28.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1304 í B-deild Alþingistíðinda. (1574)

46. mál, lækningaleyfi

Jón Jónsson (1.þm.S.-Múl.):

Mönnum hefir orðið mjög skrafdjúgt, en þó langaði mig til að gera dálitla athugasemd út af ræðu hv. framsögum. (J. Þ.). Hann tók til dæmis, að skottulæknar hafi verið settir af landsstjórninni, svo sem þeir Sigurður Gunnarsson og Þórarinn Böðvarsson. Þetta er alveg rétt, en í frumvarpinu er gert ráð fyrir, að ólærðir læknar geti fengið lækningaleyfi. Hann neytti sögufróðleiks síns og sagði að landið hafi lengst af einungis haft skottulækna. En eg veit ekki betur en að meðalaldur hafi hækkað síðustu árin, og hygg eg það mest koma af því, að læknar hafi kent mönnum að gæta heilsu sinnar og lifa skynsamlega. Sem sönnun fyrir sínum málsstað talaði hann um stórslátrara og drykkjuskap þeirra. Því neitar enginn, að það hafi átt sér stað. Eg er ekki ánægður með frumvarpið, eins og það er, og það er landlæknir ekki heldur, en það var gert til samkomulags í nefndinni, og við reyndum að láta undan eins og hægt var. Vil eg því heldur en ekki ganga að frumvarpinu.