28.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1294 í B-deild Alþingistíðinda. (1563)

46. mál, lækningaleyfi

Jón Jónsson (1. þm. N.-Múl.):

Það hefir verið svo mikið rætt um mál þetta við 2. umr. þess, að ekki er ástæða til að fjölyrða um það nú. Það hefir ennfremur verið mikið rætt um, að ekki væri þörf á smáskamtalæknum, og hefi eg því komið fram með þessa breytingartillögu. Það er nú orðið svo margt af embættislæknum hér á landi, að eigi er þörf á að nota lækningar þeirra manna, er bera lítt skyn á þessi störf. Sumir háttv. þm. hafa verið að láta í ljósi brjóstgæði til þessara smáskamtalækna, en þingið getur hvorki né á að taka tillit til slíks. Það virðist vera nægilegt að menn, sem ekki hafa tekið próf, fái leyfi hjá stjórnarráðinu til þess að stunda lækningar. Það eru víst ýmsir háttv. þm., eins og t. d. h. 1. þm. Rvk (J. Þ.) á annari skoðun um þetta. Hann og aðrir mega halda skottuprédikanir fyrir mér um þetta mál. En eg skeyti lítt um slíkt. Og mun eg eigi að síður halda því fram, er eg álít rétt.