29.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1239 í B-deild Alþingistíðinda. (1488)

28. mál, sala kirkjujarða

Framsögum. meiri hl. (Stefán Stefánsson):

Eg skal strax geta þess, að mér kom það dálítið á óvart, þegar háttv. 1. þm. Hún. (H. G.) varð fylgjandi hinum minni hluta manninum (1. þm. Rvk) í nefndinni, því á síðasta þingi sátum við báðir í landbúnaðarnefndinni hér í neðri deild og þá var þetta mál rætt þar, og þá var hann á sama máli og við hinir nefndarmennirnir, eða með öðrum orðum fylgjandi sölunni. En þó hann sé á móti frumvarpinu nú, þá hélt eg, að hann af þessum ástæðum mundi síður beita sér gegn því.

Háttv. þm. hafði ýmislegt að segja og sumt af því var lítils virði, eins og t. d. að presturinn og hreppstjórinn mundu komast í hár saman, ef frumvarp þetta yrði samþykt. En eg hygg, að það sé ekki svo mikil freisting til þess, þó frv. þetta verði að lögum, því það eru ekki þeir heldur stjórnarráðið, sem sker úr, og þegar presti og hreppstjóra ber ekki saman, þá á stjórnarráðið ávalt kost á því að afla sér upplýsinga og hallast þá á hvors þeirra sveif, sem því sýnist heppilegra, eða sem líka getur fyrir komið, verið báðum mótfallið. Enda eru prestar yfirleitt svo friðsamir menn og eg meina að hreppstjórar séu það einnig, að engin ástæða er til þess að færa fram slíka ástæðu.

Viðvíkjandi því, sem sami háttv. þm. tilfærði sérstaklega um Odda og hjáleigurnar þar, að ef Oddahjáleigurnar væru seldar, þá yrði Oddi fótaskinn þeirra, þá vil eg spyrja þingmanninn, hvernig þessu hagar til nú? Eru hjáleigurnar þá ekki fótaskinn Odda, eins og nú stendur? Meðan svo er, að þessar hjáleigur eru nauðsynlegar fyrir höfuðbólið, þá hlýtur það að vera bagalegt fyrir þá bændur, sem búa á hjáleigunum að verða að þola það, að þeirra litlu landspildur séu hálfgert fótaskinn bóndans á höfuðbólinu eða prestsins á prestssetrinu. Annars virðist mér þessi ástæða háttv. þm. kenna svo mikillar ónærgætni við þá sem eru minni máttar og að því leyti óheppileg fyrir hans málstað, að eg vil ekki fara að brjóta hana meira til mergjar.

Viðvíkjandi því að jarðirnar séu of lágt virtar er það að segja, að það eru ekki svo fáar kirkjujarðir, sem metnar eru og hafa verið seldar fyrir 250 til 300 kr. hundraðið; þótt hitt hafi komið fyrir, að hundraðið hafi verið virt að eins 100 kr. eða jafnvel þar undir, þá er altaf heimilt fyrir stjórnina, finnist henni virðingin of lág, að láta meta jörðina af nýju — heimta yfirmat.

Hinsvegar er mér kunnugt, að þess eru dæmi, að vildisjarðir meðal opinberra eigna eru notaðar sem selstöðukot árum saman, og níddar bæði að húsum og öðrum frágangi til tjóns fyrir landssjóð og þau sveitafélög, sem hlut eiga að. En hvernig er svo með tekjurnar af þessum opinberu jarðeignum? 16% eru borgaðar einungis fyrir innheimtuna á afgjaldinu; þar að auki verður oft að leggja fram fé til húsabóta og annars kostnaðar. Með öðrum orðum mikill hluti af bruttotekjunum gengur úr greipum landssjóðs.

Þá talaði háttv. 1. þm. Húnv. (H. G.) um að það væri nauðsynlegt að spyrna á móti því, að útlent auðvald keypti jarðirnar til að okra með, en þar til er því að svara, að engar líkur eru til, að útlendir menn sækist eftir kaupum á hjáleigukotunum, þau eru of lítilfjörleg til þess, nei, það eru stóru jarðirnar, höfuðbólin, sem hættan er með að þeir nái kaupum á, en þetta frumvarp nær ekki að neinu leyti til þeirra jarða og þar af leiðandi engin áhætta hvað það snertir

Skal eg svo ekki fleiri orðum eyða um málið við þessa umræðu.