04.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1249 í B-deild Alþingistíðinda. (1498)

28. mál, sala kirkjujarða

Framsögum. minni hl. (Hálfdan Guðjónsson):

Eg ætlaði mér ekki að tala við þessa umr., en nokkur orð hins háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) knýja mig til þess að standa upp. Hann bar prestum illa orðið sem leiguliðum, áreiðanlega of illa. Það þori eg að fullyrða. Til þess að mótmæla því þarf eg ekki að seilast langt; eg get látið mér nægja að benda á hann sjálfan og marga fleiri presta, sem nú eru uppi. Og yfir höfuð er enginn hörgull á dæmum, ef benda skal á presta, sem hafa gert miklar jarðabætur á prestssetrunum; eg gæti nefnt frá fyrri árum slíka menn sem Tómas Sæmundsson, Guðmund Einarsson, Björn Halldórsson og marga fleiri. Það er því fráleitt að benda á presta, sem slæma leiguliða öðrum fremur. Þeir eru í því sem öðru börn sinnar þjóðar og síns tíma. Þeirra á meðal, sem annara leiguliða í landinu, eru sumir lakari ábúendur en skyldi, en aðrir aftur til fyrirmyndar.

Eg vildi einnig benda á annað atriði í ræðu hins háttv. þm., þar sem eg hygg að hann hafi ekki farið með rétt mál að öllu leyti. Hann gaf í skyn, að allmikið fé gengi í súginn sem innheimtugjald. En af kirkjujarðaafgjöldum er það að eins 6%. Og það sýnist sannarlega ekki geta minna verið. Hann sagði og að það væri venjan, að innheimtumenn fengju landsskuldirnar goldnar í friðu, en borguðu landssjóði þær í peningum. En samkvæmt gildandi lögum er það skylda umboðsmannanna, þ. e. hreppstjóranna, að breyta vörugjaldinu í peningagjald, svo fljótt sem því verður við komið, og þar sem eg þekki til er það aðalreglan, að landsskuldirnar eru nú þegar víðast greiddar í peningum en ekki í friðu.