26.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1284 í B-deild Alþingistíðinda. (1556)

46. mál, lækningaleyfi

Bjarni Jónsson:

Eg hjó eftir því í ræðu háttv. 1. þm. Rang. (E. P.), að hann sagði, að það væri atvinnukepni, sem ylli því, að lærðir læknar litu hornauga til skottulækna. Þetta er ekki annað en brigsl. Læknastéttin er bezta lærðra manna stéttin í landinu, og skal eg fyrir hönd þeirrar stéttar mótmæla þeim orðum. Eg skal ekki segja neitt um þessi dæmi, en ekki get eg orðið sannfærður af því, þótt tveir skottulæknar segi að konan hafi taugaveiklun. Aðaláherzlu ber að leggja á það, að þessir menn stuðli ekki að því, að næmir sjúkdómar breiðist út. Hugsum okkur að smáskamtalæknir næði í mann veikan af svarta dauða, og héldi að hann þyrfti ekki annað en að drekka eitthvað úr A-B-C-glasi. Hvernig mundi fara? Þessi lög eru sett til þess að koma öllum lækningum undir umsjón landlæknis. Menn þyrftu að læra að þekkja mannlegan líkama, áður en þeir fara að lækna menn. Þetta er ekkert að ráðast á ólærða lækna. Þeir geta farið til landlæknis, og ef þeir hafa næga þekkingu, þá geta þeir fengið leyfi hans og ráðherra til að stunda lækningar. Önnur eins breyttill. og þessi, ætti heldur að koma fram á annari samkomu en alþingi. Það er hreinasta »ignorantia crassa«, og legg eg til að hún verði feld.