23.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1261 í B-deild Alþingistíðinda. (1533)

78. mál, Dalahérað

Flutningsm. (Bjarni Jónsson):

Mér er það ekki fullkomlega ljóst, á hvaða grundvallarreglu nefndin byggir það, að vilja heldur bæta við tveim læknishéruðum en þrem, þegar hún viðurkennir að mikil nauðsyn sé á því læknishéraði, sem eg fer fram á að stofnað verði. Kostnaðaraukinn er ekki svo mikill, að þau mannslíf, sem frelsuðust, mundu ekki gera margfalt meira en borga hann. Líka er þess að gæta, hve mikið mundi sparast við allan þann ferðakostnað, sem fer í það að sækja lækni langa leið, og eg lít nú einu sinni svo á, að landssjóður sé ekki nein sérstök persóna, sem eigi að hugsa um það eitt, að safna saman eins miklu fé og hægt er, heldur á hann að bæta hag landsmanna — þeir eiga heimting á því, því að hann er þeirra eign. (Jón Jónsson, S.-Múl.: Engir læknar til). Fáist enginn læknir í héraðið, verður auðvitað að sætta sig við það, en eg verð fyrst að sjá að það sé rétt. Eg hefi raunar ekkert yfirlit hjá mér nú, en ef menn vilja leyfa málinu að ganga til næstu umræðu, þá skal eg vera svo undirbúinn, að eg geti hrakið þessa mótbáru. Eg er þess fullviss, að nægilegur fjöldi sé af læknum, sem nú stunda nám hér og erlendis og ljúka prófi í vor, til þess að fylla þau læknishéruð, sem nú verða stofnuð. En eftir venjunni að dæma, hafa menn ekki skirst við að stofna ný héruð og metið þessa mótbáru lítils. Einu sinni voru á sama þinginu stofnuð 6 eða 7 héruð, sem fyltust strax, eða smámsaman, og það er hægra fyrir héruð, sem eru til, að fá lækna, en fyrir lækna að fá héruð, sem ekki eru til. Eg skil ekki í því, að nefndin þurfi að vera á móti stofnun þessa héraðs, þótt hún hafi ekki mælt með fleirum en tveim héruðum. Þegar nú öll ábyrgðin er tekin af hennar herðum og flutt yfir á mig, þá vona eg, að hún geti greitt þessu máli atkvæði sitt.