02.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í B-deild Alþingistíðinda. (1501)

29. mál, víxilmál

Jón Magnússon:

Eg er samdóma háttv. flutningsmanni um það, að ákvæði þau, sem í frumvarpinu standa geti verið þarfleg og því í sjálfu sér frumv. ekki mótfallinn, en eg álít það dálítið fljótfærnislega samið. Frumvarpið er nefnt »frumvarp til laga um viðauka við lög um varnarþing í skuldamálum«. En nú er svo, að við höfum sérstök víxilmálalög. Hví ekki að breyta þeim lögum, er gera á breyting á meðferð víxilmála ? Ef lagafrumv. þetta, er hér er fyrir, verður samþykt, getur farið svo, að dómarar verði dálítið í efa um, hvernig fara eigi með víxilmál eftir frumv., t. a. m. hvort þau eigi að koma fyrir hinn almenna héraðsrétt eða gestarétt, eins og háttv. flutningsm. víst ætlast til, þó að það komi hvergi skýrt fram í frv.

Eg skal ekki fara fleirum orðum um þetta, að eins benda á það, að það er því síður ástæða til að tengja þetta frv. við lögin um varnarþing í skuldamálum, með því að það er í aðalatriðunum frábrugðið þeirri meðferð, er þar er leyfð á nokkrum skuldamálum.