28.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1296 í B-deild Alþingistíðinda. (1568)

46. mál, lækningaleyfi

Eggert Pálsson:

Þetta mál hefir verið rætt svo mikið, að eg hygg að það breyti ekki mikið skoðun manna, þótt það sé rætt ennþá frekar, þar eð flestir munu hafa myndað sér algert fasta skoðun á því. En mig furðar á þeim breytingartillögum, sem fram hafa komið nú við þessa umr. Það er engu líkara en að háttv. flutnm. þeirra 1. þm. N.-Múl. (J. J.) sé að prófa, hversu þingdeildarmenn séu fljótir að snúast í atkvæðagreiðslu sinni. Honum var, ef mig minnir rétt, brugðið um það hér fyrir skömmu, að í atkvæðagreiðslu um háskólamálið hefði hann ekki verið með öllu sjálfum sér samkvæmur. Og það lítur út fyrir, að hann sé með þessum breytingartillögum sínum að grenslast eftir, hvort okkur hinum muni ekki vera líkt farið. Eg veit ekki, hvort sú tilgáta mín muni vera rétt, að hér sé verið að gera »experiment« á okkur. En það er ekki liðinn langur tími síðan að þessi ákvæði voru samþykt hér í deildinni, sem h. þm. (J. J.) hefir farið fram á að yrðu feld burt. Mér fyrir mitt leyti virðist þetta ganga því næst að gera gabb að deildinni. Eg skal ekkert um það fullyrða, hvort flutningsm. tekst að fá það nú felt í burtu úr frv., sem við seinustu umr. var samþykt að bæta inn í það. Reynslan mun skera úr því og það hefir — eins og eg sagði — enga þýðingu að ræða málið meira en gert hefir verið. Það hafa verið færð fullgild rök fyrir því, að þessir menn, sem ekki hafa tekið neitt opinbert læknispróf eru opt eins góðir og þarfir læknar eins og hinir, sem próf hafa tekið og taka þeim oft og einatt fram, því hér á það heima, sem máltækið segir: »Náttúran er náminu ríkari«. Enda sýnir það sig, að fólkið ber eins mikið traust til þeirra oft og tíðum. Það hefir marg oft sýnt sig, að þessir próflausu menn hafa hjálpað, þegar hinir hafa verið frá gengnir. Og hvers vegna skyldi eiga að meina þeim að bjarga sjúklingum, sem hinir svo kölluðu lærðu læknar geta enga björg veitt, eins og stefnt er að með frumv. þessu, sérstaklega ef breyt.till. háttv. 1. þm. N.-Múl. (J. J.) verður samþykt? Slíkt er með öllu ranglátt. Það er ekki sæmandi fyrir þingið að banna þessum mönnum að fást við lækningar, þegar sjúkir menn vilja fremur leita til þeirra og hafa meiri trú á þeim en hinum svonefndu lærðu læknum, því það stendur í raun og veru á sama, hvort sjúklingnum batnar fyrir trú sína eða annað. Aðalatriðið er, að hann fái bót meina sinna með hverju móti sem hún er fengin. En það liggur nokkurn veginn í hlutarins eðli að því að eins getur læknir — hvort sem hann heitir skottulæknir eða öðru veglegra nafni viðhaldið trúnni á sér, að ráð hans og leiðbeiningar reynist að jafnaði góðar.