02.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1250 í B-deild Alþingistíðinda. (1500)

29. mál, víxilmál

Flutningsm. (Björn Kristjánsson):

Eins og hv. deild er kunnugt samþykti alþingi 1905 lög, sem nefnd voru: lög um varnarþing í skuldamálum. Þessi lög heimila þeim, sem reka verzlun, iðnað eða því líkt, að sækja skuldina á þeim stað, þar sem hún var stofnuð. Það var ætlast til, að lög þessi næðu til allra slíkra atvinnugreina, er viðskifti rækju, en af vangá voru bankar og sparisjóðir ekki nefndir á nafn í lögunum. Má þó telja áreiðanlegt, að þingið hefir ekki ætlað að gera einstaka mönnum hærra undir höfði í þessu tilliti en stofnunum þeim, sem eg nefndi. Afleiðingin af þessari gleymsku hefir orðið sú, að það er mjög óhægt, eða því nær allsendis ómögulegt að veita utanbæjarmönnum víxillán, því að það er mjög erfitt fyrir bankana að heimta inn víxilskuldir, ef skuldunautar eru fjarverandi, og hafa því víxillánin til utanbæjarmanna mikið verið heft. Eina leiðin til að veita þeim þess konar lán hefir verið sú, að skrifa sérstakt skjal, þar sem skuldunautur skuldbindur sig til að mæta fyrir rétti, þar sem víxillinn átti að greiðast. Þetta er óþarfa töf, því ekki er hægt að setja sérstaka skuldbindingu um varnarþing á víxilinn sjálfan. En ef þessi lög ná fram að

ganga, má fara með víxillánin á sama hátt og farið er með sjálfskuldarábyrgðarlán.

Eg vil svo ekki orðlengja þetta meir. Nefnd álít eg óþarfa, býst við, að allir séu mér sammála um, hve nauðsynlegt sé að taka þennan viðauka upp, sem fyrir vangá var ekki settur inn í lögin frá 10. nóv. 1905.