28.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1298 í B-deild Alþingistíðinda. (1570)

46. mál, lækningaleyfi

Bjarni Jónsson:

Þá tvo háttv. þm. sem síðast töluðu, furðaði á því, að háttv. 1. þm. N.-Múl. (J. J.) skyldi hafa gerst svo djarfur að koma með breyt.till. við þetta frumv. Eg hefi aldrei heyrt það áður, að menn mættu ekki leiðrétta galla á frumv. frá 2. umr. til 3. umr. Og þeim háttv. þm. ferst ekki að liggja öðrum á hálsi fyrir það, einkum þegar tillagan er jafn réttmæt og rökstudd og þessi tillaga er, því þessi maður er ekki einn þeirrar skoðunar, sem lýsir sér í breyt.till., heldur hefir hann þar með sér alla þá menn í landinu, sem þekkingu hafa á þessu máli, en vanþekkinguna hefir hann á móti sér og eg skil ekki, hvers vegna vanþekkingin er að skekja sig hér í þinghúsinu. En frumv. þetta bannar ekki ólærðum mönnum að hjálpa í viðlögum, heldur hitt, að gera lækningar að atvinnu sér án leyfis frá landlækni. Því hefir verið haldið fram, að þessir menn mundu ekki vilja hjálpa öðrum, þótt þeir væru í neyð, af því það væri ekki atvinna þeirra. En eg býst við, að þeim þætti ekki alþýðan syngja lof sitt í of háum tónum, ef þeir hættu að veita bjargráð, þegar nauðsyn krefði, þótt ekki væri það atvinna þeirra.

Einn háttv. þm. talaði um lækna »af guðs náð«. Þeir geta verið til bæði lærðir og ólærðir; en það eru til skottulæknar, sem eru fæddir til þess að teyma fólkið á eyrunum og geta látið það borga sér fé. Eg veit ekki af hvers náð, en náð er það. Það er óskiljanlegt, hvers vegna á að gera mismun á stórskamtaskottulæknum og smáskamtaskottulæknum úr því hvorutveggju eru ólærðir. Eg hef þekt menn, sem hafa læknað eftir lækningabókum. Það var t. d. einn maður vestur í Dalasýslu, sem hafði aflað sér lítilsháttar þekkingar í læknisfræði, bæði af bókum og með því að vera með læknum. Hann hjálpaði mönnum oft, t. d. ef menn voru veikir af lungnabólgu, því hann vissi hvernig læknar fóru með þann sjúkdóm.

Mér er það óskiljanlegt, hvers vegna á að halda a-b-c-læknunum; mig furðar stórlega á því ofurmagni þeirra eiginleika, sem þessu stýra. Af hverju fara menn til dýralæknisins, þegar hesturinn þeirra eða kýrin veikist, en ekki til þessara manna? Trúin ætti alveg eins að lækna kúna og konuna.

H. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) áleit, að það væri trúin, sem læknaði. En þeir gætu alveg eins trúað á köttinn sinn eða hestinn eins og skottulækninn. Það er ábyrgðarhluti fyrir löggjafarvaldið, að leyfa þessum mönnum, sem enga þekkingu hafa á læknisstörfum, að gera lækningar að atvinnu sinni, eða leyfa þeim að vekja tiltrú hjá mönnum á lækningum sínum og sjálfum sér. Annars hygg eg að trúin lækni alveg eins, þótt það sé héraðslæknir sem trúað er á. Þeir menn, sem fást við dáleiðslu geta skaðað og gert menn vitlausa, ef þeir kunna ekki með að fara. Og við þekkjum söguna um Christian-sciencs manninn, sem gekk út um glugga á 4. sal á húsi með bók Mrs. Eddy í hendi (Magnús Blöndahl: Heyrðum hana um daginn) til þess að sýna það, að drottinn vildi ekki láta sig deyja. Maðurinn dó af þessari byltu, því drottinn hefir þá sjálfsagt verið önnum kafinn við annað, og haft annað að gera en hjálpa þessum vesaling.