstaðar sett sér á hverri jörð.

Í þessu sambandi vil eg benda á það, að svo mun mega líta á, að það séu hinar betri og beztu jarðirnar, sem seldar hafa verið. Því athugaverðara er, hve lágt meðalverðið er. Meðalverðið mundi verða miklu lægra, ef selja ætti það, sem eftir er af þessum fasteignum, ef ekki breytist til hækkunar alment verð fasteigna á landi hér.

Þetta meðalverð hinna seldu fasteigna, sem minni hluti nefndarinnar hefir reiknað út, er langt fyrir neðan það verðlag, sem milliþinganefndin í skattamálunum áætlaði og bygði hún þó á ábyggilegum grundvelli. Þótt hlunnindi séu á stöku stað undanskilin, þá raskar það ekki meðalverðinu, eftir áliti skattamálanefndarinnar.

Enn er eitt atriði, sem lauslega er drepið á í áliti minni hlutans, að komið hafi fyrir, að lögin hafi verið misbrúkuð. Eins og mönnum er kunnugt, er tilgangur laganna að efla sjálfsábúð í landinu. En á síðustu árum hafa menn dæmi þess, að þetta takmark hefir ekki náðst. Og þessum dæmum mun óðum fjölga, að einstakir menn kaupi jarðir sér til eignar undir nafni fátækra leiguliða. Þessu ætti að sporna á móti af alefli, því allir vita, að bezta leiguliðaábúðin er opinberu eignirnar, en einstakra manna eignir eru miklu verri ábúðir fyrir leiguliða. Tala ekki um hvað leiguliðakjörin eru bág, þegar þetta eru gróðabrallsmenn í fjarlægð t. d. hér í Reykjavík, sem er að tíðkast meir og meir, að þeir reyna að klófesta fasteign á þennan hátt. En út yfir tekur þó, þegar það eru útlendir auðmenn, sem ná jörðum landssjóðs á þennan hátt.

Þetta, sem eg hefi nú sagt, eru aðeins almennar athugasemdir um nefndarálitið.