03.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1255 í B-deild Alþingistíðinda. (1510)

126. mál, læknaskipunarmál (Reykjahérað)

Jón Jónsson 1. þm. N.-M.:

Eg lít svo á, að þetta mál sé mjög svo athugavert. Eg hygg að það sé alveg röng aðferð, að einstakir þm. séu hvað eftir annað að flytja þess háttar frumvörp á þingi, án þess að því (þinginu), komi um leið nákvæmar skýrslur og athuganir um það, hvernig ástatt er. Það ætti að vera regla, að læknaskipun landsins væri athuguð nákvæmlega á vissu árabili, og taka þá upp ný umdæmi, þar sem brýnust þörf er á, eftir þeim óskum og upplýsingum, er fyrir liggja. Þetta verður ekki annað en hreppapólitík, því að aðrir koma á eftir, og svo altaf koll af kolli, og verður erfitt að sinna því öllu saman.