28.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1298 í B-deild Alþingistíðinda. (1569)

46. mál, lækningaleyfi

Björn Kristjánsson:

Eg var ekki viðstaddur, þegar 2. umr. þessa máls fór fram, en eg sé, að tillaga nefndarinnar hefir verið samþykt óbreytt. Þessvegna furðar mig á því, eins og háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) að breyt.till. skuli nú vera komin fram, um að fella það burtu, sem samþykt var hér við 2. umr. Mér fanst eg færa allskýr rök fyrir því við 1. umr., að það væri óheppilegt, ef þingið nú, eftir margra ára árangurslausa baráttu, færi að útiloka þessa menn, sem um mörg ár hafa fengist við lækningar. Ef þingið bannaði nú þessum mönnum að fást við lækningar framar, þá mundu þessir læknar hætta að læra og æfa sig. Eg þóttist ganga eins langt í nefndinni og mér var með nokkru móti hægt til samkomulags. Og mér finst frumv. eins og það er ganga of langt, en eg mun þó sætta mig við það. Nú hefir landlæknir eftir landlækni gengið í skrokk á smáskamtalæknunum og þó hafa þeir ekkert á unnið. Og ef þingið fer nú að hlaupa undir bagga og hjálpa landlækni til þess að útiloka smáskamtalæknana, þá er eg viss um, að þingið fengi enga þökk hjá þjóðinni fyrir það verk sitt. Það er margsannað, að það má lækna með trú. Því má ekki lofa fólkinu að læknast þannig? Það eru margir sóma- og hyggindamenn hér í þessum bæ, sem hafa fengið bót meina sinna hjá þessum mönnum.

Verði breyttill. samþyktar þá mun eg greiða atkvæði móti frumv. í heild sinni.