22.02.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í B-deild Alþingistíðinda. (153)

10. mál, rannsókn bankamálsins

Lárus H. Bjarnason:

Seinna koma sumir dagar og koma þó, varð mér að orði þegar eg fyrir 14 mánuðum heyrði að allri stjórn Landsbankans, ekki að eins framkvæmdarstjóra, heldur jafnvel hinum þingkosnu gæzlustjórum, væri vikið frá fyrirvaralaust. Þrátt fyrir viðleitni hæstv. ráðherra til þess að komast hjá að svara til saka fyrir þessar aðgerðir sínar með því að neita áskorun frá meiri hluta beggja þingdeilda um að kalla saman aukaþing, þrátt fyrir viðleitni hans til þess að tefja fyrir málinu, með því að reyna að fá þinginu frestað, og þrátt fyrir enn frekari viðleitni hans til að losna við núverandi konungkjörna þingmenn á annan hátt, þá er nú loks svo komið, að þetta mál, aðalmálið á þingsályktunartillögunni, sem hér er til umræðu, er komið fyrir rétt sóknarþing, fyrir alþingi Íslendinga.

Þó að þingsályktunartillagan taki til fleiri mála, þá er aðalefni hennar þó bankafarganið svokallaða eða bankahneykslið. Og þó að eg sé einn flutningsmaður tillögunnar, þá vænti eg þess, að meiri hluti hinnar háttv. deildar standi að baki hennar. Nú er málið löglega borið upp fyrir alþingi og mun mér því leyfast að lesa kærubréf annars hinna frávikna gæzlustjóra, háttv. þingmanni Borgfirðinga, upp fyrir deildinni. Bréfið barst deildinni fyrir nokkrum dögum, en þá var neitað um að lesa það upp, líklega fyrir misskilning, og vænti eg nú að hæstv. forseti hafi ekki á móti að bréfið verði lesið. Það hljóðar svo:

„Það er hinni háttvirtu efri deild alþingis kunnugt, að eg hefi um allmörg undananfarin ár verið gæzlustjóri við Landsbankann samkvæmt kosningu deildarinnar. Fyrst var eg kosinn gæzlustjóri af hinni háttvirtu deild á alþingi 1897 fyrir tímabilið 1898—30/6 1902, í annað sinn á alþingi 1901 fyrir tímabilið 1/7 1902—30/6 1906, í þriðja sinni á alþingi 1905 fyrir tímabilið 1/7 1906—30/6 1910 og í fjórða sinn á alþingi 1909 fyrir tímabilið frá 1/7 1910—30/6 1914. Í þetta síðasta sinn var eg kosinn með öllum (13) atkvæðum efri deildarinnar, og kosningin fór fram eftir að alþingi hafði samþykt lögin nr. 12, 9. júlí 1909 um breytingu á bankastjórnarfyrirkomulaginu, en eftir þessum lögum eru gæzlustjórarnir óafsetjanlegir, og fella þau úr gildi heimild þá, sem í þá átt var í hinum eldri bankalögum frá 18. sept. 1885.

Það er nú enn fremur hinni háttvirtu deild kunnugt, að ráðherra vék mér úr gæzlustjórastöðunni og rak mig frá Landsbankanum 22. nóv. 1909 og gaf mér að sök óreglu í stjórn minni á Landsbankanum og skort á eftirliti með honum, en engar ákveðnar sakir voru mér gefnar, og eigi var mér gefinn kostur á að svara fyrir mig eða bera hönd fyrir höfuð mér, enda var mér eigi gefið neitt tækifæri til þess að fá að vita, í hverju vanstjórnin og eftirlitsleysið af minni hálfu væri fólgið. Þegar af þessari ástæðu braut frávikningin bág við allar landsstjórnarreglur, er frá alda öðli hafa verið taldar sjálfsagðar hér á landi, sem sé aðallega þá reglu, að dæma engan að óheyrðu máli. En auk þess var frávikningin ólögleg að því leyti, að hún var frávikning fyrir fult og alt, en eigi um stundarsakir, sjá bankalögin 18. sept. 1885, 20. gr.

Nú er bankalögin nr. 12, 9. júlí 1909 gengu í gildi í ársbyrjun 1910, ætlaði eg að taka sæti í stjórn Landsbankans samkvæmt þeim og til þess þar að hafa það eftirlit með bankanum, er efri deild alþingis hafði falið mér með kosningunni, sem áður er umgetið. Studdi eg mál mitt við hið beina og ótvíræða ákvæði í 1. gr. nýnefndra laga, þar sem segir: „Í stjórn Landsbankans eru tveir gæzlustjórar, er kosnir séu sinn af hvorri deild alþingis til 4 ára í senn eftir þeim reglum, er hingað til hafa gilt“. En Landsbankastjórarnir neituðu þá að leyfa mér að taka nokkurn þátt í stjórn bankans og að hafa nokkur afskifti af málefnum hans, og báru fyrir sig úrskurð og skipun ráðherra, og síðan hefir mér stöðuglega verið meinuð öll þátttaka í stjórn bankans. Hins vegar hefir ráðherra sjálfur skipað tvo gæzlustjóra við bankann, en til þess hefir hann að lögum ekkert vald.

Til þess nú að halda uppi rétti alþingis (efri deildar) lét eg fógeta setja mig inn í Landsbankann 4. jan. f. á. Fógetaréttarúrskurðurinn veitti mér aðgang að húsum, bókum og skjölum bankans. Úrskurði þessum áfrýjaði landsstjórn og bankastjórn til yfirdómsins, en þar var hann staðfestur með dómi 25. apríl f. á. Til þess að fá enn ítarlegri úrskurð dómstólanna um rétt alþingis og rétt minn höfðaði eg mál fyrir bæjarþingsrétti Reykjavíkur gegn Landsbankanum til greiðslu gæzlustjórakaupsins fyrir janúarmánuð f. á., og var mér dæmt kaupið með dómi bæjarþingsins 7. apríl f. á., og þessi dómur, er Landsbankastjórarnir áfrýjuðu til yfirdóms, var staðfestur þar með dómi 11. júlí f. á. Allir þessir dómsúrskurðir segja beint og ákveðið, að eg sé löglegur gœzlustjóri efri deildar alþingis við Landsbankann, þrátt fyrir frávikningu ráðherra.

Er eg nú hefi tjáð háttvirtri efri deild alþingis framangreinda málavexti, og jafnframt og eg get þess, að landsstjórnin og bankastjórnin hafa eigi enn viljað viðurkenna mig sem gæzlustjóra við Landsbankann samkvœmt kosningu hinnar háttvirtu deildar og áðurnefndum bankalögum frá 1909 og samkvæmt dómsúrskurðum þeim, er fengnir eru um málið, — leyfi eg mér virðingarfylst að snúa mér til hinnar háttvirtu deildar með þá málaleitun:

að deildin geri ráðstöfun til þess að landsstjórn og Landsbankastjórn tafarlaust viðurkenni mig sem gæzlustjóra deildarinnar við Landsbankann, svo að eg geti tekið þann þátt í stjórn hans, er

mér ber að lögum;

að deildin sjái um, að eg fái gæzlustjórakaup mitt óskert greitt af Landsbankanum, og

að deildin styðji mig til þess að fá endurgoldinn kostnað þann, er Landsbankamálið alt hefir bakað mér, með því að eg í því hefi leitast við eftir mætti að halda uppi rétti hinnar háttvirtu efri deildar.

Reykjavík, 15. febr. 1911.

Virðingarfylst.

Kristján Jónsson, þm. Borgf.

Til Efri deildar alþingis“.

Líkt erindi og þetta hefir háttv. 2. konungkj. þingm. sent neðri deild alþingis, sem hefir kosið hann gæzlustjóra Landsbankans af sinni hálfu.

Það má nú segja, að það sé að bera í bakkafullan lækinn að fjölyrða um þetta mál. En af því, að málið nú fyrst kemur fyrir rétt sóknarþing, þá vil eg leyfa mér að lýsa aðalatriðum þess.

Mánudaginn 22. nóvember 1909 var allri Landsbankastjórninni vikið frá fyrirvaralaust, í miðjum annatíma bankans, án þess að henni væri gefinn nokkur kostur á að bera hönd fyrir höfuð sér, meira að segja án þess hún einu sinni hefði hugmynd um fyrir hverjar sakir hún sætti þessari meðferð. Það var gengið svo ríkt eftir, að framkvæmdarstjóri var rekinn upp úr sæti sínu frá hálfloknu verki, að því er sagt er.

Með þessu móti voru upphafsstafirnir í stafrófi réttlætisins, að dæma engan óheyrðan, átakanlega brotnir á bak aftur, jafnvel enn átakanlegar en á Spáni, því að Ferrer var þó fenginn málaflutningsmaður til málamynda og gefinn kostur á að verja sig. Þetta var því undarlegra, sem enginn maður í víðri veröld hafði ákært bankastjórnina fyrir nokkurn skapaðan hlut, og hvorugur endurskoðunarmanna bankans hafði fundið neitt að gerðum hennar, hvorki hinn stjórnkjörni né hinn þingkjörni. Alt um það var þessi stóri dómur eigi að eins kveðinn upp, heldur og fullnægt samstundis fyrirvaralaust. Til þessaar óheyrðu og óheppilegu nýlundu greip hæstv. ráðherra 22. nóv. 1909, og satt að segja öfunda eg hann ekki af því.

Maður skyldi nú ætla, að styrkar stoðir hefðu verið undir þessum stóra dómi og ber því að líta á þær ástæður, sem stjórnin hefir fært fram til réttlætingar þessari stjórnarathöfn. Þeirra er fyrst getið í bréfi ráðherra til bankastjóranna, og skal eg nú leyfa mér að lesa upp bréf hans til gæzlustjóra efri deildar. Það er svo hljóðandi:

Stjórnarráð Íslands.

Reykjavík, 22. nóvbr. 1909.

Með heimild laga 18. sept. 1885 um stofnun Landsbanka, 20. gr., er yður, herra háyfirdómari og alþingismaður, vikið frá gæzlustjórastöðu yðar við bankann sökum margvíslegrar, megnrar og óafsakanlegrar óreglu í starfsemi yðar í stjórn bankans og frámunalega lélegs eftirlits með honum.

Björn Jónsson.

Jón Hermannsson.

Til

hr. háyfirdómara Kristjáns Jónssonar,

R. af Dbr.

Reykjavík.

Háttv. deildarmenn sjá það á orðunum; „margvísleg, megn, óafsakanleg óregla og frámunalega lélegt eftirlit“, að hér er ekki verið að sundurliða. Hér er ekki um ákveðnar sakir að ræða og því síður um rökstuddar sakir. Öll þessi feitu lýsingarorð líkjast miklu fremur venjulegu blaðafeitmeti en vegnum stjórnarorðum, enda lét hæstv. ráðherra sér ekki nægja að tilkynna þau bankastjórunum sjálfum, heldur kom hann þeim strax á markaðinn, símaði þau, ekki að eins landshornanna á milli heldur einnig til útlanda. Ef háttv. deildarmenn vilja heyra eitthvað af því, sem hæstv. ráðherra auglýsti og símaði um þessar mundir, þá skal eg leyfa mér að lesa upp útdrátt úr tilkynningu, sem hann lét festa upp á götuhornum hér í bænum. Hann taldi ráðstöfunina „nauðsynlega og óumflýjanlega“, sjálfsagt að styðja bankann til að standa í skilum“, og sagði „gerðar þar að lútandi ráðstafanir utanlands og innan“. Með þessu gaf hæstv. ráðherra í skyn, að í rauninni væri bankinn á heljar þröminni, en landsstjórnin ætlaði að reyna að halda honum við. Þetta og því líkt var símað landshornanna milli og til útlanda, til dönsku mömmu. Öll þessi aðferð er líkari leikhúshvell en stjórnathöfn, líkari skrípaleik en „æfintýrinu góða“, sem hirðskáldið spáði að væri að gerast með þjóð vorri, er hv. ráðherra settist undir stýrið.

Það var ekki nóg með það, að svona aðferð væri beitt gagnvart bankastjórunum — sem jafnvel sjálft ráðherrablaðið taldi í alla staði heiðarlega menn — heldur skirðist ráðherra ekki við að setja einmitt þá menn í stjórn bankans, sem höfðu verið settir í rannsóknarnefndina til þess að leita að átyllum til að koma gömlu bankastjórninni frá. En óbragð hafa þeir fundið að þessu, því að þeir fengust ekki til að vera gæzlustjórar nema rúman viku tíma. Nokkrir af meðmælendum hæstv. ráðherra töldu þessa stjórnarathöfn vott þess, að hann væri stjórnsamur og röggsamur ráðherra og bjuggust við að eitthvað líkt þessu stæði til um hinn bankann. Enda hafði hæstv. ráðherra gefið í skyn, að hann myndi ekki að eins líta vel eftir og rannsaka Landsb., „hjáleigubankann“, heldur einnig Íslandsbanka, „herragarðsbankann“. Hann svaraði mér því hér í deildinni 1909, þegar eg spurði, hvernig á því stæði, að hann hefði ekki líka látið rannsaka Íslandsbanka, að það væri of snemt að tala um vanrækslu í þessu efni, þar sem ekki væru liðnir nema fáir dagar frá því hann hefði tekið við. En nú eru liðin nærri 2 ár, og hvað hefir verið gert? Eg efast ekki um, að bankanum sé vel stjórnað. En svikin, sem upp komu í útibúinu á Akureyri, sýndu þó, að ekki var alt með feldu þar. Auk þess fer bankinn með ýms réttindi, sem landi og lýð ríður mjög svo mikið á að sé gætt vel. Hann tekur við fé með sparisjóðskjörum, hann hefir seðlaútgáfurétt og rétt til að gefa út bankavaxtabréf. Hér má og minna á það, að til eru þeir menn við bankann, sem fulltrúaráðið hefði átt að skipa, en setið hafa nú að störfum sínum misserum saman, án þess að fulltrúaráðið hafi fengið að leggja orð í belg um skipun þeirra. Eftirlitsskylda ráðherra með bankanum er tvímælalaus sbr. 9. og 17. gr. laga 7. júní 1902 og 22. gr. reglugj. 25. nóv. 1903. En hvað hefir ráðherra gert? Jú, hann myndaðist við að halda aðalfund, en fulltrúafund fékst hann ekki til að halda, svo sem vera bar. Á aðalfundinum las hann upp lofskýrslu um bankann, sem honum var fengin þar til upplesturs. Hann sagði skýrsluna vera frá fulltrúaráðinu, en játaði þó, að svo væri ekki, er það var rekið ofan í hann, að fulltrúaráðið hefði ekki komið nærri henni. Manni dettur í hug að ástæðan til mismunar á framkomu hans gagnvart „Íslandsbanka“ og Landsbankanum okkar, sé runnin af líkri rót og munurinn á framkomu hans yfirleitt á „höfuðbólinu“ og „hjáleigunni“.

Auk þess sem hv. ráðherra réðist opinberlega á Landsbankann, hefir hann frá upphafi bankafargansins og fram á þenna dag úr skúmaskoti nafnleysisins sigað „Ísafold“ miskunarlaust á bankann. Ásakanir Ísafoldar hafa áður verið tættar í sundur, bæði af mér á kjósendafundi hér í Rvík í ársbyrjun 1910 og af öðrum. En af því að sök ráðh. er nú í fyrsta skifti reifð á réttu varnarþingi, er rétt að geta þeirra stuttlega.

Í fyrsta lagi segir Ísaf., að bankareikningarnir hafi aldrei verið úrskurðaðir öll 5 stjórnarár H. Hafsteins. Þetta er satt, en ekki fullur sannleikur. Það var löngu hætt að úrskurða bankareikningana formlega áður en H. H. kom til sögunnar. Seinasti reikningurinn, sem úrskurðaður var, var fyrir 1900. Með þeim reikningi var hætt að úrskurða reikningana formlega, að því að mér er sagt, af því að bankastjórnin tók upp úr því að leiðrétta gerðir sínar jafnótt og endurskoðunarmennirnir fundu að þeim. Og væri hér um brot að ræða, væri það brot af hendi landstjórnarinnar en ekki af hendi bankastjórnarinnar.

Í annan stað fann Ísaf. bankastjórninni það til foráttu, að hún hefði ekki gert sparisjóð bankans upp í 8–9 ár, en það eru rakalaus ósannindi eða meinlegur misskilningur, eins og hver getur sannfært sig um, sem nennir að lesa hina árlegu reikninga bankans og yfirlit í stjórnartíðindunum. Þar er árlega tilfært tekjumegin það sem í sparisjóð er lagt og útgjaldamegin það sem úr honum er tekið. Auk þess var viðskiftareikningur hvers einasta manns, sem í sparisjóð lagði eða úr honum tók, daglega gerður upp. Hver einasta innborgun og útborgun var bókfærð á 5 stöðum og alt daglega borið saman.

Í þriðja lagi er borið á bankastjórnina, að skuldheimtur hafi verið mjög misráðnar. Stundum fundið að því, að hún hafi notað of mikið málafærslumenn, og stundum of lítið. Í þessu sjá allir samkvæmnina, bankastjórnin er hér skömmuð, bæði fyrir að nota málfærslumenn og fyrir að nota þá ekki, alveg rakalaust.

Þá er fjórða ásökunin, að „oft“ hafi vantað lántökuheimildir fyrir lánum. Sannleikurinn í þeirri ásökun kvað vera sá, að einu sinni, alls einu sinni, hafði vantað vottorð sýslumanns fyrir því, að ekki væri fleiri í stjórn eins félags, er lán fékk, en þeir er beiddust lánsins og fengu það.

Hinar fjórar sakirnar gegn bankastjórninni voru, að framkvæmdarstjórinn hefði veitt einn lán, að víxlar hefðu verið keyptir án skriflegrar útgjaldaskipunar, að ýmsar bækur hefðu átt að vera í ólagi, og að varasjóður hefði átt að vera veðsettur. Nú voru fæturnir undir stóra dómi hv. ráðh. orðnir átta, eins og undir Sleipni forðum, og þótti mörgum sá fótaburður fara Ísaf. miður en vel. En auk nefndra 8 ásakana, hvar af rannsóknarnefndin tók upp hinar 4 síðast töldu, hafði Ísaf. dylgjur um, að margt fleira væri bogið í fari bankastjórnarinnar. Hún nefndi framantaldar ásakanir „sýnishorn“, kvaðst ekki nefna aðrar af því, að það væri „ábyrgðarhluti“ fyrir stjórnina að nefna sumar. Taki menn eftir: „ábyrgðarhluti“ fyrir núverandi stjórn!

Eg mun víkja nánar að ásökunum þeim er rannsóknarnefndin tók upp. Hér er að eins ástæða til að minna á, að jafnvel Ísaf. þorði ekki upprunalega að bera það á bankastjórnina, að hún hefði valdið bankanum fjártjóni. Því var það, að útlend blöð kölluðu ásakanir ráðh. „formelle Lapperier“. Og það var orð að sönnu. En því óforsvaranlegra var það, að stjórnin og stjórnarblaðið, sem eiga að verja landsins stofnanir, skyldi leggjast svo lágt, að skrifa hverja níðgreinina á fætur annari um jafnmikilsverða landsstofnun og Landsbankinn er.

Svo kom rannsóknarnefndarskýrslan svokallaða, dagsett 20. janúar 1910; þá þurfti ekki lengur að spá í eyðurnar um syndir bankastjórnarinnar. Þar hlutu öll kurl að koma til grafar. Skýrslan skelti strax fjóra fætur undan Foldinni, svo nú komst hún aftur á sína venjulegu og þótti sá fótaburður fara henni fult eins vel og Sleipnisfótaburðurinn. Nefndin feldi niður ásakanir Ísaf. 1. um úrskurðarvöntun reikninganna, 2. sparisjóðsuppgerðina, 3. misráðnar skuldheimtur og 4. um vantandi lántökuheimildir. Þar næst segir nefndin eftirfarandi liði í Landsbankanum í góðu lagi eða ekki svo athugaverða að tali taki:

1. Peningasjóð.

2. Verðbréfaeign.

3. Fasteignaveðslánin gömlu.

4. Handveðslán.

5. Sveita og kaupstaðalán.

6. Akkreditivlán.

Um þetta má lesa á bls. 4—5 í skýrslunni. Sama er um veðdeildarlánin að segja, bls. 37, og sömuleiðis um sparisjóð og seðlameðferð. Reyndar er einn nefndarmanna, Indriði Einarsson, látinn gjöra athugasemd á bls. 8—10 um heppilegri aðferð við þessar tvær deildir bankans, en hún stendur þar fyrir hans eigin reikning. Nefndin vildi ekki taka ábyrgð á henni. Hér hafa þá verið talin 9 mikilsverð atriði. sem rannsóknarnefndin fann ekkert athugavert við.

Og er þá komið að aðfinningum nefndarinnar. Þær eru sumpart formlegar og sumpart efniskendar. Meðal hinna formlegu er fyrst að geta aðfinningarinnar um það, að skriflegar útgjaldaskipanir vanti fyrir ýmsum víxillánum. Sú útásetning er átyllulaus, því að það er hvergi nokkurstaðar vikið að því í lögum bankans eða reglugerð, að gefa skuli skriflega útgjaldaskipun fyrir víxlum og lánum. Hitt er satt, að það hafði viðgengist, og hafði upphaflega verið tekið upp vegna herbergjaskipunar í bankanum. En slíkt mun annars hvergi tíðkast í víðri veröld og ekki er það gert í Íslandsbanka.

Í annan stað finnur rannsóknarnefndin að því, að framkvæmdarstjórinn hafi einn keypt víxla og veitt lán. Þetta er satt og jafnframt fullkomlega leyfilegt. Samkvæmt 23. gr. laga 18. sept. 1885 og 1.gr. reglugerðarinnar 8. apríl 1894 átti framkvæmdarstjórinn að annast „dagleg störf“ bankans, en þau eru aðallega að kaupa víxla, veita smálán o. s. frv. Hann var aðalmaðurinn við bankann, enda liggur það skýrt í orðunum „framkvæmdarstjóri“ og „gæzlustjóri“ hver afstaða þeirra sé. Gæzlustjórarnir áttu aðallega að „hafa umsjón með því að lögunum um Landsbankann sé fylgt“. Í því skyni hafði framkvæmdarstjóri fimm sinnum hærri laun en gæzlustjórarnir, hann 5000 kr. á ári, en þeir 1000 kr. Af sömu ástæðum var framkvæmdarstjóranum einum bannað að hafa önnur atvinnustörf á hendi, en gæzlustjórarnir hafa alt af haft önnur aðalstörf með höndum, lengst af verið embættismenn. Auk þess hefir það alt af viðgengist og verið óátalið af öllum, að framkvæmdarstjóri keypti einn víxla og veitti smálán. Rannsóknarnefndin kannast sjálf við það á bls. 11, að gæzlustjórarnir hafi samþykt aðferð þessa og landstjórnin hefir aldrei að henni fundið.

Í þriðja lagi fann rannsóknarnefndin það til, að starfsmenn bankans, sérstaklega féhirðir og bókari, hafi „keypt“ um 240 víxla. En hér er heldur ekki farið rétt með, heldur hafði framkvæmdarstjóri með samþykki gæzlustjóranna falið nefndum starfsmönnum að taka við nýjum víxlum til svokallaðrar framlengingar á eldri víxlum, þegar eitthvað væri afborgað og öll sömu nöfn á nýja víxlinum og þeim gamla. Og þessi ástæða, að 2 af starfsmönnum bankans höfðu tekið við nýjum víxlum, er svo á stóð, sem nú var greint, var einkaástæða ráðherra fyrir stóradóminum 22. nóv. 1909. Annað var þá ekki komið til hans frá nefndinni en bréf hennar 16. nóv. 1909, sem finna má á bls. 54 í rannsóknarnefndarskýrslunni. Á „mati“ nefndarinnar gat hann ekki bygt, því að það varð fyrst til töluvert síðar. Á nefndu bréfi og því einu bygði ráðherra þennan makalausa dóm, er gekk og var fullnægt nefndan nóvemberdag.

Loks finnur nefndin í 4. lagi að því, að bankastjórnin hafi eigi haldið gerðabók m.m. En sú aðfinning er á sömu bókina lærð og hinar, því að samkv. 8. gr. reglugj. þurfti því að eins að færa ágreining til gerðabókar að einhver krefðist þess, en það hafði aldrei komið fyrir.

Er þá komið að efnisaðfinningunum. Nefndin telur víxlaeign bankans oftalda um kr. 6241,85, og ávísunareign kr. 1439.90 hærri en vera bar. Þetta hét á Ísafoldarmáli „mörg, mjög mörg þúsund“. Eftir reikningi bankans var víxileignin að eins oftalin um kr. 2940,51. Víxiloftalningin verður ekki teygð lengra en þetta. Og það hefir fróður maður sagt mér, að sú upphæð sé ekki nema ½ 5000 partur borinn saman við víxlaumsetningu bankans frá upphafi. Annars má geta þess að nokkur líkur hængur var á landsreikningunum um 20 ár. Peningaeign landsjóðs oftalin um rúm 3000 kr. En alþingi setti hvorki rannsóknarnefnd út af því né gerði veður af því að öðru leyti heldur var skekkjan jöfnuð hljóðalaust á þingi 1907. Og þessi litla skekkja í víxileign bankans verður að minsta kosti ekki gefin gæzlustjórunum að sök, hún er að kenna eftirlitsleysi endurskoðenda bankans, sé hún nokkrum að kenna.

Þá hreyfir nefndin nokkrum athugasemdum um varasjóð bankans. Nefndin fullyrðir að vísu ekki að varasjóður hafi verið veðsettur, segist að eins „verða að álíta“ að verðbréfin hjá Landmandsbanken hafi verið veðsett. Því síður segir nefndin veðsetningu lögleysu, enda hafði Ísafold strax verið bent á 7. gr. bankalaganna, sem beint leyfir að veðsetja varasjóð með því að heimila bankanum lántöku „gegn tryggingu í sjálfs sín eignum“, enda liggur sama í 31. gr laganna, ákvæðinu um að varasjóður beri tap bankans, megi borga lánardrotnum bankans beint af varasjóði, hlýtur að mega taka lán upp á hann í sama skvni.

Varasjóður var um það leyti, sem bankastjórnin fór frá, kr. 636,605,08, en nú vildi svo til, að Landsbankinn átti í verðbréfum meira en þessu nam og alt óveðsett. Bankinn átti hjá Landmandsbanken í Kaupmannahöfn verðbréf fyrir samtals kr. 587.000. Nefndin hélt því reyndar fram, að þessi bréf væru veðsett, en bankastjórarnir hafa gagngjört neitað því, enda hafði bankastjórnin ekki gefið út veðbréf fyrir þeim. Ekki að marka þó að Glückstad, bankastjóri Landmandsbanken, segði þau sett til tryggingar fyrir viðskiftum, eftir að hæstv. ráðherra var búinn að síma út um alt, að Landsbankinn væri á heljarþröminni. En þó að bréf þessi hefðu verið veðsett, þá átti bankinn samt heima fyrir í bankavaxtabréfum kr. 651,800,00, og í stjórnarráðinu átti hann verðbréf að upphæð kr. 703,100,00 til tryggingar fyrir veðdeildunum, og um þau bréfin átti ráðherra að vita. Að vísu voru bréf þessi til tryggingar veðdeildunum, en það band var á þau lagt með lögum nr, 30, 25. sept. 1902 og lögum nr. 27, 20. okt. 1905, og því ekkert að því að finna, frá lagalegu sjónarmiði, enda þó að draga megi í efa, hvort það hafi verið skynsamlegt, að leggja slíka kvöð á bankann eða varasjóð hans. Það nær heldur engri átt að varasjóður hafi verið lánaður út, eða að hann hafi verið „í veltufé bankans“. Það er sýnt, að hann hafi verið til í verðbréfum og af því leiðir að hann getur ekki hafa staðið í útlánum til Péturs eða Páls.

En þá kemur þriðja trompið og aðaltrompið, tapið. „Foldin“ hafði ekki þorað að bregða bankastjórninni um að hún hefði skaðað bankann. Hún hafði þvert á móti gefið bankastjórninni nokkurs konar heiðarlegleikavottorð, kallað þá „þjóðkunna ráðvendnismenn“. En það var einmitt veiki punkturinn í áhlaupi Ísaf., að hún hafði annaðhvort ekki þorað eða henni ekki hugkvæmst að kenna bankastjórninni um að hafa farið illa með fé bankans. En rannsóknarnefndin lét sér það víti að varnaði verða, hún segir að bankastjórnin hafi þá þegar glatað kr. 400,000,00. Það stendur á bls. 19—20 í rannsóknarnefndarskýrslunni.

Raunar sýnir skýrslan sjálf, að það má ekki taka þetta bókstaflega. Eftir yfirskrift héraðlútandi kafla skýrslunnar var það að eins mat nefndarinnar, að tapið væri svona mikið. En hvernig er nú þetta mat til orðið? Eftir því, sem skýrslan ber með sér, hefir nefndin komist að þessu tapi á nokkuð einkennilegan hátt. Hún segir svo frá, að af 1100 mönnum, sem skuldi bankanum 1,900.000 kr., séu 460 menn, sem skuldi 1,380,000 kr. Nefndir 460 menn tilheyra aðallega 2 flokkum, er nefndin lýsir svo, að þeir séu sumpart „menn, sem engar eignir eiga, eða þá að eins eignir, sem veðsettar eru fyrir fullu verðmæti þeirra ..., sem fyrirsjáanlega geta aldrei eignast neitt, er þeir gætu látið af hendi rakna“ og sumpart „menn, sem hafa dálítið undir höndum, en geta ekki staðið í skilum með sínar eigin skuldir og eiga hvergi nærri fyrir þeim og geta enn síður borgað neitt fyrir aðra“. Þegar nú 460 menn, sem eru svona illa staddir, skulda 1,380,000 kr., skyldi maður ætla að tapið yrði því sem næst þessi upphæð. En þó gerir nefndin það ekki nema 400,000 kr. Hvernig stendur á því, að nefndin ætlar þessum fátæku mönnum að geta borgað mismuninn, því nær eina miljón króna? Það kemur hvergi fram í skýrslunni, nefndinni hefir alveg láðst að gera grein fyrir því. — Þetta getur ekki einu sinni heitið mat, það er að eins spá út í loftið, enda er framtíðargeta manna að miklu leyti háð ófyrirsjáanlegum, sjálfráðum og ósjálfráðum atvikum. Meðal annars er mikið komið undir bankastjórninni sjálfri, hve hyggilega hún fer að við innheimtuna. Haldi hún klaufalega á, má auðvitað tapa 400 þúsund krónum.

Það vill nú líka svo til, að Landsbankastjórnin nýja hefir sjálf sannað það, að tapið var ekki neitt líkt því, sem rannsóknarnefndin hafði áætlað, því á bankareikningnum fyrir árið 1909, (bls. 19), telur hún tap bankans að eins 15 þúsund kr. En svo kemur það skringilega á þessum reikningum, sem líklega er að kenna viðvaningsskap bankastjóranna. Bankastjórnin skiftir varasjóði, sem auðvitað er allur ætlaður til að bera tap bankans, í tvent, og lætur annan hlutann, 385 þús. kr., standa sér, fyrir „áætluðu tapi á útistandandi skuldum á næstu árum“. Þegar við þessar 385 þús. kr. er bætt þeim 15 þús. kr. eða nákvæmar tiltekið kr. 15,547,35, er bankastjórnin telur tapið, koma sem næst út 400 þús. kr., sem rannsóknarnefndin hafði látið bankann tapa. Að vísu kemur áætlun bankastjórnarinnar ekki nákvæmlega heim við mat nefndarinnar. Til þess að tölurnar stæðu alveg heima, hefði bankastjórnin átt að ætla fyrir tapinu kr. 384,452,65, en af skiljanlegum ástæðum hefir hún heldur kosið að áætla tapið 385 þús. kr. Það verður þannig ekki annað sagt en að bankastjórnin hafi munað eftir að „fága þá eik, er undir skal búa“.

En auk þess sem alt eða flest í skýrslu rannsóknarnefndarinnar rekur sig þannig hvað á annað, þá er hún líka af öðrum ástæðum alveg ónýt sem sönnunargagn. Fyrst og fremst af því, að nefndarmennirnir voru illa valdir. Þeir voru alveg óbankafróðir menn, einn þeirra auk þess háður stjórninni, aðstoðarmaður í stjórnarráðinu, annar meðverkamaður sonar ráðherra, og þriðji verzlunarmaður. Enginn þeirra var kunnugur högum viðskiftamanna bankans. Auk þess er skýrslan enganvegin litlaus. Til dæmis skal eg benda á ummæli nefndarinnar á bls. 23. Þar segir svo um bankastjórnina: að það líti svo út sem það hafi verið „þægilegra fyrir hvern og einn að vera viðskiftamaður bankans í vanskilum við hann, en viðskiftamaður hans og standa í skilum“. Þetta eru ekki dómsorð. Á sömu síðu nokkru neðar er talað um að vanskilin hafi verið „verðlaunuð af peningastofnun landsins“. Bankastjórninni er brugðið um að hún hafi verðlaunað vanskil við bankann. —

Við alt þetta bætist loks sú óhæfa, að bankastjórninni var ekki gefinn kostur á að svara til þeirra saka, sem á hana voru bornar. Þetta var, er og verður óhæfa af hæstv. ráðherra.

Nú hefi eg rakið gang málsins nokkuð. En hverjar urðu svo afleiðingarnar af þessu tiltæki hæstv. ráðherra? Þær komu brátt í ljós, því að rétt á eftir varð hæstv. ráðherra að brjóta odd af oflæti sínu og taka við tveimur útlendum bankamönnum, sem voru sendir hingað frá „dönsku mömmu“ til þess að kynna sér ástand bankans.

Í annan stað má geta þess, að þúsundum króna hefir verið eytt úr landsjóði og frá bankanum, bæði til rannsóknarnefndarinnar sjálfrar, og til margs annars kostnaðar, sem af þessu máli hefir leitt síðan. En það skiftir nú ekki mjög miklu máli, enda verður hæstv. ráðherra væntanlega látinn borga það sjálfur.

Hitt skiftir miklu meira máli, að hér voru þrír sæmdarmenn svívirtir að ástæðulausu, reknir frá starfi sínu eins og rakkar, eða öllu heldur eins og stórglæpamenn.

Þá var og áliti lands og lýðs stórspilt með þessu tiltæki. Sem betur fór, urðu að vísu ekki eins mikil brögð að því eins og búast hefði mátt við, því að það sýndi sig, að menn, bæði útlendir og innlendir, lögðu lítinn trúnað á orð og ummæli ráðherra um stjórn bankans. Ef þeim hefði verið trúað, ef hæstv. ráðherra hefði verið meira metinn, þá hefði álit landsins og Landsbankans verið gjörspilt.

Enn hefir dómsvald landsins verið virt að vettugi. Tveimur dómum, sem gengið hafa í þessu máli, ber alveg saman um það, að frávikningin hafi verið fullkomlega ólögmæt, að ráðherra hafi ekki haft vald til að víkja gæzlustjórum bankans frá nema um stundarsakir, þ. e. að eins fyrir tímabilið frá 22. nóv. til loka ársins 1909. Hann hafði í orði kveðnu vald til að víkja framkvæmdarstjóra bankans frá fyrir fult og alt, en ástæðulaus var sú frávikning með öllu, enda hafði ráðherra sagt honum upp til nýárs og sæmileg stjórn hefði látið þá uppsögn duga. Hitt er augljóst mál, að ráðherra gat ekki með nokkru yfirskyni laga hróflað við hinum þingkosnu gæzlustjórum bankans, eftir 1. janúar 1910. Þar eru ótvíræð lög brotin, því að með 8. gr. laga nr. 12, 9. júlí 1909 er numinn úr gildi IV. kafli bankalaganna 18. sept. 1885 og þar með 20. gr. síðarnefndra laga, sem hafði að geyma heimildina til að víkja gæzlustjórunum frá um stundarsakir. Eg skal ekkert segja um innsetninguna sjálfa, engu spá um dóm hæstaréttar um það atriði, hvort fógeti hafi haft vald til að setja gæzlustjóra e. d. inn í stöðu hans í bankanum aftur, En eg er ekki í nokkrum vafa um það, að hæstiréttur muni dæma frávikninguna ógilda eftir 1. janúar 1910, dæma gæzlustjórunum laun sín alt frá þeim tíma.

Loks er að geta þess að Landsbankastjórnin hefir verið ólöglega skipuð frá 1. jan. 1910 til þessa dags. Hafi framkvæmdarstjórum bankans nokkurntíma borið á milli á þessu tímabili, svo að leita hafi þurft atkvæðis gæzlustjóra, þá er hver sú gerð ólögmæt, er þeir hafa tekið þátt í. Stjórn Landsbankans hefir verið ólögmæt síðan 1. jan. 1910 og er það enn.

Eg hefi nú lýst þessu svokallaða Landsbankafargani stuttlega. En því er ver, að hæstv. ráðherra á ekki einn sök á þessu máli. Hæstv. meiri hluti hér í deildinni á líka sök á því að svona fór. Á síðasta þingi, þegar hæstv. ráðherra var nýbúinn að skipa bankarannsóknarnefndina, bar eg fram tillögu til rökstuddrar dagskrár um það mál hér í deildinni, svo vægt orðaða sem frekast var unt. Tillagan stendur í Alþtíð. 1909 nr. 740 og skal eg, með leyfi hæstv. forseta, lesa hana upp. Hún hljóðar svo: „Deildin telur rétt að landstjórnin líti eftir peningastofnunum landsins, en væntir þess að það sé gert með varúð og tekur í því trausti fyrir næsta mál á dagskrá“. — En af ofmiklu kappi og trausti á hv. ráðh. var þessari tillögu hafnað og í þess stað sþ. önnur tillaga, Alþtíð. 1909 nr. 741, sem hljóðar svo: „Með því að deildin lítur svo á, að hin umræddu afskifti landstjórnarinnar af hag Landsbankans séu bæði lögmæt og sjálfsögð, lýsir hún fullu trausti sínu á ráðherranum, og tekur fyrir næsta mál á dagskrá“. Mínir herrar, það eru fleiri en ungir folar, sem ekki þola að riðið sé undir þá. Jafnvel fyrverandi ungir folar, útslitnir reiðhestar þola það ekki altaf. En nú mun háttv. meiri hluti vilja bæta úr þessu. Mér skilst svo, að hann sé mér sammála um, að það þurfi að rannsaka gerðir landstjórnarinnar í þessu máli. Það sést á þgsk. 42 að jafnvel hv. þm. Akureyrar vill bæta fyrir gerðir sínar og ráðherra í bankamálinu. Raunar er það lagt til að víkja við orðunum í till. minni og fækka þeim málum, sem væntanleg nefnd á að rannsaka. Háttv. flutningsmenn leggja til að í stað orðanna „rannsaka gerðir landstjórnarinnar í Landsbankamálinu“ komi „rannsaka Landsbankamálið“, líklega til þess að ráðherra eigi hægra með að renna pillunni niður. Eg get nú samt ekki fallist á þessar breytingartillögur. Eg lít svo á, að mín till. feli í sér að væntanleg nefnd eigi ekki að eins að rannsaka gerðir landsstjórnarinnar, heldur einnig gerðir Landsbankastjórnarinnar að svo miklu leyti, sem rannsókn á þeim væri nauðsynleg, til að dæma um gerðir landstjórnarinnar. Tillagan er þessvegna að því leyti til óþörf. Breytingin, sem felst í tillögunum á þgskj. 42, er því í rauninni að eins sú, að hv. flutningsmenn vilja binda rannsóknina við bankamálið eitt. Þar þora þeir ekki að skerast úr, enda vona eg að allir séu á einu máli um það, að ráðherra hafi unnið þar óhæfuverk.

En, mínir herrar, það eru enn fleiri gerðir hv. ráðherra, sem flokkur hans þarf að hreinsa sig af, enda á hv. ráðherra nú í vændum vantraustsyfirlýsingu frá flokksmönnum sínum. Og ekkert er eðlilegra en að flokkurinn geti ekki unað forustu hans lengur. En það er ekki nóg að koma ráðherra af sér, það liggur ekki nægileg hreinsun í því fyrir flokksmenn hans. Mér skilst að flokknum hljóti að vera áhugamál, að hreinsa sig, ekki að eins af verstu verkum ráðherra, aðgerðum hans í bankamálinu; það verður einnig að upplýsast að flokkurinn sé hreinn af hans næst-verstu verkum. Og það getur að eins komið í ljós með rannsókn. Þess vegna vona eg að hv. meiri hluti fallist á, að láta rannsaka gerðir ráðherra í fleiri málum en bankamálinu, ef mér tekst að lýsa svo sumu af því, sem eg kalla næst-verstu verk hans, að flokksmönnum hans þyki nokkurs um vert að hreinsa sig af allri ábyrgð á þeim.

Meðal næst-verstu verka ráðherra tel eg fyrst og fremst: Thore-málið.

Í fjárlögunum fyrir árin 1910—11, 13. gr. A. 2, voru veittar „alt að 12 þús. kr. hvort árið, fyrir að flytja póstsendingar með skipum, sem ekki njóta fasts tillags, milli Íslands og útlanda og milli hafna á Íslandi. . .“ Nú er það kunnugt, að ráðherra hefir látið Thore-félagið fá helming af þessari upphæð, og það er augljóst lagabrot.

Ráðherra var á síðasta þingi gefin „heimild til að semja um gufuskipaferðir, um alt að 10 ára tímabil, ef mun betri ferðir (sem ráðh. hefir þýtt „en Del hensigtsmæssige Rejser“) fást með því móti, ef kælirúm fást í minst 2 af skipunum, er fara milli landa og ef minst eitt skip fer nokkrar ferðir á ári milli Hamborgar, Leith og Íslands“. — Um not þessarar heimildar fórust háttv. þm. Ísafjarðarkaupstaðar, framsögum. fjárlaganefndar deildarinnar á síðasta þingi sbr. Alþtíð. 1909 B, bls. 198 neðst og 199 efst, orð á þessa leið: „Eg hugsa því að stjórnin muni ekki misbrúka heimild sína. En það kalla eg að misbrúka, ef gömul skip verða notuð til ferðanna, þó ferðirnar verði fleiri. Það þurfa að vera góð skip, sem notuð eru til ferðanna; það kemur alls ekki alt uppá að hafa ferðirnar mjög margar, heldur miklu meira uppá hitt, að hafa, skipin góð, samsvarandi tímans kröfum. Því tel eg vel tilvinnandi að hafa ferðirnar heldur færri, en fleiri ferðir með slíkum skipum sem dallar „Samein. félagsins“ eru, og sömuleiðis mörg af skipum Thore. Einmitt þetta álít eg að sé gott að komi fram og standi í þingtíðindunum, svo að stjórninni gefist kostur á að sjá, að þessi athugasemd hefir komið fram í þessu sambandi“.

En hvernig hafa nú efndirnar orðið af hálfu ráðherra? Í samningnum, sem hv. ráðherra gerði við Thore-félagið 7. ágúst 1909, stjórnartíð. 1909 B, 176— 179, hefir hann margbrotið þessi skilyrði,

sem þingið hafði sett. Millilandaferðirnar áttu að vera 25, en voru eftir samningnum við Thore, að eins 24. Ekkert farþegarúm var áskilið, en í því efni var lukkan betri en „Forstanden“, eins og Danskurinn segir. Kælirúm var að eins áskilið í einu skipi en átti að vera í tveimur. Svona var samið um millilandaferðirnar, og samningsákvæðin um strandferðirnar voru litlu betri. Tvö af strandferðaskipunum máttu ekki vera að neinu leyti síðri en Hólar og Skálholt. En strandferðaskip Thorefélagsins eru miklu minni en Hólar og Skálholt. Auk þess er 2. farþegarúm í þeim óhæfilegt. — Nú skyldi maður búast við að stjórnin hefði séð um að félagið stæði við það lítið, sem hún lét það lofa sér. En það hefir ekki heldur verið gert. Af millilandaferðunum er það styzt að segja, að þar er fæst haldið. Viðkomustaðir í Færeyjum máttu eftir samningnum t. d. ekki vera fleiri en 20, en eftir áætlun skipanna eru þeir 34. Skipin eru lakari en skip samein. félagsins.

En þó tekur útyfir um tilhögun ferðanna, Ísafold lofaði vikuferðum, en efndirnar urðu þann veg, að millilandaferðirnar hafa aldrei verið meiri kássuferðir en nú. Ferðirnar máttu samkv. 13. gr. C. 1 X 3. málsgr. gildandi fjárlaga ekki vera minni eða lakari en Samein. gufuskipafél. bauð samkv. þingskj. 679, Albt. 1909 Á, bls. 1040 o. fl., en þó voru 10 viðkomustaðir þeirra feldir úr tölu þeirra samkv. nýnefndu ákvæði og heil héruð sett hjá.

Ferðunum er þannig hagað, að eitt sinn líða 36 dagar á milli ferða til Reykjavíkur, nefnilega frá 16. jan. til 22. febr.; og á leið frá Reykjavík eitt sinn 85 dagar, frá 8. des. til 3. marz. Svona eru nú vikuferðirnar. Þetta er sambandið milli Reykjavíkur og útlanda. Milli Reykjavíkur og Norðurlands og Austurlands eru norðan að að eins 2 ferðir með millilandaskipunum á árinu, í apríl og ágúst með þrem viðkomustöðum, og að eins 2 að austan, milli Austurlands og Reykjavíkur sunnan um land í okt. og nóv. Húnavatnssýsla, Strandasýsla, Norður- og Suðurþingeyjarsýslur og Norðurmúlasýsla mega heita alveg settar hjá. Þá eru strandferðabátarnir. Austri og Vestri eru bæði minni skip en Hólar og Skálholt voru. Farþegarúm á öðru og þriðja farrými miklu verri, og suðurlandsbáturinn Pervie, er allsendis óbrúkanlegt skip; auk þess hafa öll Thoreskipin, nema Sterling, illa fylgt áætlun. Og við þetta fyrirkomulag hefir ráðherrann bundið okkur í 10 ár fyrir 60,000 kr. á ári og bætt ofan á þá fúlgu 6,000 kr. í ofanálag. Þessi kjarakjör hefir sonur ráðherrans útvegað „Thore“ hjá föður sínum, og finst mér að hv. meirihl. ætti ekki að vera það óljúft að þessar ritningar væru rannsakaðar, eigi hann ekki hlut að máli.

Þá ætla eg að minnast á viðskiftaráðunautinn. Í fjáraukalögunum frá 1908—1909. 6. gr. er veitt til viðskiftaráðunauta erlendis, („Forretningskonsulenter udenlands“) 10,000 kr. og í 16 gr. gildandi fjárlaga er veitt til viðskiftaráðunauta — Forretningskonsulenter — alt að 12,000 kr. hvort árið. í fjáraukalögunum og fjárlögunum er þannig gert ráð fyrir að þeir séu að minsta kosti tveir og að hvor þeirra hafi þá í hæsta lagi allt að 6000 kr. á ári. En nú hefir landritari gert hæstv. ráðherra þá glennu, að auglýsa í embættismannatali sínu að viðskiftaráðunauturinn hafi 10,000 kr. laun um árið, og auk þess heyri eg sagt. að hann fái ferðakostnað, er eitt árið kvað nema meiru en 1100 kr. Þessi meðferð á fé landsins er gersamlega óforsvaranleg, er tvímælalaust fjárlagabrot. Og hvað hefir viðskiftaráðunauturinn svo afrekað fyrir það fé, framundir 20,000 kr., sem ausið hefir verið í hann frá 1. ágúst 1909. Jú hann hefir útvegað þeim Ásgrími og Þórarni nokkurra ferálna veggpláss á listasýningunni í Kristjaníu, gefið fyrirheit um tryppasölu til Rómaborgar og svo strikað hér um göturnar tímunum saman. Og við hverju var að búast, svo einkennilega sem hæstv. ráðherra tókst valið á manninum, verkið, sem einn vina hans sagði um, að enginn hefði getað unnið nema núverandi ráðherra.

Þá vildi eg leyfa mér að víkja fáeinum orðum að fjárveitingunni til síldarmatsmannanna. Á fjáraukalögunum 1908—09, 6. gr., 21. eru veittar 1200 kr. sem laun til tveggja síldarmatsmanna, 600 kr. handa hvorum og auk þess 800 kr. sem utanfararstyrkur til beggja eða samtals 2,000 kr. Menn skyldu nú ætla, að þessu hefði verið skift jafnt milli mannanna, að þeir hvor um sig hefðu fengið helming launaupphæðar og helming af ferðastyrknum. Laun fengu þeir og jöfn, en ferðastyrknum var skift þannig, að Jón Bergsveinsson, síldarmatsmaður á Akureyri, fékk 600 kr. af veittum 800 kr. og að auki 936,25. Hinn varð að láta sér nægja 200 kr. af ferðastyrknum. Hæstv. ráðherra fer nú fram á það í fjáraukalögum þeim, sem lögð hafa verið fyrir þingið, að fá veitta viðbót þá, sem framyfir var greidd, en fróðlegt þætti mér, áður en eg greiði því atkvæði, að fá að heyra hvaða ástæður voru til þess að annar síldarmatsmaðurinn fékk svona miklu meira, því að vafalaust hefir það ekki ráðið, að sá sem meira fékk er systursonur ráðherra.

Þá vildi eg minnast fáum orðum á Gullfoss. Í fjáraukalögunum 1908—09 6. gr. eru veittar 300 kr. til þess að leigja Gullfoss til að varna því að hann kæmist í útlendra hendur. Þessi sama fjárupphæð var enn veitt á fjárlögunum 1910—11, 16.gr. 32, og í fjárlagafrumvarpinu 1912—13, 16. gr. 29, sem nú hefir verið lagt fyrir þingið, er enn farið fram á hið sama. En nú heyri eg sagt að hæstv. ráðherra hafi framkvæmt þennan vilja þingsins þannig, að hann hafi selt útlendingi leiguréttinn. Sé þetta satt, hefir ráðh. lítils virt vilja alþingis og um leið brotið lög, er hann sjálfur átti þátt í að setja; annars má í þessu sambandi geta þess, að illa hefir verið farið með fleiri fossa. T. d. er sagt, að einn foss, einn af stærstu fossum landsins, Dettifoss, hafi verið leigður útlendingum fyrir 14 kr. um árið. Sá foss mun vera almenningseign, og væri ilt ef satt væri. Veit ráðherra til þessa?

Eg kem þá að seinasta málinu, sem eg ætlaði að gera að umtalsefni í dag, og mikið hefir verið talað um, en það er leigan á silfurbergsnámunum í Helgustaðafjalli. Þær voru áður leigðar Thor E. Tulinius til 5 ára gegn 50% afgjaldi að frádregnum 3% sem flutningskostnaði, geymslukostnaði, vátryggingargjaldi og sölulaunum, en nú hefir hæstv. ráðherra leigt þær Guðmundi Jakobssyni o. fl. til 10 ára, fyrir 55%. Samningurinn er gerður 27. Júní 1910, og í orði kveðnu við Guðmund einan, en í almæli er hér í bæ að einn háttv. ónefndur þingmaður og annar sonur ráðherra hafi staðið að baki Guðm. Jak. og átt jafnan hlut að máli sem hann. En það var ekki nóg með það, að G. J. og fél. væri leigð náman, enda ekki svo mjög út á það að setja, heldur lánaðist leigjendunum að útvega samþykki ráðherra til að þeir seldu útlendu félagi rétt þeirra samkvæmt samningnum fyrir 50,000 kr., án þess að landsjóður fengi 1 eyris landshlut af þessum mikla hval. Þessa gjöf geta menn sér til að hæstv, ráðh. mundi ekki hafa gefið vandalausum mönnum. Og því hafa margir spurt, ou est le fils“ — hvar er sonurinn, eins og Frakkar eru vanir að spyrja: „ou est la femme“ — hvar er konan ? — þegar þeir botna ekki í einhverju. Enda er ekki alveg ástæðulaust að spyrja hér eftir syninum, því að maður veit að G. J. og hinn ónefndí þm. höfðu verið í félagi með ráðherrasyninum um „öll þau réttindi, sem hver einn af oss kann að öðlast með samningun við landstjórnina eða Alþingi til silfurbergsnámareksturs . . .“ Og enn veit maður að ráðherrasonurinn hefir fengið álitlega upphæð hjá opinberu leigjendunum fyrir afskifti hans af þessu svonefnda silfurbergsmáli.

Þessi ráðstöfun er mjög varhugaverð og jafnvel óforsvaranleg. Silfurbergið er hlutur, sem hvergi er til nema hér, fullkomið unicum — eintæki — fyrir Ísland. Góður búmaður mundi hafa gert sér mat úr því tækifæri, sem hér lá fyrir. Landsjóður hefði helzt ekki átt að leigja námurnar, heldur reka þær sjálfur og kaupa þær námur, er í annari eign kunna að vera. Menn geta sem sé ekki vel komist af án silfurbergs. Það er haft til sykurgerðar og notað til optiskra verkfæra. En úr því að framsala var leyfð, þá átti vitanlega að taka bróðurpartinn landsjóði til handa af þeirri miklu upphæð, sem leigjendurnir tóku hér á alveg þurru landi. Hv. ráðherra hefði getað gert námu þessa að ótæmandi mjólkurkú fyrir landið. Hann gerði hana líka að mjólkurkú, að mjólkurkú — fyrir 2 samflokksmenn sína og — son sinn.

Mér var sagt í gær, að á Þýzkalandi væri nú gefið 500 kr. fyrir pund af silfurbergi og það mætti jafnvel koma verðinu upp í þúsund krónur, með því að passa að láta ekki nema lítið út af því í einu, því að sykurgerðarmenn og sjóntækjasmiðir geta ekki án þess verið. En með framsali leigusanmingsins hefir landið verið svift færi um að njóta óþrjótandi auðsuppsprettu um langan tíma og vona eg að menn játi, að hæstv. ráðherra hafi hér gert verk, sem ekki orkar tvímælis um, að sé óforsvaranlegti í alla staði.

Eg hefi talað lengi, enda er eg nú nærri búinn. Eg vona að flestir háttv. meirihlutamenn játi því, að öll mál þessi, eða fleiri eða færri af þeim að minsta kosti, séu þess verð, að þau séu rannsökuð. Hér er ekki verið að fara fram á að háttv. deild kveði upp dóm í málum þessum og því síður að hún láti framkvæma dóminn þegar í stað, að fordæmi hv. ráðherra í bankamálinu. Hér er að eins farið þess á leit, að háttv. deild leyfi að rannsaka hið svokallaða bankamál og aðrar athugaverðar gerðir stjórnarinnar. Nefndin ræður því eftir orðalagi tillögunnar, hvort hún tekur fleiri mál en Landsbankamálið til rannsóknar, og taki hún fleiri mál, þá hver. Þau dæmi, sem eg hefi hér nefnt, varða að vísu við lög, 13. kafla hegningarlaganna eða ráðherraábyrgðarlögin. Silfurbergsmálið mundi t. d. heyra undir 4. gr. ráðherraábyrgðarlaganna, hin svokölluðu konduite brot, eða brot á móti góðri ráðsmensku. En þó að hér muni vera um vítaverð brot að ræða, þá er enganveginn þar með sagt að þau verði öll rannsökuð. Nefndin ræður, hvaða mál hún tekur fyrir auk bankamálsins, og hún á ekkert úrskurðarvald um þau, hún gerir tillögur um þau, en háttv. deild eða sam. þing ræður því, hvað úr tillögum skuli verða. Eg vona því, að háttv. deildarmenn hafi ekkert á móti skipun nefndarinnar og eg er því öruggari um það, þar sem mér er kunnugt, að á fyrsta kjósendafundinum, sem haldinn var hér í Reykjavík og þessi tillaga var fyrst borin upp á, voru staddir 5 meirihluta þingmenn og mælti þá enginn þeirra á móti henni. Einn þeirra situr hér andspænis mér.

(Ari Jónsson: Eg var þar ekki).

Neitar þingmaðurinn því, að hann hafi verið á fundinum?

(Ari Jónsson: Eg var farinn þegar tillagan var borin upp).

Þingmaðurinn var viðstaddur lengi fundarins, það mundi eg. Eg heyrði hann tala, en hinsvegar játa eg, að hann er ekki sá maður, að strax verði vart við autt sæti eftir hann á mannfundum eða annarstaðar. En þar er eg sé, að háttv. sami þingmaður er fremstur flutningsmaður að annari tillögu, sem fram er komin hér í deildinni, vantraustsyfirlýsingu gegn ráðherra, þá býst eg við, að hann fylgi líka minni tillögu.

(Ari Jónsson: Eg svara seinna).

Um breytingartillögur þær, sem fram eru komnar, get eg verið stuttorður. Þær eru eðlilega fram komnar af hlífð við ráðherra, búist við að nefndin renni honum og flokknum betur niður, ef rannsóknin er fyrst og fremst bundin við bankamálið og ekki einskorðuð við gerðir landstjórnarinnar í bankamálinu, altsvo ekki ólíkar pillum í gyltum umbúðum. En auk þess mun nokkuru valda gamall beygur við Ísafold vegna væntanlegra kosninga, en þann ótta ættu hv. meirihl.menn að spara sér, því að Ísaf. hefir ekki sömu áhrif hér eftir og hingað til, enda mun hún tæplega gleyma þeim herrum, þann grikk, sem þeir eru nú að gera húsbónda hennar og herra hér á þingi.

Eg býst við að nefndin verði að sjálfsögðu kosin með hlutfallskosningu, enda hefi eg afhent forseta lista í því skyni.