27.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í B-deild Alþingistíðinda. (155)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Ari Jónsson:

Eg ætla að leyfa mér að minnast nokkurum orðum á 2 breytingartillögur, sem eg hefi komið fram með við þennan kafla fjárlaganna.

Fyrri breytingartillagan er á þingskjali 770; þar er farið fram á, að veittar séu til viðgerðar og framhalds þjóðveginum úr Hrútafjarðarbotni í Gilsfjarðarbotn 3 þúsund krónur hvort árið. Á fjárlögunum nú er ekkert veitt til þessa vegar, en á undanförnum fjárlögum hefir verið veitt fé til hans. Það er mjög óheppilegt og hreint og beint óhæfilegt að kippa svo að sér hendinni alt í einu og taka þvert fyrir vegagerð, sem búið er að veita fé til áður, og viðurkent er að brýn þörf sé á framhaldi.

Það er og mjög í ósamræmi við undanfarandi þing, einkum hið síðasta. Þá var tillag veitt til þessa vegar að eins annað árið, 3 þús. kr. með þeim ummælum að næsta þing mundi að sjálfsögðu veita ríflegra styrk, og var það tekið skýrt fram í umræðunum þá.

Það mun kunnugt þingdeildarmönnum, að mikil þörf og nauðsyn er á vegagerð þessari. Það er mikil umferð um þennan veg og hann er póstvegur. Héraðsbúum er það mikið áhugamál, að fé verði veitt úr landsjóði til hans. Eg leyfi mér nú að fara fram á, að veittar verði 3 þús. kr. til þessa vegar hvort árið og treysti háttv. deild til að samþykkja þessa tillögu, og vona að hún vilji að þingið sé í samræmi við fyrirfarandi þing. Ef þessi tillaga verður ekki samþykt, mun eg bera upp aðra tillögu um þetta efni við 3. umræðu.

Þá á eg hér aðra breytingartillögu á þgsk. 771; þar er farið fram á það, að Magnúsi Péturssyni, héraðslækni í Hólmavík, séu greiddar 700 kr. hvort árið fyrir að ferðast 4 sinnum á ári um Reykjarfjarðarlæknishérað og dvelja þar nokkra daga í hvert skifti til að veita mönnum þar læknishjálp. Það er tekið fram, að þessi launaviðbót falli niður, þegar héraðið verður veitt einhverjum, er um það hefir sótt. Eins og háttv. þingdeildarmenn muna, var hérað þetta stofnað á seinasta þingi, en það hefir farið um það eins og sum önnur héruð, að engir hafa fengist til að sækja um það. Aðalástæðan til stofnunar þessa héraðs var fjarlægðin frá lækni, hve langt norðurhluti Strandasýslu átti að sækja til læknis. Reykvíkingum mundi þykja hart að þurfa að sækja lækni norður í Húnavatnssýslu; en jafnlangt þyrftu ibúar nyrzta hluta Árneshrepps að sækja lækni sinn landveg, ef hann væri staddur syðst í læknishéraði sínu, Hólmavíkurhéraði, þegar þyrfti að ná í hann. En þetta var ekki eina ástæðan. Héraðið (Árneshreppur sérstaklega), er nálega afgirt á vetrum. Því annaðtveggja er að fara, yfir heiðar, sem oft eru nálega ófærar, eða sjóveg fyrir Bala, sem er hættuferð á vetrum, nema í bezta veðri.

Það er því oft ómögulegt fyrir íbúa Árneshrepps að ná í lækni á vetrum sunnan úr sýslunni. Þar að auki er það svo kostnaðarsamt, þótt það sé hægt, að vart geta aðrir en efnuðustu mennirnir kostað ferð eftir lækni. Það mælti ennfremur mikið með stofnun þessa héraðs, að líkur eru talsverðar til aukinnar atvinnu í Reykjarfirði, svipað og á Siglufirði (síldarveiði). Og ef þess konar atvinna skyldi byrja þar, mundi fólk þyrpast þangað skyndilega.

Þessar ástæður, er eg hefi tekið fram, og tekið var tillit til við stofnun Reykjarfjarðarlæknishéraðs á síðasta þingi, styðja nú sterklega að því, að sjá héraðinu fyrir einhverri læknishjálp. Því að vera án læknishjálpar, eins og það nálega er nú á vetrum, er óviðunanlegt fyrir héraðið, þar til einhver gerist til þess að sækja um það.

Héraðsbúar hafa átt fund með sér til að ræða þetta nauðsynjamál. Og hefi eg hér símskeyti í höndum mér, sem skýrir frá því, að þeir fari fram á, að þessi styrkur sé veittur til læknishjálpar og að þeir óski þess, að hann sé bundinn við þennan lækni. Líka hefi eg fengið bréf frá lækninum á Hólmavík, þar sem hann skýrir mér frá óskum héraðsbúa um styrk til læknishjálpar, og ástæðunum fyrir styrkbeiðninni, sem fara í sömu átt og eg hefi skýrt frá. Sem dæmi um örðugleika þá, sem eru fyrir lækninn í Hólmavíkurhéraði að gegna læknisstörfum í Reykjarfjarðarhéraði, getur Magnús læknir Pétursson um það í nefndu bréfi, að hann um Jonsmessuleytið í fyrra hafi í kafófærð orðið að vaða snjóinn yfir 20 klukkutíma samfleytt yfir heiðarnar.

Það er fjarri því, að styrkur sá, er farið er fram á hér, sé of hár, þar sem ætlast er til, að læknirinn fari fjórar ferðir á ári um héraðið. Styrkurinn er ekki helmingur af læknislaunum Reykjarfjarðarlæknishéraðs og er þó sú venja, að héraðslæknar, þegar þeir þjóna öðru héraði líka, fái hálf laun læknishéraðs þess, án þess þó að takast á hendur sérstaka ferðaskyldu.

Eg treysti því að háttvirt deild taki þessa styrkbeiðni til greina, enda mælir svo mikil sanngirni með því, að vart nokkurt hérað hér á landi hefir meiri ástæðu til að fara fram á styrkbeiðni til læknishjálpar.