22.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1259 í B-deild Alþingistíðinda. (1531)

78. mál, Dalahérað

Flutningsm. (Bjarni Jónsson):

Mér fanst það sjálfsagt, að frumv. þetta kæmi hér til umræðu. Þótt nefndin mælti ekki beinlínis með því, að það yrði tekið hér upp, hafði hún samt góð orð um það, svo að eg hefi fulla ástæðu til þess að vona, að það verði samþykt. Í skjótum orðum sagt, þá eru engin þau embætti hér á landi, sem meiri ástæða er til þess að fjölgað verði en læknisembættin. Til samanburðar get eg sagt það, að það er nokkuð undarlegt, að margfalt fleiri menn eru settir til þess að gæta sálarsjúkdómanna, prestarnir, en til þess að gæta heilsunnar. Sálarsjúkdómana, sem prestarnir eiga að lækna, ber sjaldnast svo bráðan að, að sjúklingamir fari strax til neðri staðarins, þótt ekki náist til hirðisins á dagsfresti, en ef læknir verður ekki sóttur strax og bráðan sjúkdóm ber að, getur það kostað mannslíf. Eg held að það ætti að hafa höfðaskifti á fjölda þessara embættismanna. Eg tek þennan samanburð að eins til þess að sýna fram á það, að það er engin heimska, þegar verið er að tala um að fjölga læknum. Ókunnugum mönnum get eg sagt það, að þessi sýsluhluti, sem hér er farið fram á, að verði gerður að sérstöku læknishéraði, liggur fyrir norðan fjallgarðinn milli Hvammsfjarðar og Gilsfjarðar og verður að sækja lækni að Búðardal. Frá Búðardal og út að Klofningi er stíf dagleið á sumrum, en tvær dagleiðir á vetrum. Auk þess er á þeirri leið slæmar ár yfir að fara, svo sem Kjarlaksstaðaá, sem þingið vildi ekki veita fé til að yrði brúuð. Í þeirri á hafa druknað 19 menn og sagt að vanti að eins þann 20. Eins er leiðin innan úr Saurbænum og innanverðri Skarðströnd mjög torsótt. Hún liggur yfir Sælingsdalsheiði eða Svínadal og gegnum fannkistuna, sem er í Mjósundum á vetrum og er svo sagt, að hinn núverandi læknir hafi fengið sig fullsaddan á því ferðalagi. Þegar færðin er vond að vetrarlagi verður leiðin yfir Sælingsdalsheiði og Kamba hjá Hvammi einnig illsótt. Auk þess liggja fyrir landi nokkrar eyjar, svo sem Akureyjar, Rauðseyjar og Rúgeyjar, sem raunar heyra til Flateyjar, en Akureyjar heyra þó undir Dalahérað. Þær eyjar liggja viku sjávar undan landi og þegar læknirinn er í Suðurdölum, þá er lítil von um hjálp í Akureyjum. Eg get tekið hér til samanburðar nýtt læknishérað í Hnappadalssýslu. Örðugleikarnir þar munu vera líkir og í Dölunum. Eg skal engan mun á þeim héruðum gera, en þegar deildin vill stofna læknishérað þar ætti hún engu síður að vera þessu héraði hlynt. Sýslubúum er það mikið áhugamál að fá lækni á þessum stað. Nú mun altaf sóttur þangað Oddur Jónsson í Miðhúsum á Reykjanesi, því að það þykir betri leið en til Búðardals. Þetta eru þó 4—5 vikur sjávar yfir að fara, sjórinn hættulegur og skerjóttur og þegar ísalög eru á vetrum er ómögulegt að ná í lækni þar, enda er það í öðru héraði og ekki skyldur að sinna Dalamönnum. Eg held svo, að eg þurfi ekki að fjölyrða meira um þetta. Vona að menn sjái nauðsynina á lækni þarna og samþykki frumvarpið.