28.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1302 í B-deild Alþingistíðinda. (1573)

46. mál, lækningaleyfi

Framsögum. (Jón Þorkelsson):

Háttv. 1. þm. N.-Múl. (J. J.) vildi bera brigður á það, að landlæknir hefði verið frv. þessu samþykkur, með því hér væri smáskamtalæknum leyft að fást við lækningar. En hér hefi eg skjal, frumvarpið sjálft, og í það skrifaðar með hans eigin hendi breytingar þær, sem þingmaðurinn steytir sig á, og af því marka eg, að landlæknir sætti sig við þessi ákvæði; en hvort honum eru þau beint geðfeld, skal eg ekkert um segja. Hér hafa nú enn sem fyrri verið haldnar hrókaræður um smáskamtalækna. Eg er alveg ólærður í þeim efnum, en mér hefir heyrst á þm. Dal. (B. J.), 1. þm. N.-Múl. (J. J.) og 2. þm. Rang. (E. J.), að þeir vissu jafnlangt nefi sínu í lækningalistinni. En eftir því tek eg að

þessum læknisfræðingum ber ekki saman.

Eftirtakanlegt kynni það að vera í þessu sambandi, hvernig ólærðir læknar hafa annars gefist hér á landi, og að lengi höfum við orðið að bjargast við þá. Þykir mér rétt til nokkurrar kynningar að líta yfir það efni.

Hér á landi hafa menn bjargast við ólærða lækna alt fram til 1760. Að vísu voru hér hinir svonefndu bartskerar, menn sem höfðu lært lítilsháttar að binda um sár og fengust við handlækningar svo nefndar. En síðan læknaskipunin komst á 1760, hafa skottulæknar verið notaðir jöfnum höndum og lærðu læknarnir. Og margir mundu án efa hafa mátt sakna þess, ef ekki hefðu verið smáskamtalæknar hér, sem margir hafa verið að góðu kunnir alt fram á okkar daga. Eg minnist margra þeirra, og hafa sumir verið settir af landsstjórninni til þess að gegna læknisembættum, þegar læknislaust hefir verið. Eg vil leyfa mér að nefna nokkra: Sigurði prófasti Gunnarssyni á Hallormsstað og Þórarni prófasti Böðvarssyni í Görðum þóttu takast lækningar mjög vel — og voru báðir þeir settir fjórðungslæknar; — einkum fór orð af lækningum Þórarins prófasts, meðan hann var í Vatnsfirði. Þar á undan var Jakob prófastur í Gaulverjabæ, sem einnig þótti mjög heppinn læknir. Þá má einnig nefna Þorleif í Bjarnarhöfn, sem var orðlagður læknir á sínum tíma. Hann var mentunarlaus maður og kunni lítt til skriftar, en svo nærfærinn læknir, að lærðir læknar vísuðu mönnum til hans. Af smáskamtalæknum má nefna síra Sveinbjörn Guðmundsson í Holti, síra Þorstein á Hálsi, síra Jón Austmann, síra Magnús á Grenjaðaratað, síra Bjarna Sveinsson í Stafafelli, síra Arnljót Ólafsson og enn fleiri alkunna menn, sem engir klaufar hafa þótt.

Það er enginn efi á því, að í báðum flokkum þessara lækna, stórskamta- og smáskamtalækna, eru margir ágætismenn, og einnig margir skussar. Eg hefi sjálfur séð ýmsa lærða lækna ósjálfbjarga af fylliríi. (Bjarni Jónsson: Hinir eru kannske allir í bindindi). Það segi eg ekki, en það er óforsvaranlegt, að þeir menn, sem lagaskyldu hafa til að bjarga heilsu manna og lífi, séu svo á sig komnir, þegar þeirra er leitað. Það er heldur ekki eingöngu læknismentunin, sem mest er undir komið, heldur að menn séu náttúraðir fyrir verkið. Náttúran er náminu ríkari. Margir »lærðir« lögfræðingar hafa einnig verið hálfgerðir kusar, svo að góðir hreppstjórar hafa stundum staðið þeim fyllilega á sporði hvað lagakunnáttu snerti.

Eins og eg hefi áður tekið fram, þá er ekki lítið, hvað sjúklingana snertir, komið undir trú á læknunum, og allra merkilegast þykir mér, að jafn »ortodox« maður og hv. þm. Dal. (B J.) skuli fárast út af trausti á ólærðum læknum. Hafi menn náð lærdómum í læknisfræði, þá er það án efa ágætt, en reynslan er eigi að síður ólýgnust, og hún sýnir, að aðrar lækningaaðferðir en »lærðar«, svo sem lestur guðsorðs, handayfirleggingar og annað þess háttar hefir haft bætandi áhrif á sjúklinga. Það ætti og nokkuð að standa á sama, hvort lærðir eða ólærðir læknar veita mönnum heilsubót.

Tekið hefir það verið fram hér, að menn hafi dáið, þótt þeir hafi leitað homöopata. En hefir það aldrei heyrst, að menn hafi einnig dáið, þótt þeir hafi leitað stórskamtalækna?