27.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1286 í B-deild Alþingistíðinda. (1558)

46. mál, lækningaleyfi

Framsögum. (Jón Þorkelsson):

Það er syndastraff, sem á mig hefir verið lagt, að eg skuli vera framsögumaður þessa máls. Það er ekki svo, að eg beri ekki alla tilhlýðilega virðingu fyrir hinum lærðu læknum, en eg met skottulæknana engu að síður nokkurs virði. Það hafa komið hér fram um þá harðir dómar bæði fyr og nú, og það frá þeim, sem sízt skyldi, t. d. hv. 1. þm. N.-Múl. (J. J.), því að eg veit ekki betur en að hann sé bæði skottulæknir, smáskamtalæknir og jafnvel geldingamaður. Hv. 1. þm. Rang. (E. P.) tók það réttilega fram, að þessir ólærðu læknar hefðu mjög oft reynst almenningi vel og eg get tekið undir það með honum; þótt eg sjálfur sé maður ekki kvellisjúkur og hafi ekki meiri trú á læknum en guði mínum, þá hefir mér þó einusinni batnað svo mig dró um, að eg ætla, fyrir tilstyrk eins smáskamtalæknis eða skottulæknis. Það hefir mikið verið talað yfirhöfuð um lærdóm og reynslu og gert gys að trú manna á læknum og andlegum lækningum. Þetta er ekki nærgætið, að minni hyggju, því að án efa er mikið undir því komið, að sjúklingurinn beri gott traust til læknis síns, og það getur haft stórmikil áhrif, að gott sé lesið yfir honum, hann huggaður o. s. frv.

Hv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) sagði, að dæmi væru til þess, að smáskamtalæknar hafi drepið sjúklinga sína í meðferðinni. Þetta kann mikið satt að vera, en það eru líka dæmi til þess, að hinir lærðu stórskamtalæknar hafa drepið menn, og það í stærri stýl en menn vita. Þeir hafa líka gert margan manninn að örkumlamanni, og það er nærri því verra en þó þeir hefðu hreinlega drepið hann. Það er gömul saga um manninn, sem var blindur á öðru auga og fór til læknis með það. Læknirinn tók skurðarhnífinn sinn og fór í betra augað. Þegar verkinu var lokið og maðurinn leit upp og var spurður, hvernig hann sæi nú, þá var hann steinblindur á báðum augum. »Á, var það skárri glyrnan, sem eg tók, garmurinn minn?« sagði læknirinn.

Það er líka alkunnug saga um merkan mann, sem er nýlega dáinn, að hann var spurður, hver af tveim stórskamtalæknum þar í héraðinu mundi betri vera. Hann svaraði því svo, að annar þeirra, sem hann nefndi, mundi í við ómannskæðari en hinn.

Annars held eg að bezt sé að tala sem fæst um læknana. Þar er margt undir heppninni komið. Vitið er auðvitað gott, en það er þó ekki einhlítt. Það er svo margt, sem hér kemur til greina. Þótt eg í flestu sé sammála háttv. 1. þm. Rang. (E. P.), þá er eg honum ekki samdóma um það, að smáskamtalæknunum beri að sleppa eftirlitslausum út í mannfólkið. Þeir eiga eins og aðrir læknar að vera háðir eftirliti landlæknis, og ef þeir gera sig seka í miklum skemdum og skaðræði, þá á að svifta þá lækningaleyfinu.

Þá kemur og enn eitt til mála, að læknar þykja orðnir svo óhæfilega dýrir, að það er ógerningur að sækja þá, og ef því heldur áfram að fara fram, þá virðast þeir vera á góðum vegi með að verða heldur óþægileg landplága. Það er og alt af verið að fjölga læknum og læknishéruðum og ágerist það mjög, þótt alt af sé hins vegar verið að æpa um það, að ekki megi fjölga embættismönnum. En alt um þetta er það enn víða svo í strjálbygðum héruðum, að ómögulegt er að ná til læknis. Mér sýnist því, að þeir, sem mannfólkinu vilja vel, ættu að vera nefndinni þakklátir fyrir tillögur sínar, að leyfa smáskamtalæknum að fást við að hjálpa sjúkum mönnum, þar sem ekki næst í aðra lækna.

Eg tók það fram áðan, að í raun og veru væri í lækningunum það oft allmikið trúarsetning, hvort mönnum batnaði ekki. Það er hver sæll fyrir sína trú, og eg get ekki séð, að það sé neitt betra, þó menn deyi lögum samkvæmt, heldur en þeir haldi heilsu ólögmælt eða jafnvel deyi drotni sínum samkvæmt engum lagafyrirmælum. En reynslan hefir sýnt það, að afskifti ólærðra manna í lækningum hafa oft verið heppileg, manna, sem af guði hafa þegið náttúrufar og nærfærni í þessu efni. Þeir hafa oft bjargað sjúklingum í þeim tilfellum, þar sem riðið hefir á lífi þeirra. Í sambandi við þetta skal eg taka það fram, að það er eins með lækna og aðra menn, að margir kenna þau fræði, sem alls ekki eiga að fást við það. Ef þeir eru heimskir, ónáttúraðir eða ólægnir, þá er sama hvað miklu í þá er troðið, þeir verða alt af hálfgerðir ónytjungar, eins og stendur í vísunni:

Kálfur sigldi, kom út naut,

kusi lifði’ og dó hann.

Það er betra að leita til manna, sem náttúraðir eru fyrir lækningar, en til þeirra, sem vantar náttúrufarið, þó að þeir hafi gutlað eitthvað við lærdóm utangarnar. Bæði eg og fleiri höfum tekið eftir því með smiði, sem að eðlisfari eru klaufar, að þeir verða það alt af, hvað mikið sem þeir læra.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) sagði margt, sem eg hefði eiginlega þurft að svara, ef hann væri ekki hér, eins og hugsjónamönnum er lagið nokkuð langt fyrir ofan efnið, og okkur, sem höldum okkur við jörðina. Eg get þó í þessu sambandi mint á það, að þessi hv. þm. sótti á seinasta þingi um heiðurslaun til handa geldingamanni vestur í Dölum, sem hvergi hafði lært geldingar, nema hjá sjálfum sér. Því heimtum við ekki eins lærða dýralækna til þessa starfa eins og mannalæknarnir verða að vera sprenglærðir af háskóla eða læknaskóla. Mér finst það hljóti að vera óforsvaranlegt að gera það ekki frá sjónarmiði háttv. þm. Dal. (B. J.). En þessa umsókn, er nú nefndi eg, verð eg annars að skoða sem viðurkenningu frá háttv. þm. þess, að margir ólærðir læknar geti verið mikils verðir og ekki sé rétt að slá stryki yfir öll þeirra verk.

Framar finn eg ekki sérstaka ástæðu til þess að svara miklu meira af því, sem fram er komið í þessu máli. Það er þess eðlis, að það getur ekki hrakið reynslu fjölda manna.

Að lokum skal eg kannast við það, að mér hefir verið svo sagt, flutt og fortalið, að ýmsir ólærðir læknar hafi verið svo óprúttnir að lækna menn með skinnalit, beinbrot með inntökum o. s. frv., en eg hefi þó ekki sannreynd fyrir því. Hitt veit eg, að margir ólærðir læknar hafa hjálpað mörgum manninum, og meira að segja yfirsetukonur. Eg hefi sjálfur verið sjónarvottur að því, að yfirsetukona hefir verið sótt til veiks karlmanns.