07.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1278 í B-deild Alþingistíðinda. (1546)

46. mál, lækningaleyfi

Eggert Pálsson:

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) lagði fyrir mig þá spurningu, hvort eg þekki nokkurt land, þar sem skottulækningar væru leyfðar. Eg veit, að háttv. þm. er fróðari um löggjöf annara landa en eg og þykir mér því óþarft af honum að beina slíkri spurningu til mín. Enda er það ekki mergurinn málsins hér, hvort skottulækningar séu lögleyfðar í öðrum löndum, heldur hvort þær séu lögbannaðar. Því hér er að ræða um lögbann en ekki lögleyfi í frumv. þessu. Spurning þingmannsins hefir á sér málfærslusnið og til þess framsett, að eg kunni ekki að gera mun á því sem leyft er með lögum og því sem liðið er án þess bann sé við lagt. En að skottulækningar séu ekki bannaðar í öðrum löndum, sést meðal annars á því, sem háttv. þingmaður sjálfur sagði, að í öðrum löndum væri fé svo miljónum kr. skifti rakað saman með þeim hætti. Slíkt gæti vitanlega ekki átt sér stað, ef þær væru bannaðar með lögum. En hér er um það að tala, hvort hér eigi að líða skottulækningar eða banna. Eftir því, sem hagar til hér á landi, held eg því fram, að ekki sé gerlegt að banna hér skottulækningar, því síður sem þær njóta trausts og álits hjá almenningi. En væri hér um skaðlega hjátrú að ræða þá átel eg samt að fara þá leið að banna slíkar lækningar með valdboði, hin leiðin að fræða fólkið mundi þá miklu tiltækilegri. Ef slíkt valdboð kemur án vilja almennings, leiðir það að eins til þess að menn taka upp á að fara í kringum lögin, til þess væru menn neyddir og er þá ver farið en heima setið. Eg endurtek það: Ef hér er um hjátrú fólksins að ræða og ekki annað, tel eg réttara að veita fé, t. d. háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) til að útrýma hjátrúnni og veita mönnum hina hollu fræðslu, er geti gert menn bæði heilsubetri og langlífari.