26.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1281 í B-deild Alþingistíðinda. (1553)

46. mál, lækningaleyfi

Eggert Pálsson:

Eg veit ekki, hvernig eg á að taka það hjá háttv. framsögum. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) hvort hann er heldur með eða móti þessu frv. en vona þó að hann sem greindar- og skýrleiksmaður og réttsýnn sé þó því fremur móthverfur en meðmæltur í hjarta sínu. Eg skal játa það, að það er bót á frumv., að það undanskilur smáskamtalækna í 1. gr. En aftur á móti er það ákvæði jafnhliða skemt með ákvæðinu í 4. gr., þar sem landlækni er gefið vald til þess að áminna og jafnvel taka leyfið af smáskamtalækninum, ef hann gerir sig sekan í óhæfu að dómi hans eða héraðslæknis og á þeim dómi mun sjaldnast standa, þótt tilefnið kunni að vera lítið. Það liggur svo sem í augum uppi, því ef nokkuð má dæma af því, hvernig læknar hingað til hafa komið fram gegn smáskamtalæknum, þá má búast við því, að þeir muni ekki hika sér við að hindra þá frá læknisstörfum með þessu ákvæði.

Það er opinbert mál, að hin svokallaða lærða læknastétt er andvíg smáskamtalæknum bæði hér og annarsstaðar og virðist það ekki ólíklega til getið, að þar liggi einhver snefill af atvinnukepni á bak við. Reynslan hefir sýnt það, að þeir smáskamtalæknar, sem reynst hafa bezt, hafa orðið fyrir mestum ofsóknum, en hinir aftur á móti fengið að sigla sinn eigin sjó, sem lítilli tiltrú hafa náð. Og af hverju? Af því að þeir spilla svo lítið »praxis« hinna lærðu.

Háttv. 1. þm. N.-Múl. (J. J.) taldi ótækt að leyfa öðrum en lærðum læknum að stunda lækningar. En nú veit hann, sá góði maður, að það hagar oft svo til, að ómögulegt er að leita þeirra. Hvað á þá að gera? Er það þá sanngjarnt að gera mönnum ómögulegt að leita sér hjálpar annarsstaðar, ef hana skyldi vera að fá? Því er og svo varið, að þótt hinir lærðu læknar séu til, þá eru þeir oft í svo litlu áliti, að fólk vill ekki leita þeirra. Og verði því þetta frumv. að lögum og þeim lögum beitt eins og tilgangurinn mun vera, þá er því fólki, sem þannig er ástatt fyrir gert að skyldu að deyja drotni sínum, þótt hjálp gæti verið að fá svo að segja á næstu grösum.

Eg mun greiða atkvæði með breytingartillögunni við 1. gr., því að hún er þó heldur til bóta, ef frumv. verður samþykt. En á hinn bóginn bætir hún þó ekki svo mikið úr — sérstaklega vegna ákvæðisins í 4. gr. — að eg geti aðhylst frumv. og mun eg því greiða atkvæði móti því í heildinni.