04.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1245 í B-deild Alþingistíðinda. (1495)

28. mál, sala kirkjujarða

Eggert Pálsson:

Eg get skilið, að skiftar séu skoðanir manna um þjóðjarðasölu yfirleitt, en það mál liggur ekki fyrir hér til umræðu. Eg fyrir mitt leyti hefi altaf verið þeirrar meiningar, að það væri til hagsbóta fyrir þjóðina í heildinni, að ábúendurnir eignuðust ábýlisjarðir sínar, hvort heldur er um einstakra manna eða opinberar jarðeignir að ræða. Hvað einstakra manna eignirnar áhrærir þá getur löggjafarvaldið ekki ráðið því, hvort ábúendurnir fá þær keyptar eða ekki. En öðru máli er að gegna með opinberu eignirnar bæði þjóðjarðir og kirkjujarðir. Þeim er löggjafarvaldinu innan handar að láta af hendi til sjálfsábúðar, hvorutveggja til hagnaðar einatt, bæði seljanda og kaupanda. Hið opinbera verður oft að leggja mikið af mörkum til þess að sjá um þessar jarðir sínar. Þeir sem innheimta landskuldirnar fyrir landssjóð og prestlaunasjóð, fá þær jafnaðarlega goldnar í friðu eftir byggingarbréfum, en á þeim vörum er oftast lágt verð eftir verðlagsskrám sýslnanna, en landssjóði borga þeir í peningum eftir verðlagsskránum og hafa þannig talsverðan hag af skiftunum fram yfir umboðslaunin eða innheimtulaunin. Hvað ábúendurna snertir, þá hygg eg það vafalaust, að menn búi betur á sjálfseign, en á annara eign, það er mönnum svo eðlilegt að vilja heldur gera umbætur á þeirri jörð, sem þeir eiga, heldur en að fleygja peningum sínum í eign, sem þeir ekki eiga og ekki vita, hvað lengi þeir sjálfir muni hafa not af. Eg er sannfærður um, að það hefir haft skaðleg árhrif á búskap vorn yfirleitt, að prestar, sem að jafnaði standa fremstir hver í sinni sveit, og oftast nær er tekið mikið tillit til, hafa verið leiguliðar og þessvegna ekki lagt fullkomna alúð við umbætur á ábýlisjörðum sínum. Þeir hafa að vísu oft verið fyrirmyndarbændur, en oftast þar sem svo hefir hagað til, að þeir hafa setið á sjálfs síns eign. Hins vegar hefir líka oft verið kvartað um, að þeir níddu niður ábýlisjarðir sínar og stundum ekki að ástæðulausu, sem stafar óefað mest af þessu, að þeir eru leiguliðar.

En hér er ekki eins og eg sagði um það að ræða, hvort selja beri þjóðjarðir yfirleitt, heldur um það, hvort leiguliðar á hjáleigum og kotum skuli einir dæmdir til að vera leiguliðar æfilangt, þótt öllum öðrum landsetum á opinberum eignum gefist kostur á að fá þær keyptar. Oft getur legið nær, að hjáleigan sé sérstök jörð, heldur en kirkjujörðin, og meiri hagnaður fyrir prestinn að leggja kirkjujörðina undir en hjáleiguna. Einn háttv. þm. hefir tekið Odda til dæmis upp á þetta, hve óheppilegt það gæti orðið, ef hjáleigurnar væru seljanlegar. Eg játa, að það væri slæmt fyrir prestinn í Odda, ef hjáleigurnar væru allar seldar. En slíkt gæti ekki komið til mála, þar eð leita yrði álits ábúandans í Odda samkvæmt frumv., áður en það væri gert. En meðal hjáleiganna þar nefndi háttv. þm. einn Oddhól, sem ekki er sýnilegt, að presturinn í Odda geti haft nokkurn hag af að halda undir, en leiguliðinn má þó ekki kaupa samkvæmt gildandi lögum.

Annars er hér í raun og veru um tvenns konar tilfelli að gera. Hið fyrra er þar sem prestsetur hafa verið lögð niður. Og virðist þá ekki réttlátara, að einn maður hafi leyfi til að kaupa alla slíka eign ásamt hjáleigunum, heldur en að hjáleigubændurnir fái hver fyrir sig að kaupa býli sín. Hitt tilfellið er þar sem prestssetur halda áfram að vera, og er þá sjálfsagt, að þau verði ekki rýrð að neinu leyti, ef fullkomin þörf virðist fyrir, að þau haldi sér óbreytt. En fyrir það er nægilega girt með því ákvæði, að leita skuli álits hreppstjóra og umráðamanns prestssetursins, áður en hjáleigurnar eru seldar. Eg held, að með þessari viðbót hjá meiri hluta nefndarinnar sé þess gætt, að séð verði í framtíðinni nægilega um hagsmuni prestssetranna. Hitt vil eg fúslega játa með minni hluta nefndarinnar, að skylt er að gæta allrar varúðar í þessu efni og kirkju- og þjóðjarða sölu yfirleitt og sjá um, að réttur hins opinbera verði eigi fyrir borð borinn með óhæfilega lágu verði.